Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 16:11:35 (8096)

2002-04-22 16:11:35# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur nokkrum sinnum vikið að því að ég hafi komist þannig að orði að tala um veruleikann og það er alveg rétt. Það er einhvern veginn þannig með veruleikann að hann er staðreynd og menn verða auðvitað að horfast í augu við veruleikann, við staðreyndirnar og vinna í samræmi við það. Það er það sem ég hef átt við. Það er ekkert annað sem ég hef verið að segja. Ég hef út af fyrir sig ekki verið að breyta um skoðun í einu eða neinu. Ég hef einfaldlega verið að segja það að til þess að reyna að starfa innan þess sem við sjáum að er veruleikinn í dag, sem er staðreyndin í dag, þá verðum við auðvitað að viðurkenna að þannig eru hlutirnir. Síðan getum við reynt að vinna hver á sínum vettvangi, hver með sínum skoðunum að þeim breytingum sem við viljum gera og það tel ég mig hafa reynt að gera.

Ég hef líka sagt það og vakið athygli á því að byggðakvótarnir eru orðnir umsvifameiri heldur en ég held að flestir hafi áttað sig á og ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt að reyna að fara að feta sig út úr þeirri leið, ekki inn í hana. Í því sambandi hef ég t.d. verið að horfa til hugmynda á borð við þá að veita einhvers konar línuívilnun, og vil ekkert endilega festa mig nákvæmlega í þá útfærslu heldur hef ég verið að segja að þarna kynni að vera leiðin fyrir okkur út úr þessu að setja inn í fiskveiðistjórnarkerfið einhvers konar línuívilnun af einhverjum toga sem gæti auðveldað okkur þessa leið út úr byggðakvótamálinu einfaldlega vegna þess að það er auðvitað þannig að byggðakvótarnir eru settir upp, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, til þess að koma til móts við þau byggðarlög sem hafa minnsta veiðiréttinn og það hefur auðvitað skilað árangri á mörgum sviðum. Það hefur aukið veiðiréttinn á þessum svæðum eins og margoft hefur komið fram. Hins vegar eru þessi kerfi samfara mjög mörg vandamál og þess vegna hef ég t.d. verið mjög gagnrýninn á byggðakvótahugmyndafræðina þó að ég hafi hins vegar í ljósi þeirrar stöðu sem málið er í, fallist á að beita þessari aðferð í því skyni að bæta og auka veiðirétt minnstu byggðarlaganna í landinu.