Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 12:17:16 (8092)

2002-04-22 12:17:16# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 2. minni hluta GAK
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (frh.):

Herra forseti. Nokkrum sinnum hefur verið látið að því liggja í umræðunni að við stæðum frammi fyrir nýjum veruleika, eins og það hefur verið orðað. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur nefnt það nokkrum sinnum að þessi nýi veruleiki væri sá að stjórnarliðunum hefði tekist það ætlunarverk sitt að kvótasetja fleiri fisktegundir og kvótasetja smábátana í krókaaflamarkinu og að krókaaflamarkið sé hinn nýi veruleiki sem við verðum að búa við.

Út af fyrir sig er því auðvitað ekki mótmælt af þeim sem hér stendur að ævinlega neyðast menn til að taka mið af löggjöf sem sett hefur verið hverju sinni og vissulega er löggjöfin sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. En hitt er alveg jafnljóst að sá veruleiki sem festur hefur verið í lög á undanförnum missirum og árum, vil ég segja, að því er varðar stjórn fiskveiða hefur ekki skapað sátt um þessa stjórnunarleið. Og það sem meira er, veruleikinn sem við búum við hefur ekki fært okkur neitt sem við getum fest hönd á að sé uppbygging í auðlindinni okkar, uppbygging á fiskveiðistofnunum.

Herra forseti. Mér finnst ævinlega ríkari og ríkari ástæða til þess að sýna harðari afstöðu gegn þessu fiskveiðistjórnarkerfi vegna þess að þau markmið sem menn settu sér með því og birtast í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, þ.e. um að lögin eigi að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og stuðla að uppbyggingu fiskstofnanna, hafa ekki náðst. Hvorugt þessara meginákvæða laganna hefur tekist. Þess vegna finnst mér að sá veruleiki sem orðaður er svona og við eigum að búa við, sé alla vega sú framtíð sem ég sé mig knúinn til að berjast gegn. Ég get ekki séð að sú stefnmörkun sem nú er kallaður nýr veruleiki hafi fært okkur betri umgjörð til þess að vinna í eða hafi með nokkrum þeim hætti sem ég fæ komið auga á tryggt stöðu byggðanna, fólksins í byggðarlögunum eða atvinnuöryggi þess. Þess vegna lýsi ég því yfir að ég er andvígur því að festa hugsun mína við að búinn hafi verið til nýr veruleiki sem menn séu tilbúnir til að vinna eftir. Ég er það ekki, herra forseti, og mun ekki sitja þegjandi undir því að sú framtíð sem núna er ævinlega verið að festa meira og meira í sessi, og þetta frv. gengur auðvitað út á að festa enn frekar í sessi, sé sá nýi veruleiki sem við eigum að byggja á. Því mótmæli ég eindregið, herra forseti. Ég tel það vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ég tel það vinna gegn hagsmunum fólks í sjávarbyggðunum og í raun vera algjörlega andstætt öllu sem við getum kallað nafninu byggðastefnu eða því hlutverki stjórnvalda að viðhalda byggð í þessu landi, þ.e. sú útfærsla sem við höfum búið við og sú útfærsla sem við höfum verið að festa í sessi, m.a. á þessu þingi með kvótasetningu krókabátanna, kvótasetningu í fisktegundum sem ég kem ekki auga á að hafi verið nein nauðsyn á að kvótasetja. Þá á ég sérstaklega við fisktegundirnar sem núna síðast voru kvótasettar í smábátakerfinu, ýsu, steinbít og ufsa.

Niðurstaðan þess að stjórnarliðar kvótasettu þessar tegundir hefur aðeins valdið óöryggi í byggðunum og dregið úr trú fólks á því að byggðirnar haldi velli vegna þess, eins og ég hef stundum orðað það, að þetta hvetur smágreifann alveg jafnmikið þegar hann hefur fengið úthlutað aflaheimildum sínum, kvóta sínum og ræður því einn og sér hvað hann gerir við hann, til að selja þennan veiðirétt frá sér. Í útfærslunni varðandi smábátana eru engin ákvæði um að kvótarétturinn sem úthlutað hefur verið til bátanna í byggðunum tilheyri byggðunum eða festist við byggðirnar með einhverju lagi. Óvissan sem ævinlega hefur fylgt frjálsu framsali og sölu aflaheimilda og leigu aflaheimilda hefur því aukist með þessari ákvörðun sem hefur leitt af sér það sem nú er kallað hinn nýi veruleiki krókaaflamarksins sem menn verða að búa við og taka tillit til.

Auðvitað neyðast menn til þess að reyna að spila eftir lögunum meðan þau eru í gildi. En að segja að þetta sé hinn nýi veruleiki framtíðarinnar við stjórn smábátaflotans eða til marks um hvernig við munum í framtíðinni stýra strandveiðum, tel ég ranga stefnu og stórhættulega í raun fyrir íslensku þjóðina. Það mun ekki tryggja okkur afrakstur af fiskstofnunum og þar af leiðandi munum við sitja uppi með að við munum halda áfram að njóta minni afraksturs af fiskstofnum okkar.

Margt hefur verið sagt og skrifað um hvers konar stýringu við höfum tekið upp á veiðunum og hversu litlum árangri þær hafa skilað, en eins og menn vita hefur þorskstofninn ekki stækkað undir þessu stjórnkerfi sem við höfum notað, þ.e. frjálsu framsali kvótakerfisins eða kvótabraskskerfinu eins og ég hef oft kosið að kalla það. Þannig get ég lýst í einu orði í raun og veru kerfinu sjálfu og eiginleikum þess. Það er auðvitað svo að þorskstofninn hefur um langan aldur verið meginundirstaða almennra botnfiskveiða og hefur borið uppi meiri hluta tekna af almennum botnfiskveiðum. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli hvort við séum á uppbyggingarleið varðandi þorskstofninn eða höfum sífellt verið að minnka hann eins og staðreyndin hefur verið undanfarin 12 ár kvótakerfisins frá því að það kom að fullu til framkvæmda.

Herra forseti. Ein nýjustu skrifin sem ég hef séð um íslenska kvótakerfið birtust í Morgunblaðinu í gær, sunnudaginn 21. apríl. Þó að vissulega megi finna eldri skrif, og kannski mun ég grípa ofan í þau einhvern tíma síðar í ræðu minni, þá langar mig, með leyfi forseta, að vitna í þessa grein. Hún er skrifuð af Jónasi Bjarnasyni efnaverkfræðingi sem hefur skrifað margar greinar um sjávarútveg á undanförnum árum. Í stað þess að vitna í fjöldamargar greinar aðrar, þó að ég e.t.v. muni víkja eitthvað að þeim í máli mínu eða önnur skrif eða texta sem skrifaðir hafa verið, vil ég, með leyfi forseta, fá að vitna í þessa grein. Mér finnst hún og samantektin sem í henni er mjög þörf lesning fyrir alla þá sem hafa skoðanir á og vilja fylgjast almennt með umræðu um stjórn fiskveiða. Í þessari grein fjallar höfundur um ávöxtun botnfiskstofnanna, ekki bara hér við land heldur einnig við Kanada, þ.e. um það sem kallað hefur verið Kanadaveikin og varð til þess að þegar menn töldu sig vera að taka upp virka og góða kvótastjórn við Kanada þá hrundu stofnanirnir. Má minnast í því sambandi, herra forseti, á grein sem fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Jakob Jakobsson, skrifaði um fiskveiðistjórn í Norður-Atlantshafi fyrir nokkrum árum. Þar lýsti hann því m.a. að í Kanada væri vel staðið að því að stjórna veiðum og halda utan um fiskstofnana og byggja þá upp með þeirri aðferð sem þá hafði verið tekin upp í Kanada. Síðan værum við á Íslandi svona einhvers konar miðlungsmenn því við hefðum ekki stigið skrefið til fulls í kvótastjórn og hefðum verið með sóknarmark í okkar veiðum, en þó tæki steininn úr þegar komið væri upp í Barentshaf þar sem stofnarnir væru á algerri niðurleið. Þetta snerist nú allt við skömmu eftir að sú grein var skrifuð. Hrunið varð í Kanada, sem höfundur þessar greinar kalla Kanadaveikina. Síðan hefur auðvitað orðið hrun í þorskveiðum okkar hér við land. En tveimur árum eftir að greinin hafði verið skrifuð varð hins vegar mikil uppsveifla í Barentshafinu. Sá sem skrifaði þá grein, Jakob Jakobsson fiskifræðingur, sá auðvitað ekki fyrir hvað gerðist og spádómar hans í þessa veru reyndust ekki réttir frekar en aðrir spádómar í fiskifræðinni.

[12:30]

Herra forseti. Mig langar að vitna í þá grein og byrja á því að lesa upp smátexta um vöxt og afrakstur fiskstofnsins þorsks. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Árið 1930 var þorskstofninn á Íslandsmiðum 2,7 millj. tonn`` --- 1930 var hann talinn vera 2,7 millj. tonn en er í dag samkvæmt síðustu úttekt Hafrannsóknastofnunar talinn vera 577 þús. tonn ef ég man rétt. --- ,,en þá var 6 ára þorskur lítill vegna mikils álags á miðunum.`` --- Hér er verið að tala um fæðuálag, stofninn hafi verið það stór að álagið á miðunum hafi verið mikið. Þetta er haft eftir Sigfúsi A. Schopka og er vitnað í ICES-skýrslu frá 1994. --- ,,Þegar veiðar voru auknar minnkaði stofninn niður í 2 millj. tonna um 1935 og var á því róli um 20 ár til 1955 og seig svo niður. Allan þennan tíma var umræddur stuðull að meðaltali um 6,5 með litlum sveiflum eða alveg til 1960, en afli var þá á milli 400 og 450 þús. tonn á ári.`` --- Núna erum við hins vegar að veiða 190 þús. tonn. --- ,,Síðan fór veiðistofninn og stuðullinn að síga niður í um tíu ára lotum, svolítið upp og svolítið niður. 6 ára þorskur var stærstur 4,2 kg að meðaltali 1960`` --- og stofninn þá talinn um 2 millj. tonna --- ,,en er nú undir 3 kílóum.`` --- Síðan kemur spurningin: ,,Hvers vegna fer hann minnkandi á sama tíma og veiðistofninn fer líka minnkandi? Stuðullinn hefur síðan fallið smám saman úr 6,5 að meðaltali fram til 1960 og er nú kominn niður í 1,7--1,9 eftir því hversu mikið mark tekið er á meðalþunga í veiði vegna brottkasts eða togararalli Hafró; þetta bendir til þess að ávöxtun stofnsins sé komin niður fyrir þriðjung af því sem hún var áður og aflabrögð eru eftir því. Kvótinn ætti að vera nú undir 150 þús. tonn með 25% reglunni eða um þriðjungur af langtímaveiði áður; því bendir flest til að gengið sé á höfuðstólinn sem var talinn vera 577 þús. tonn á síðasta ári og er enn á niðurleið. En hvers vegna fer ,,ávöxtun`` stofnsins minnkandi?``

Er nema von að spurt sé því að líffræðin, herra forseti, segir okkur auðvitað það að færri fiskar ættu að hafa betri afkomu og ættu að vaxa hraðar nema því aðeins að eitthvað hafi gerst hjá okkur í veiðunum, sem reyndar eru leiddar líkur að í umræddri grein, að við höfum breytt náttúruvali stofnsins og verið lengi í því að veiða ofan af stofninum og minnka afrakstursgetu hans, þ.e. veiða hraðvaxta fiska og skilja eftir fiska sem vaxa hægar. Það getur m.a. verið ástæðan. Hin ástæðan sem ég tel að sé einnig þáttur í því að þorskur vex ekki eins vel og áður er vegna þess að við höfum farið inn í fæðukeðjuna. Við erum sem sagt að veiða stóran hluta af fæðukeðjunni og það hefur eðlilega áhrif á vaxtarhraða þorsksins, við veiðum 900 þús. til milljón tonn af loðnu og við veiðum rækju í þó nokkrum mæli þó að ég telji reyndar, og mun koma að því síðar, að rækjuveiðarnar geti ekki verið ráðandi þáttur í þessu. Það er miklu frekar að afrán þorsksins á rækjunni sé ráðandi hlutur um rækjuveiðarnar og er hægt að færa fyrir því mörg rök, m.a. athuganir fiskifræðingsins Ólafs Karvels Pálssonar á því hve þorskur át mikið af rækju en ef ég man rétt var talið að 1984 hafi þorskstofninn í marsmánuði það ár komist upp í að éta 52 þús. tonn af rækju. Og með slíku afráni þó að það hafi verið það mesta sem menn gátu fundið í maga hans, þá er alveg ljóst að þorskstofninn er virkur afræningi á rækju og hefur veruleg áhrif á afrakstursgetu okkar af rækjustofninum. Þar af leiðandi eru fá rök til þess í raun og veru að vera með sterkar kvótasetningar á rækjuveiðunum. Þar spilar líffræðin miklu meira inn í eins og hún að stórum hluta gerir líka varðandi þorskinn.

Samt sem áður eru leiddar að því líkur í grein Jónasar Bjarnasonar og farið mjög gaumgæfilega yfir það að veiðimunstur okkar í kvótakerfi sé m.a. þess valdandi að við veiðum stærri fiskinn og breytum í raun og veru afrakstursgetu þorskstofnsins og reyndar er það auðvitað að koma í ljós sem haldið hefur verið fram af fiskimönnum og fiskiskipstjórum áratugum saman að hér við land séu misjafnir þorskstofnar sem séu staðbundnir eða haldi sig í meira mæli á ákveðnum stöðum í kringum landið. Þessu var auðvitað mótmælt af fiskifræðingum lengi vel en er auðvitað núna að koma í ljós eins og fleira sem fiskimenn hafa haldið fram í gegnum tíðina að á við rök að styðjast og það hefur verið sannað m.a. með því að gera úttektir á hraðvaxta fiski á Loftsstaðahrauni og hins vegar í kantinum austan við Eyjar þar sem er minni fiskur og ekki blandast inn á grunnslóðina að því er virðist vera. Auðvitað er þetta þekkt vítt og breitt í kringum landið að þar eru staðbundnir stofnar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lesa meira fyrr en ég kem að niðurlagi greinar Jónasar Bjarnasonar, sem eins og ég sagði áður birtist í Morgunblaðinu í gær og er fræðileg og góð samantekt um þessi mál og dregur í raun og veru saman margt af því sem skrifað hefur verið og sagt um stjórn fiskveiða á undanförnum árum. Þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að vitna í þá grein og skora hér með á þá sem hlýða á mál mitt að lesa hana gaumgæfilega. Mér finnst hún mjög athyglisverð og varpa ljósi á það að sú fiskveiðistjórn sem við erum með og nefnd er kvótakerfi er alröng og deili ég þar skoðunum mínum með dr. Jónasi Bjarnasyni, að við munum ekki að mínu viti ná miklu viti í fiskveiðistjórnina með því að halda þessu áfram með sama hætti og verið hefur. Þess vegna verð ég að segja að ég er sorgmæddur yfir afstöðu hv. 1. þm. Vestf. þegar hann kallar þetta hinn nýja veruleika sem við eigum að taka mið af. Ég lýsi því yfir a.m.k. fyrir mína hönd að ég mun berjast gegn þeim nýja veruleika að hann verði sú framtíðarsýn sem við búum við. Ég tel hann ekki geta verið það ef við ætlum að vinna þjóð okkar heilt í ljósi margra raka sem ég gæti rakið í allan dag í máli mínu.

Herra forseti. Í niðurlagi greinarinnar, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, og gera hluta að minni ræðu, segir um nýtingarstefnuna:

,,Af ofangreindum ástæðum er ljóst að tími óstaðsettra og óstofnbundinna aflamarkskvóta á að vera liðinn svo og vegna þess, að mikilvægustu skilaboð náttúrunnar um skort eða brest sem og óhagstæðar erfðabreytingar, komast illa til skila því aukin tækni og vélarafl getur lengi byrgt mönnum sýn þar til einstakir eða allir stofnar eru næstum uppveiddir. Þess vegna er aðeins tímaspurning hvenær menn sjá að sóknarmarkskerfi ásamt miklum takmörkunum á stærðarveljandi veiði verður að taka upp hér sem allra fyrst;`` --- og nú held ég að menn ættu að leggja við eyrun sem telja að við séum komin í nýjan veruleika með vaxandi kvótastjórnun og það verði það sem við þurfum að búa við, og ætla að leyfa mér að endurtaka þessa fyrstu setningu: ,,Þess vegna er aðeins tímaspurning hvenær menn sjá að sóknarmarkskerfi ásamt miklum takmörkunum á stærðarveljandi veiði verður að taka upp hér sem allra fyrst; merkir vísindamenn hafa lagt slíkt til á síðastliðnum árum eftir að hafa stundað rannsóknir í áratugi og séð hvað gerst hefur úti um allan heim. Þótt ýmis vandkvæði svo sem kapphlaup og afkastaaukning geti fylgt sóknarstýringu, eru þau smáræði miðað við aflabrest í áratugi hvað þá hrun og þjóðaráfall svo og byggðabrest.`` Hér er ekki lítið sagt. Síðan segir áfram: ,,Hann er þegar orðinn að veruleika og er það vísast bara byrjunin ef fer sem horfir. En augljóst hlýtur að vera að einnig þurfi til að koma veiðibönn fyrir net á mikilvægustu hrygningarslóðum og að heilu hafsvæðin verði tekin frá fyrir krókaveiðar eingöngu.

Fyrir skemmstu kom fram í blaðaskrifum að fræðimenn á Hafró væru sammála um nýtingarstefnuna. Þá vaknar sú spurning hvað við er átt; flestir telja væntanlega að hér sé átt við kvótakerfið, en það er pólitísk ákvörðun um stjórnun og nýtingu sem stofnunin og einstakir sérfræðingar hennar eiga tæpast opinberlega að taka þátt í á annan hátt en þann, að segja álit sitt á valkostum og hvers vegna. Einnig hafa komið til umræðu áhrif stærðar veiðistofns á nýliðun og hefur þá komið fram sú skoðun réttilega, að verndun veiðistofns sé ekki bein ávísun á meiri afla eða því gerðir skórnir, til vandræða því miður, að nýliðun sé í öfugu hlutfalli við veiðistofn vegna meiri afráns þegar veiðistofninn er stór. Tölur Hafró sýna að samband á milli stofnstærðar og nýliðunar er lítið sem ekkert. Grisjun þorsks gengur augljóslega ekki upp almennt við núverandi aðstæður nema fyrir einstaka staðbundna stofna sem eru hugsanlega vel staddir.

Ef stofninn er um 600 þús. tonn á hann að geta borið veiðar upp á tæp 180 þús. tonn miðað við vöxt hans 1960--1965 án þess að rýrna (með 18% náttúrulegum dauða), en það er bara ekki þannig; fróðlegt verður því að fá niðurstöður úr vorralli Hafró sem var að ljúka. Ef bara ætisskortur er að verki hefur mikið breyst í náttúrunni, en það stenst varla með hliðsjón af því sem sagt hefur að framan. Þótt vitað sé að æti takmarki vöxt botnfiska á miðunum þegar á heildina er litið ...`` --- Síðan segir og ég ætla að láta það verða lokaorð mín í þessari tilvitnun í umræddri grein:

,,Ef sóknarstýring er stunduð taka menn minni áhættu með því að veiða of mikið því ungar kynslóðir með góða eiginleika eru í uppvexti ef almennar verndunarforsendur erfða eru til staðar og koma þær brátt inn í veiðar. Ef of mikið er veitt fá menn bara skammtímaráðningu fyrir göslugang og óforsjálni því þá verða lítil áhrif á stærðarmynstur árganga og þannig ekki stuðlað að útbreiðslu verri eiginleika.``

[12:45]

Herra forseti. Ég vitna í þessa grein vegna þess að hún tekur í almennu máli saman ýmsar vangaveltur í gegnum tíðina varðandi fiskveiðistjórn, nýtingu okkar á fiskveiðistofnunum, ætismöguleika og ýmislegt fleira. Hvað svo sem menn segja er staðreyndin sú að við tókum upp þessa fiskveiðistjórn 1984 vegna þess að við náðum ekki þeim afla sem Hafrannsóknastofnun hafði ráðlagt okkur að veiða. Viðbrögðin urðu það sem ég hef stundum kallað hræðslukast. Við brugðumst við með því að koma á kvótakerfi sem var sett á til reynslu 1984 til eins árs eins og menn vita.

Þegar útgerðarmenn sáu að þarna gátu þeir verið komnir með seljanlega vöru og mikla veðsetningarmöguleika börðust þeir hart fyrir því að viðhalda þessu kerfi og hafa gert alla tíð síðan. Margar ástæður geta verið fyrir því að þannig hefur verið haldið á málum. Vafalaust er ein þeirra sú að framseljanleika var komið á í kerfinu. Í stað þess að hafa aðeins tekjur af því að gera út, þ.e. að tekjurnar væru eingöngu tryggðar með því að skip færu til veiða og öfluðu fiskjar, fékk útgerðin nýja tekjumöguleika. Þeir voru annars vegar leiga á aflaheimildum eða í versta falli að menn seldu frá sér aflaheimildir.

Auðvitað kom upp alveg ný hugsun, ný spekúlasjón, þegar menn fóru að skoða hvort hagkvæmara væri að selja þessa fisktegundina eða hina og kaupa til sín aðra tegund eða skipta á jöfnu eftir þeim stuðlum sem upp voru settir. Í einu orði hefur þetta oft verið kallað, af þeim sem hér stendur og mörgum fleiri, kvótabrask --- þegar menn tóku að þróa ýmsar aðferðir til að gera veiðirétt og nýtingarrétt, sem átti aldrei að vera annað, að leigurétti, sölurétti, skiptirétti og alls konar viðskiptarétti, m.a. með veðsetningu. Þar með breyttist eðli útgerðarinnar þannig að ekki fóru lengur saman hagsmunir landsmanna í hinum dreifðu byggðum, sjómanna, og hagsmunir útgerðarmanna. Þessir hagsmunir höfðu um aldir verið órjúfanlegir og byggðirnar urðu til vegna þess að sennilega þótti hagkvæmt að sækja þaðan sjó, góð hafnarskilyrði eða þá að menn völdu sér að vera jafnvel við erfiðari hafnarskilyrði, t.d. í Bolungarvík, vegna þess að þar væri styttra á sjó, svo dæmi sé tekið.

Það var auðvitað svo að þar sem útgerðin setti sig niður myndaðist smátt og smátt byggð. Þar urðu byggðakjarnarnir allt í kringum landið til. Þess vegna varð sjósóknarrétturinn, rétturinn til að veiða fiskinn, fólkinu mikils virði. Fólkið átti í raun alla sína atvinnu- og afkomumöguleika í að sjósóknarrétturinn væri útgerðarmönnum áfram sama verðmæti og sami verðmætahvati eins og hann var fólkinu. Sjómennirnir áttu alla sína afkomu undir því að útgerðarmaðurinn vildi gera út á fiskveiðar því. Í því lá atvinna þeirra.

Þessu var öllu breytt þegar útgerðarmaðurinn fékk leigu- og sölurétt á óveiddum fiski. Þá komu upp önnur sjónarmið og atvinnurétturinn varð að söluvöru, hvort sem menn seldu hann af ásetningi til að taka peninga út úr kerfinu eins og sagt hefur verið eða lentu í rekstrarerfiðleikum og aflaréttindin fylgdu með þegar fyrirtæki voru seld.

Auðvitað varð mikil breyting þegar aflarétturinn fór frá byggðarlögunum en hann gerði það eftir að kvótakerfið var tekið upp. Afleiðingin af lögunum frá 1990, þegar við fórum alfarið yfir í frjálst framsal aflaheimilda, tókum burt allar hugsanlegar kvaðir sem höfðu fram að því fylgt skipunum í kvótakerfinu. Þá voru felldar niður þær kvaðir að ekki mætti gera skip kvótalaus, að spyrja þyrfti sjómannafélag á viðkomandi stað hvort selja mætti kvótann úr byggðarlaginu. Þessar kvaðir voru allar teknar burtu og framsalið gert algerlega frjálst. Árið 1990 voru nokkrir sem mótmæltu því að slíkt skyldi gert. Ég held að Farmanna- og fiskimannasambandið hafi verið einna sterkast í mótmælum gegn því að leyfa frjálst framsal kvóta, leigu og sölu í kvótakerfinu en fjöldamargir aðrir tóku þá afstöðu. Mig langar aðeins að rekja blaðaumfjöllunina um fiskveiðistjórn frá fyrri hluta ársins 1990. Þá var m.a. fjallað um síðasta fund samráðsnefndar um kvótafrumvarpið. Samráðsnefndin hafði unnið að breytingum á kvótakerfinu, stór nefnd sem í áttu sæti allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, verkafólk, stjórnmálaflokkarnir, Verkamannasambandið, Alþýðusambandið og fleiri aðilar. Í umfjöllun um þennan fund kom eftirfarandi fram, ef mér leyfist að vitna í það, herra forseti:

,,Flestir vilja tengja kvóta við byggðarlög á síðasta fundi samráðsnefndar um kvótafrumvarpið en nær allir aðilar skiluðu séráliti eða bókunum.``

Síðan segir: ,,Síðasti fundur samráðsnefndar um kvótafrumvarpið var haldinn í gær. Nær allir þeir stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök sem fulltrúa eiga í nefndinni skiluðu séráliti eða bókunum. Ljóst er að því fer víðs fjarri að nokkurt samkomulag sé um þau drög að frumvarpi til stjórnar fiskveiða sem sjávarútvegsráðherra hefur samið og verið hefur til meðferðar í nefndinni. Það sem er mest áberandi í séráliti og tillögum þeim sem lagðar voru fram í gær er hve margir vilja tengja kvóta byggðarlögum í stað þess að hann fylgi veiðiskipi eins og nú er.``

Hér er síðan samantekt á því hverjir höfðu þessa afstöðu. Þeir sem höfðu þá afstöðu að vilja tengja beint við byggðarlögin voru Kvennalisti, Alþýðubandalag, Samtök um jafnrétti, Verkamannasambandið, Borgaraflokkur og Alþýðuflokkur. Allir þessir aðilar þóttust sjá að með frjálsa framsalinu væri réttur byggðanna fyrir borð borinn og þess vegna vöruðu menn sérstaklega við því.

Margir voru andvígir sölu á kvóta, segir í þessari blaðagrein, með leyfi forseta:

,,Þá var nokkur andstaða gegn því að hægt sé að selja kvóta. Þar fer fyrir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sem neitar að styðja frumvarpið vegna þessa.``

Síðan er upptalning á þeim sem höfðu þá afstöðu. Þar er Farmanna- og fiskimannasambandið eins og áður sagði, Sjómannasamband Íslands, Alþýðubandalagið, Verkamannasambandið, Borgaraflokkur, Kvennalisti og Félag smábátaeigenda. Allir þessir eru andvígir því að salan á kvótanum eigi sér stað. Þar með er alveg ljóst að jafnvel 1990, þegar við vorum að ræða þau lög sem við ætlum nú að fara að gera breytingar á og erum í raun og veru að festa í sessi með þessu frv., voru menn í samráðsnefndinni árið 1990 auðvitað farnir að sjá hvert stefndi. Þá var hafin verslun með kvótaréttinn og allt byggðist á að menn börðust innbyrðis um að ná til sín kvótaúthlutunum og sala og leiga var hafin.

Á þessum tíma, herra forseti, var varað sérstaklega við því hvert við værum að fara með því að festa í gildi lögin nr. 38/1990, sömu lög sem við erum að breyta í dag. Það liggur alla vega fyrir, herra forseti, að þó að menn hafi haft misjafnar skoðanir á kvótakerfinu frá 1984--1990 voru mjög margir í mikilli andstöðu gegn því að kvótakerfið skyldi fært í þann farveg sem það er í í dag og við ætlum núna að festa í sessi. Meginefni þessa frv. er að íslenskir útgerðarmenn hafa gengist undir að borga ákveðið gjald, veiðigjald. Til hvers? Til þess að festa kerfið í sessi. Það er meginefni málsins. Þrátt fyrir að þeim sé ekki ljúft að láta frá sér peninga ætla þeir samt að láta það yfir sig að ganga að borga veiðigjald fyrir að festa niður kvótakerfið. Um það snýst þetta frv. ráðherrans.

En jafnvel LÍÚ hefur mótmælt framsetningunni í frv. og ég er ekkert hissa á því. Ég mun gera það að umræðuefni síðar í dag hvaða hættur felast í þessari útfærslu veiðigjaldsins eins og það er, bæði fyrir útgerðir, þ.e. einstaka útgerðarflokka vegna þess að gjaldið er byggt á meðaltali, og eins fyrir landshluta og útgerðarmunstur í hinum dreifðu byggðum landsins.

Herra forseti. Kvótalögin tóku að endingu gildi eins og þau eru úr garði gerð, sem meginstefna við stjórn fiskveiða en þau höfðu ekki verið meginstefna fram að því og er rétt að draga það aðeins fram. Árið 1990 var bæði í gildi sóknarmark og aflakvóti. Hvað svo sem sagt er er það staðreynd að þeim skipum fjölgaði ár frá ári, frá 1984--1990, sem völdu sér sóknarmarkið. Menn vildu frekar vera þeim megin. Niðurstaðan varð hins vegar sú að kvótakerfinu var þröngvað yfir landslýð. Það var stefnan sem stjórnvöld vildu ná fram. Ef ég man rétt var það gert í svefnrofum á síðustu fundum þings það árið, herra forseti.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni þegar hentar.)

Sjálfsagt, herra forseti. Það hentar ágætlega núna.