Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 16:43:21 (8162)

2002-04-23 16:43:21# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég kom inn á þetta í andsvari við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í morgun. Hún spurði mig einmitt um þetta. Þetta er vel þekkt í fjárfestingum. Það er vel þekkt í áhættufjárfestingum að menn þurfi, til þess að bjarga því fé sem þeir hafa sett inn í fyrirtæki, að reiða fram enn meira fé. Meira að segja er oft og tíðum gert ráð fyrir þessu, að þegar menn hafa skoðað viðskiptaáætlunina og dæmin, eins og efh.- og viðskn. hv. ætti að hafa gert, reikni menn líkurnar á því að bæta þurfi við fjármagni til að bjarga því sem bjargað verður. Menn kalla þetta að henda góðum peningum á eftir slæmum. Þetta er þekkt í fjármálaheiminum og er tekið með í myndina þegar menn taka ákvörðun um fjárfestingu.

Ég reikna með því að hv. þm. sem ég taldi upp, sem hafa skrifað undir þetta, hafi áttað sig á þessu, þ.e. hve miklar líkur eru á að þurfa að leggja fram meira fjármagn til að tryggja það sem menn setja fram í upphafi. En þetta er vel þekkt, að tryggja það sem menn hafa sett fram. Þetta er vel þekkt eins og ég kom einmitt inn á í morgun.