Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 23:58:45 (8112)

2002-04-22 23:58:45# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, HBl
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[23:58]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Fyrst er óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að því að í upphafi ræðu sinnar áðan vék hv. 4. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, að því að henni hafi verið sýnd ósanngirni með því að henni var gefið orðið á þeim tíma og á þeim stað sem hv. þm. hafði beðið um orðið. Nú er eðlilegt að þingmenn taki til máls í þeirri röð sem þeir biðja um orðið þó að forseta sé að vísu heimilt að víkja nokkuð röð þingmanna ef hann kýs að leggja áherslu á það eða gefa tækifæri til þess að eðlileg skoðanaskipti geti átt sér stað.

Á hinn bóginn hygg ég að hið almenna sé að þingmenn tali í þeirri röð sem þeir biðja um orðið. Ljóst er þegar hér eru næturfundir og kvöldfundir að þeir menn sem þá kveðja sér hljóðs eiga að sjálfsögðu rétt á því að fá að halda sínum stað í röðinni þó málið sé tekið fyrir að nýju daginn eftir, ég tala nú ekki um þegar samkomulag er um að ljúka málinu á þeim degi.

[24:00]

Nú háttar svo til um það mál sem við erum að ræða að á laugardagskvöld óskaði formaður Samfylkingarinnar, hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, eftir því að hlé yrði gert á fundinum og leitað samkomulags milli þingflokkanna um það hvernig umræðu um það frv. sem hér um ræðir yrði háttað. Hann talaði sérstaklega um að það færi illa með fjölskyldu- og heimilislíf ef fundum yrði fram haldið á kvöldin og fram eftir nóttu, þingmenn ættu rétt á því að fá að sofa á nóttunni.

Nú þótti mér þetta að sjálfsögðu góð ræða hjá hv. þingmanni og af þeim sökum boðaði ég formenn þingflokka á minn fund. Þá varð það að samkomulagi að þau þrjú mál sem enn eru á dagskrá fundarins skyldu rædd á þessum degi, í dag, og umræðum lokið um þau þannig að þau mættu koma til atkvæða á þriðjudagsmorgni.

Þessi fundur hófst kl. 10 í morgun. Það hittist svo á að tveir hv. þm. hafa talað í nær fimm tíma. Þegar samkomulag er milli þingflokka um að ljúka málum á ákveðnum tíma hefur venjulega verið tekið tillit til þess svo að þingmenn úr fleiri flokkum en einum eða tveim hafi tækifæri til að láta í ljósi skoðun sína. Þegar um það er rætt að ljúka umræðum um mál á tilteknum degi og talað um kvöldfund er ekki gengið út frá því að fundur standi fram á nótt.

Nú er klukkan orðin 12 á miðnætti á þessum degi og mál standa þannig að jafnvel er boðað að til enn frekari ræðuhalda kunni að koma sem geti tekið langan tíma, ekki til þess að koma nýjum sjónarmiðum á framfæri heldur virðist það vera til þess að brjóta samkomulagið sem gert var á laugardaginn.

Af þessum sökum ætla ég ekki að hafa langt mál að þessu sinni um það frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil einungis leggja áherslu á eitt atriði og það er að þau sterku sjávarútvegsfyrirtæki sem hér hafa risið og treyst stöðu sína á síðustu missirum og árum eru nú farin að leggja æ þyngri áherslu á það að verja peningum til fiskeldis og byggja upp, t.d. laxeldi út af Austfjörðum. Nú um helgina komu fréttir af því að stefnt sé að framleiðslu 10 millj. þorskseiða á ári í þorskeldi í Eyjafirði. Þetta sýnir okkur auðvitað að sjávarútvegurinn er að komast inn á nýtt stig og ég ætlaði einungis að láta í ljósi þá von mína að sú mikla þekking sem við höfum á verkun, vinnslu og sölu sjávarafurða muni hjálpa okkur til að byggja hér upp sterkt fiskeldi í þorski, laxi og fleiri tegundum sem geti orðið drjúgt, bæði til að afla okkur, Íslendingum, gjaldeyris sem er auðvitað forsendan fyrir því að við getum bætt lífskjör okkar og einnig til að treysta byggð víðs vegar um landið í þeim sjávarplássum sem nú líða fyrir það að ekki er nægilegur fiskur í sjónum til að allir staðir geti vaxið og dafnað samhliða. Við sjáum hvað er að gerast í Neskaupstað. Þar er stefnt að því að vinna þann lax sem er í eldi í Mjóafirði og það er von mín að svo geti orðið á fleiri stöðum.