Húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:07:15 (8199)

2002-04-24 13:07:15# 127. lþ. 128.1 fundur 655. mál: #A húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:07]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. menntmrh. var nokkuð skorinort en heldur klént. Það er þannig með okkur þingmennina að við berum fram fyrirspurnir sem yfirleitt á að svara að viku liðinni. Við höfum ekki gert mikið veður út af því þó það dragist en eins og kemur fram í fyrirspurn minni eða framsögu fyrir henni, þá er fyrirspurnin lögð inn í mars og ég hef tekið því ágætlega að henni sé ekki svarað fyrr en seinni partinn í apríl. En ég trúi því ekki að á þeim tíma hafi ekkert verið að gerast í málum safnsins og ekki sé farið að ræða neitt við Hafnarfjörð. Það er ekkert við því að gera ef á að fara að rífa húsin en það er mjög alvarlegt ef safnið verður húsnæðislaust í júní og ef fyrirhugað er að Hafnarfjörður leysi vandann, þá er ekki seinna vænna núna í apríl en fara að gera eitthvað í málinu.

Það sem ég spyr fyrst og fremst um eru húsnæðismálin. Ég vek hins vegar athygli á að í fréttum hafa fjármálin verið dregin inn og það bar svo við að örfáum mínútum áður en ég fór í ræðustól barst mér erindi frá þeim aðila sem sagt var upp í desember og kærði það til ráðuneytisins. Þar kemur fram að ráðuneytið hefur úrskurðað að uppsögn framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs hafi verið ólögmæt og það eigi að semja um það. Þetta er sérmál, tengist fyrirspurninni en er ekki hluti af henni. Auðvitað er afskaplega mikilvægt að réttindi séu virt og mjög mikilvægt að við séum ekki að taka á málum bara ef eitthvert ár menningarsögulegra gilda er heldur séum við með menningarsöguleg gildi í fyrirrúmi allan tímann.

Ég hvet hæstv. ráðherra --- ég veit að hann hefur haft nóg að gera að koma nýr í ráðuneyti --- en þetta er stórt mál og það er fremur dapurt að hann komi ekki með önnur svör til mín en þau sem raun ber vitni.