Aðflutningsgjöld af hljóðmagnarasettum til kennslu

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:26:14 (8207)

2002-04-24 13:26:14# 127. lþ. 128.3 fundur 692. mál: #A aðflutningsgjöld af hljóðmagnarasettum til kennslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:26]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um niðurfellingu aðflutningsgjalda af hljóðmagnarasettum. Rökstuðningurinn fyrir þessari fyrirspurn er tvíþættur, herra forseti. Hann lýtur annars vegar að raddvernd kennara og hins vegar að möguleikum skólabarna til þess að heyra og fylgjast með því sem er að gerast í kennslustofunni, bæði þeirra sem fullheyrandi eru og annarra sem búa við heyrnardeyfu.

Svo við víkjum fyrst að rödd kennarans þá hafa rannsóknir bæði erlendis og hérlendis gefið til kynna að rödd kennara er oft bágborin og óþægindaeinkenni sem fylgja misbeitingu raddar hrjá stóran hluta kennara. Einnig hefur komið fram að kennarar skipa efsta sæti þeirra sem sækja hjálp til lækna vegna þessa. Eðli starfsins, streitu sem fylgir því oft og tíðum, þekkingarleysi kennara á rödd sinni, raddbeitingu og raddvernd svo og slæmum kringumstæðum, hefur verið kennt um þetta ástand. Þannig verða kennarar oft að beita rödd í miklum hávaða í skólahúsnæði þar sem ekki er góður hljómburður og í nokkurri fjarlægð frá þeim sem hlusta. Þetta samanlagt, herra forseti, gerir það að verkum, eins og hér segir, að kennarar búa við óþægindaeinkenni oft og einatt og þurfa að leita sér læknis vegna þess.

Rannsóknir hafa líka sýnt að ef kennarar, ekki síst veikradda kennarar, fá hljóðmagnarasett til þess að magna rödd sína í kennslustofu verður líðan þeirra allt önnur. En fleira gerist um leið því að agavandamálum fækkar vegna þess að það er alveg ljóst að ef börn heyra ekki eða vita hvað er að gerast eða hvað eigi að gerast þá hvarflar hugur þeirra annað og frá því námsefni eða verkefnum sem kennari vill að þau sinni.

Í ljós kom þegar hlustunargeta barna var könnuð að við nokkuð góð skilyrði gátu eðlilega heyrandi börn einungis skilið 71% af því sem kennari sagði og við verstu skilyrði náðu börn aðeins að skilja um 30%. Það hefur líka verið sýnt fram á að mjög stór hluti yngstu barnanna í skólakerfinu geti verið með tímabundna heyrnardeyfu af völdum eyrnabólgu.

Herra forseti. Þetta eru allt atriði sem skipta máli. Þess vegna og vegna þeirrar reynslu sem er af notkun hljóðmagnarakerfa í skólastofum hef ég beint þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvort hann áformi að beita sér fyrir lagabreytingum sem heimila að aðflutningsgjöld verði felld niður af slíkum tækjum.