Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 19:32:32 (8101)

2002-04-22 19:32:32# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[19:32]

Gísli S. Einarsson (frh.):

Virðulegur forseti. Ég var kominn þar að í ræðu minni að ég var að fara yfir umsagnir um frv. til laga um stjórn fiskveiða, veiðigjald o.fl. frá hinum ýmsu aðilum í samfélaginu og ég tel að það sé kannski ástæðu til, af því að þessi virðulegur forseti er kominn í stól, rétt að nefna það að sá sem hér stendur er búinn að fara í nokkru máli yfir það sem hann telur vera afleiðingar af notkun dragnótar og ofnotkun, þ.e. allt of miklum skipafjölda sem leyft er að veiða með dragnót í Faxaflóa. Það vill svo til að ég veit að ég og hæstv. sitjandi forseti erum sammála um það að nauðsyn er að gera miklu meiri athuganir og rannsóknir á áhrifum veiðarfæra, svo sem dragnótar og slíkra veiðarfæra, á veiðislóðina ekki bara í Faxaflóa heldur á ýmsum stöðum á landinu.

Ég var kominn þar að ég var að fara yfir álit nokkurra aðila og hafði nefnt Hafrannsóknastofnun, Verslunarráð Íslands og Lögmannafélag Íslands en hjá sumum þessara aðila er nánast engin umsögn eða mjög takmörkuð þar sem er ekki tekin afstaða til efnisinnihalds. Hér er, virðulegi forseti, með leyfi umsögn Gerðahrepps. Þar segir:

,,Hreppsnefnd Gerðahrepps mælir ekki með samþykkt frv. Hreppsnefnd Gerðahrepps lýsir andstöðu sinni við núverandi kvótakerfi í heild sinni. Því er óþarfi að gera breytingar á því heldur ber að afnema það.``

Herra forseti. Það vill svo til að þessari umsögn er ég algjörlega sammála. Það hefur komið fram í ræðu minni, en við verðum að sjálfsögðu að vita hvað það er sem við viljum fá í staðinn og við verðum auðvitað að gefa þeim útgerðarfyrirtækjum og þeirri starfsemi sem er í landinu sem er háð fiskveiðum tækifæri til að aðlaga sig að breytingum. Þess vegna er ekki hægt að stökkva til þessa máls og draga með einu pennastriki yfir það sem liðið er og hefja nýtt heldur verður að gera þetta með aðlögun og a.m.k. byrja á því að breyta og lagfæra þá alvarlegu ágalla sem eru á framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins.

Ég var að nokkru búinn að fara yfir álit eða umsögn Landssambands smábátaeigenda. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Auk þess sem áður er fram komið um nauðsyn þess að efla umhverfisvænar veiðar og auka atvinnu í hinum dreifðu byggðum mundi breytingin leiða til þess að aflasamsetning breyttist þar sem netaveiðimenn mundu telja þetta fýsilegan kost.``

Hvað eru netaveiðimenn að telja fýsilegan kost eða hvað telja menn fýsilegan kost? Jú, það er að auka vistvænar veiðar, þ.e. með línu og krókum. Það er verið að leggja til að 80% af línuafla dagróðrabáta teldist til aflamarks eða krókaaflamarks. Þessi ráðstöfun yrði trúlega sú fyrsta þar sem sjávarbyggðir yrðu beintengdar úthlutun aflamarks og krókaaflamarks með mjög einföldum hætti. Í umsögn Landssambands smábátaeigenda er verið að benda á leiðir sem eru færar til þess að bæta stöðu byggðanna, hinna dreifðu byggða, en samkvæmt greinargerð sem ég hef margvitnað í liggur fyrir að stjórnkerfi fiskveiða hefur bókstaflega leitt til þess að það eru til orðin hugtök eins og samdráttarstaðir og vaxtarstaðir, beint í tengslum við fiskveiðistjórnarkerfið. Samdráttarstaðir og vaxtarstaðir. Vaxtarstaðirnir eru þeir sem hafa náð til sín heimildunum. Samdráttarstaðirnir eru þeir sem hafa látið undan.

Í umsögn Landssambands smábátaeigenda er líka getið um málefni sem ég gerði fyrr að umtalsefni í ræðu minni, þ.e. frystar afurðir, landað á höfn og síðan fluttar til útflutningshafnar, frá t.d. Ísafirði til Reykjavíkur, og síðan er verið að fjalla um fersk flök þar sem segir hér, með leyfi forseta:

,,Áður hefur fram komið gríðarlegur munur á útflutningsverðmæti ferskra ýsuflaka og sjófrystra.`` --- Það sem þeir eru að benda á er að með því að aðeins 80% af línuafla dagróðrabáta teldust til aflamarks, þá mundi það gefa margfaldar gjaldeyristekjur og gefa stjórnkerfinu jákvæða ímynd þess eðlis að sérstakt tillit yrði tekið til umhverfisvænna veiða við nýtingu fiskstofna við Ísland. Þetta eru hlutir sem er ákaflega nauðsynlegt að menn skoði, að auka vistvænar veiðar og að gera sem mest verðmæti úr þeim afla sem dreginn er úr sjónum. Það fór ég yfir áður í tengslum við möguleka fiskmarkaðanna til að ná sér í fisk. Það er skelfileg staðreynd, virðulegi forseti, að það skuli vera til í því að fiskur sem fluttur er á markað í Bretlandi sé seldur á 138--150 kr. kílóið á sama tíma og afli úr sama skipi á sama degi er seldur á 220 kr. kílóið á Íslandi. Þetta er óskiljanleg ráðstöfun og ég leyfi mér að segja það, virðulegi forseti. Ég hef sent hverjum einasta þingmanni Íslands bréf þar sem mjög rækilega er útskýrt að þetta sé óviðunandi fyrir fiskvinnsluna sem er án útgerðar, fiskvinnslu sem verður að kaupa allan afla á fiskmarkaði hér. Það er óviðunandi að fiskvinnslan fái ekki að bjóða í allan afla áður en hann er seldur á fiskmarkaði erlendis fyrir miklu lægra verð en gangverðið er heima. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti, og þetta er það sem ég hef verið að gagnrýna og er ástæða til að gagnrýna aftur og aftur. Það er ástæða til að fara yfir þessi mál og það þyrfti, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að koma því út til þjóðarinnar hvað það er sem er að. Það er þannig og ég er sannfærður um að meiri hluti þjóðarinnar veit ekki hvað verið er að fjalla um og hvað verið er að gera með því stjórnkerfi sem er við lýði. Það er verið að færa heimildirnar til sífellt færri aðila.

Virðulegur forseti. Umsögn Alþýðusambands Íslands, með leyfi: ,,Að áliti Alþýðusambands Íslands er hvorki að finna í skýrslu nefndarinnar`` --- þ.e. nefndarinnar sem var að leggja til hvernig ætti að vinna að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða --- ,,né í fyrirliggjandi frv. ráðherra um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiðanna þau markmið sem vinna átti að með endurskoðuninni enda áttu hagsmunaaðilar enga aðkomu að þeirri umræðu sem þar fór fram.``

Virðulegur forseti. Þetta tel ég vera eina óhæfuna varðandi framgang þessara mála, að hagsmunaaðlar eins og Alþýðusamband Íslands fái enga aðild að þeirri aðgerð sem er verið að framkvæma með þeim breytingum sem við erum með í frumvarpsdrögum.

,,Meginefni frumvarpsins virðist vera að útfæra veiðigjald á sjávarútveginn sem koma á til framkvæmda 1. sept. 2004, sbr. 10. gr. Þess skal getið að fulltrúar Sjómannasambands Íslands hafa alfarið hafnað auðlindagjaldi á sjávarútveginn. Það hefur hins vegar verið skoðun Alþýðusambands Íslands að nauðsynlegt sé að taka upp auðlindagjald sem hægt væri að nota sem hagstjórnartæki til þess að jafna óhjákvæmlegar sveiflur í sjávarútvegi. Hefði það verið gert á undanförnum árum væru nú til staðar digrir sjóðir og því værum við betur í stakk búin til að mæta niðurskurði á aflaheimildum. ASÍ fær þó ekki séð með hvaða hætti þessi tillaga með upptöku veiðigjalds eykur sátt um kerfið eða bætir umgengnina um auðlindina. Auk þess hefur veiðileyfagjaldið ekkert með stjórn fiskveiðanna að gera og á því ekki heima í lögum um stjórn fiskveiða.``

Virðulegi forseti. Ég geri hlé á tilvitnun og hugleiðing mín er sú að þarna eigi hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mikla samleið með Alþýðusambandi Íslands þar sem segir: ,,Auk þess hefur veiðileyfagjaldið ekkert með stjórn veiðanna að gera og á því ekki heima í lögunum um stjórn fiskveiða.``

Virðulegi forseti. Undir þetta get ég tekið, prýðilega. Það segir hér áfram, með leyfi forseta: ,,Það alvarlegasta varðandi frv. er að það er ekkert tekið á þeim vandamálum sem lúta að stjórn fiskveiðanna sjálfra. Ísland er eina landið í Evrópu sem ekki getur takmarkað stærð flotans og vegna frelsis útgerðarmanna til að framselja aflamark milli skipa hefur skipum fjölgað verulega á undanförnum árum án þess að nokkuð sé að gert.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa margsinnis bent á að skark á miðum væri of mikið vegna of stórs fiskiskipaflota.`` --- Ég stoppa við tilvitnunina, virðulegi forseti, því að það vill svo til að sá sem hér stendur var að reyna að lýsa hugsun sinni um það hvernig fiskurinn hefur látið undan öllu því skarki og harki sem er á fiskimiðunum. Þess vegna er bullandi fiskur uppi í harðalandi inn á milli eyja á Breiðafirði, inni á Ísafjarðardjúpi þar sem menn eru að fá allt að 450 kg á bala á slóðinni sem fyrir 50 árum fengust undir 50 kg á. En það var vegna umhverfisástæðna. 1950 til 1954 voru menn að fá niður í 50 kg, reyndar á 385 króka bjóð á sísal-línu sem þá var notuð og verri veiðitæki, en það breytir ekki því að umhverfið er það sem menn hafa ekki heldur tekið nægjanlegt tillit til.

[19:45]

Virðulegi forseti. Ég vitna aftur til umsagnar Alþýðusambands Íslands:

,,Það þarf því ekki að koma á óvart að hægt gangi að byggja upp okkar mikilvægustu fiskstofna. Brottkast hefur á undanförnum missirum verið fyrirferðamikið í umræðunni. Fiskistofa hefur lýst því yfir að brottkastið sé mest á kvótalausu skipunum. Þrátt fyrir framangreindar upplýsingar er engin viðleitni í frumvarpinu til að taka á þeim vandamálum er snúa beint að stjórn fiskveiða og bættri umgengni um auðlindina.``

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki mín orð. Ég er að vitna í umsögn Alþýðusambands Íslands. Einhver hefði ugglaust getað talið þetta vera mín orð vegna þess að einhvers staðar hef ég talað í líkingu við þetta í ræðustúf mínum.

Virðulegi forseti. Tilvitnun í umsögn Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er sem sagt ekki gerð hin minnsta tilraun til að taka á þeim raunverulegu vandamálum sem snúa að stjórn veiðanna og brýnt er að taka á.

Alþýðusamband Íslands telur einsýnt að frumvarpið skapi ekki þá sátt sem þarf um stjórn fiskveiða. Með frumvarpinu ekkert tekið á þörfinni fyrir sveiflujöfnun. Frumvarpið tekur heldur ekki á mikilvægum þáttum sem snúa að hagsmunum byggðanna, sérstaklega atvinnuöryggi fiskverkafólks né heldur réttarstöðu sjómanna. Með samþykkt frumvarpsins er því ekki tekið á þeim mikilvægu þáttum sem nefndinni var falið að gera að öðru leyti en því að taka á hagsmunum útgerðarinnar með því að endurskilgreina þróunarsjóðsgjaldið og kalla það veiðigjald.``

Virðulegi forseti. Þessi orð eru ótrúlega nærri því sem stjórnarandstaðan sem hér hefur talað hefur látið frá sér fara. Ég vitna enn, virðulegur forseti, í greinargerð um stjórnkerfi fiskveiða og byggðaþróun frá Þjóðhagsstofnun sem sett var af með slátrunargjaldi upp á 52 millj. Sennilega er það allt of lág upphæð. Það kostar miklu meira að slátra stofnuninni. En kannski var það fyrir þau orð sem stofnunin hefur sett fram að hún var sett af.

Ástæða er til þess að ræða í nokkru máli um þekkingu manna á hegðun fiskstofna. Óhætt er að rifja það upp að langt fram eftir öldum var þekking manna á lifnaðarháttum fiskstofnanna lítil sem engin. Það er hægt að minna á lifnaðarhætti síldarinnar. Ef maður nefnir þá t.d. þá héldu menn að síldin gengi geysilanga leið, allt frá norðurheimskauti suður til Frakklands og sömu leið til baka á hverju ári. Menn höfðu ýmsar skoðanir á orsökum þessa ferðalags. Sumir héldu að hvalir rækju síldina á undan sér. Aðrir héldu að þarna væri forsjón guðs að verki. Ýmsir veraldlegir menn álitu hins vegar að fæðuleysi norður við heimskautið ræki hana suður á bóginn. Það leið allt fram til loka 18. aldar að menn afsönnuðu þetta. Menn hafa komist að merkilegum hlutum. En ég held að þeir hlutir séu enn merkilegri sem menn hafa ekki komist að vegna þess að við höfum ekki lagt nógu mikið í að rannsaka það sem þjóðin lifir á að mestu leyti.

Virðulegur forseti. Ég held að ástæða sé til þess undir lok ræðu minnar sem verður kannski í 10--15 mínútur til viðbótar --- ég þori þó ekki að segja um það. En vegna þeirra sem næstir eru á mælendaskrá er óhætt að láta aðeins vita um þann tíma sem eftir er --- að minnast aðeins á upphaf alvöruútgerðar á Íslandi í lok 18. aldar. Þá voru þeir sem höfðu ekki látið bugast við aflaleysið á hverju sem dundi, menn sem voru flestir tengdir sjávarútvegi. Þeim var í rauninni ljóst að allt sem horfði til nýsköpunar og framfara var bundið sjónum. Þessir menn áttu samherja og vitorðsmenn alls staðar meðal sjómanna, meðal bænda, meðal embættismanna. Þeir urðu í rauninni samnefnari þeirra afla og athafna sem fleyttu þjóðinni yfir fyrstu aldamótin á Íslandi sem í raun voru meira en aldamót því að þau voru nýtt líf. Þau voru nýr tími. Fram stigu nýir menn sem hugsuðu hátt og báru djarfar vonir í brjósti. Þeir voru ekki stakir hrópendur í eyðimörk. Andi ferskra viðhorfa lá í loftinu á þeim tíma. Þetta voru kappsfullir ósérhlífnir menn. Þeir réðust í mikilvægar og umfangsmiklar framkvæmdir í atvinnulífi og menntamálum. Sjávarútvegur var efldur, togaraútgerð, verslun varð innlend. Innlendir bankar voru stofnaðir og tryggingamál voru ný af nálinni. Farið var að byggja upp háskólann og nýtt skólakerfi. Þetta voru mennirnir sem réðust í upphaf útgerðar hér á landi. Enn þá eru örugglega margir frumkvöðlar til á Íslandi, en þeir eru færri sem komast að.

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að vitna í Svartan sjó af síld eftir Birgi Sigurðsson þar sem segir örlítið um rómantík þeirra ára þegar síldin var veidd. Þetta er á bls. 115 þar sem er verið að fjalla um síldveiðar sem siðspillandi og stórhættulegan atvinnuveg. Það álitu auðvitað þeir sem héldu að eintómt sukk og svínarí ætti sér stað í síldarbæjunum sem kallaðir voru svo. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Sagnir um frjálst ástalíf og lausung voru bundnar fleiri síldarstöðvum en Siglufirði. Þær voru ekki alltaf andstyggilegar. Stundum ekki annað en skrýtlur.``

Þessi var þekkt og hana heyrði ég sjálfur þegar ég var ungur maður 1959, þá háseti á síld. Þá gekk þessi brandari:

,,Ungur maður spyr unga stúlku: Ertu gift?

Stúlkan svarar: Nei, ég er ekki gift en ég hef verið í Hrísey.``

Þetta þótti gróður brandari í eina tíð.

,,Þetta hafa menn enn að viðkvæði í Hrísey. Þessi skrýtla hefur hins vegar heldur betur fengið þjóðlega meðferð eins og margar aðrar sagnir og ummæli úr síldinni: Heimildir herma að það hafi verið karlmaður en ekki stúlka sem spurður var og svaraði. En munnmælaskáldum hefur þótt fara betur á að eigna þessi ummæli stúlku, ...

Síldin kom víða við. Stundum á svo afskekktum stöðum að þangað lágu engar leiðir nema þær væru á vegum síldarinnar. Þannig var um Djúpuvík í Reykjarfirði.``

Virðulegi forseti. Ég er að koma að lokaorðum og ég vil segja að þegar menn eru að velta fyrir sér síldinni, þegar menn eru að velta fyrir sér þorskinum, þegar menn eru að velta fyrir sér ýsunni, þegar menn eru að velta fyrir sér lúðunni, þegar menn eru að velta fyrir sér kolanum, þegar menn eru að velta fyrir sér ufsanum og öðrum tegundum sem við höfum verið að veiða og í sumum tilvikum að eyða þá eru í þessari bók lokaorð sem ekki er hægt að sleppa. Ég hef verið að vitna í þá ágætu bók, Svartan sjó af síld. Lokaorðin eru, með leyfi forseta: ,,Kemur hún aftur?`` Í þessum kafla birtist það sem sjómenn og þessi þjóð hefur lifað á, þ.e. að alltaf er von.

,,Jakob Jakobsson: ,,Vetursetustöðvar afkomenda '69 árgangsins hafa aðallega verið í djúpum fjörðum í Lófóten. Á hrygningartímanum gengur þessi síld út úr fjörðunum til hrygningarstöðvanna sem hafa einkum verið við Mæri. Síðan hefur reglan verið sú að síldin hefur gengið norður með norsku strandlengjunni og haldið til við Norður-Noreg á sumrin. Sigið síðan aftur inn á firði í Lófóten þegar fer að hausta. Þetta er auðvitað svo gjörólíkt göngumynstrinu þegar hún gekk til Íslands að ekki er unnt að bera það saman. Síldin er íhaldssamur fiskur. Hún heldur sig við sömu gönguleiðir þar til eitthvað gerist sem neyðir hana til að breyta um hegðun.``

Virðulegi forseti. Ég stoppa aðeins við. Ég er að ræða um síld. Hvað er að gerast með þorskinn við Ísland? Af hverju er hann svona tregur á djúpslóð? Af hverju er svona mikið af þorski komið upp á grunnslóð? Það er vegna þess að munstrið er að breytast. Getur það sama ekki átt við um þorskinn eins og síldina sem Jakob Jakobsson lýsir svo greinilega hvernig hegðaði sér? Áfram tilvitnun í þessi lokaorð:

,,Norsk-íslenska síldin heldur sig sem sagt núna í norska strandsjónum. Ef stofninn stækkar verulega eyðist átan á þessu svæði og þá má búast við að síldin leggi út á hafið í ætisleit. Hún gerði það að nokkru leyti 1988. Þá fannst síld í talsverðum mæli miðja vegu milli Íslands og Noregs. En hún fór ekki lengra. Hefur sennilega haft nóga átu á þessu svæði.``

Virðulegi forseti. Það sem þessi vísindamaður okkar er að segja er að stofnarnir hegða sér eftir umhverfinu í hafinu. Þá er komið að því sem ég var að reyna að lýsa varðandi Ísafjarðardjúpið. Ég held áfram með tilvitnun:

,,En þegar þessi síld, sem hélt út á hafið milli Íslands og Færeyja í fyrra, [þ.e. kringum 1990] hafði dvalið á vetursetustöðvum sínum, gerðist mjög merkilegur atburður: Hún hrygndi miðja vegu milli Bergen og Stavanger, við Karmøy. Þar voru mjög frægar hrygningarstöðvar á fyrri hemingi þessarar aldar. Þegar síldargöngurnar voru hvað öflugastar til Íslands komu þær frá þessum hrygningarstöðvum við suðvestanverðan Noreg. Þetta er í fyrsta sinn í 30 ár sem síld hrygnir á þessum gömlu slóðum. Það kveikti von um að hún væri nú að taka upp sínar gömlu venjur. Það vorar snemma í sjónum þarna suður frá. Þegar átan kemur upp fylgir síldin henni út á hafið. Við vitum þó að stofninn stækkar ekkert næstu fjögur til fimm árin vegna lélegra árganga. En árgangurinn '83 var sterkur og hugsanlegt að hann fitji upp á því að koma hingað að Austur-Íslandsstraumnum. Betur að svo yrði. En þótt það gerðist geta Íslendingar ekki verið þekktir fyrir að hefja einhverjar veiðar að ráði úr þessum eina árangi. Við yrðum að bíða eftir að aðrir árgangar kæmust í gagnið og það tekur fjögur til fimm ár. Kröftugar göngur koma ekki fyrr en nokkrir árgangar eru komnir á legg.`` (LB: Og ætla þeir að leggja veiðigjald á þetta?) Já, það er rétt, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Þetta ætla þeir að leggja veiðigjald á. Og ekki nóg með það heldur á að afhenda veiðiréttinn, hv. þm., til örfárra aðila. (LB: Það er ekki nýtt hjá þessum mönnum.)

Virðulegi forseti. Ég á aðeins eftir nokkur orð af tilvitnuninni:

,,Kröftugar göngur koma ekki fyrr en nokkrir árgangar eru komnir á legg. Þegar líður að aldamótum fara líkurnar á slíkum göngum mjög að aukast.````

Hún kemur sem sé aftur. Þar kem ég, virðulegur forseti, að voninni sem lifir sífellt í brjósti sjómannsins. Hún kemur sem sé aftur. Það er ótrúlega stutt í það. Fyrir aldamótin --- þessi bók er gefin út 1992 --- er þetta sagt. Fyrir aldamótin, í mesta lagi aðeins seinna, kannski aldamótaárið sjálft. Það var árið 2000. Hver veit. Ef hún kemur ekki þá kemur hún 2001. Ef ekki það sumar kemur hún 2002. Ef ekki þá hlýtur hún að koma. Hún kemur aftur.

Virðulegur forseti. Ástæðan þess að ég vitna í þessa bók er sú að hún segir mikið frá hugsanagangi sjómannsins. Hún segir mikið frá rómantík sem var til í kringum sjómennsku. Rómantíkin hefur reyndað minnkað. En það hafa orðið framfarir, miklar framfarir, og síldin sem nefnd var silfur hafsins gerði menn á sínum tíma bæði að milljónerum og beiningamönnum. Sá tími kemur sennilega aldrei aftur að þannig verði unnið á Íslandi að menn (Gripið fram í.) ýmist fari á hausinn eða verði milljónerar nema þessir örfáu sem hafa yfirráð yfir (Gripið fram í.) heimildunum.

Virðulegur forseti. Í upphafi máls míns sagði ég að ég gæti ekki samþykkt þetta frv. Í hjarta mínu er ég gjörsamlega ósammála því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum haft. Allt sem ég er alinn upp við, allt sem ég þekki til sjómennsku er andstætt því sem það fiskveiðistjórnarkerfi hefur skapað og dregið yfir Ísland. Þetta fiskveiðistjórnarkerfi hefur verið byggðaeyðandi. Það hefur dregið frá samdráttarbyggðunum, þ.e. Vestfjörðum og hluta smærri fiskiþorpa úti á landi, til hinna stærri. Þetta er andstætt uppeldi mínu. Þetta er andstætt hugsun minni. Þetta er andstætt sál minni. Þetta er andstætt geði mínu. Ég hafna þessu frv., virðulegur forseti. Með þessum orðum get ég látið máli mínu lokið, en þó, eins og ég sagði áður, væri ástæða til þess að fara yfir þetta blað hér, (Gripið fram í.) Útveginn, þar sem gerð er grein fyrir pantaðri skoðanakönnun LÍÚ.