Nám í málm- og véltæknigreinum

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:20:51 (8204)

2002-04-24 13:20:51# 127. lþ. 128.2 fundur 691. mál: #A nám í málm- og véltæknigreinum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:20]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það mál sem fyrirspyrjandi víkur hér að og við ræðum nú er afar mikilvægt, þ.e. uppbygging verkmenntunar í landinu. Í ljós hefur komið samkvæmt könnun sem Samtök iðnaðarins létu gera að aukin menntun þýðir aukna framleiðni í atvinnulífinu sem þýðir aftur bætt lífskjör fyrir okkur öll. Það er alveg ljóst að ef menntun eins og sú sem hér um ræðir flyst öll meira og minna á suðvesturhornið verða þeir færri sem leita eftir þessari menntun. Hún stendur þá færri til boða í raun og veru. Það þýðir einfaldlega að það atvinnulíf sem við viljum sjá vaxa upp og þroskast og þróast víða um landið verður ekki að veruleika.

Herra forseti. Það þýðir einfaldlega lakari lífskjör. Þess vegna er sú stefnumótun mjög mikilvæg sem hæstv. ráðherra rakti áðan að væri í gangi í ráðuneytinu og byggði á því að þessi menntun færi fram víðar. Hún er mikilvæg fyrir ungt fólk sem vill leita sér menntunar. Hún er mikilvæg fyrir efnahagslíf okkar og lífsafkomu.