Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 11:56:32 (8137)

2002-04-23 11:56:32# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[11:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat þess að menn kynnu á vissum stigum að þurfa að henda góðum peningum á eftir slæmum sem kallað er, þ.e. þegar menn eru búnir að hætta fé og það er tapað að einhverju leyti, þá til þess að forða enn meira tapi hendi þeir góðum peningum á eftir. Þetta er hlutur sem fjárfestar þekkja mjög vel og Alþingi þarf þá væntanlega að fara að venja sig við að þurfa að taka afstöðu til og kemur væntanlega til eftir svona 4--6 ár.

En það var annað sem hv. þm. sagði sem ég ætla að gera athugasemd við. Hún las upp úr greinargerð sem ég sendi hv. efh.- og viðskn. og sagði að ég hefði ekki trú á fjárfestingunni vegna þess að gjaldþrotalíkurnar væru frá 60 upp í 90%. Það er allsendis ekki rétt vegna þess að fjárfesting getur verið mjög góð þó að gjaldþrotalíkurnar séu 90%. Ef líkurnar á hagnaði við þessi 10% eru svo miklar, segjum að gengið fari fari úr 1 upp í 100, þá skilar það tífaldri fjárfestingu til baka, vænt gildi þeirrar fjárfestingar, eða sem sagt möguleikinn, þessi 10% sinnum gengið 100 þýðir gengið 10 þó að 90% tapist. Það getur því verið mjög skynsamlegt fjárfesting að fjárfesta í slíku dæmi en hún er óskaplega áhættusöm. Menn þurfa að vera vissir um að fá gengið 100 til baka ef vel gengur. Það á ekki við í þessu tilfelli þar sem ríkissjóður er að veita ríkisábyrgð og fær ekkert nema ríkisábyrgðargjald sem er smánarlegt miðað við þann hagnað sem hugsanlega kæmi upp ef vel gengur.