Jöfnun námskostnaðar

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:34:43 (8211)

2002-04-24 13:34:43# 127. lþ. 128.4 fundur 693. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., AKG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði fyrirspurn á þskj. 1112 í fjarveru hv. þm. Kristjáns L. Möllers.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 605/2001, um jöfnun námskostnaðar, eru skilyrði fyrir veitingu dvalarstyrks eftirfarandi:

a. dvalarstaður nemanda vegna náms sé a.m.k. 30 km frá lögheimili hans,

b. nemandi geti ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu, sbr. skilgreiningu í b. lið 2. gr.,

c. nemandi visti sig fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins.

Túlkun stjórnar LÍN hefur verið sú þrátt fyrir að ekki sé kveðið á um það í reglugerðinni, að fullnægja þurfi öllum þrem skilyrðum 4. gr. til þess að fullur dvalarstyrkur fáist. Nú geta ýmsar ástæður legið til þess að nemandi uppfylli ekki öll skilyrði 4. gr., en verði eftir sem áður að dveljast á námsstað á starfstíma skóla. Bent skal á nokkur rök fyrir slíku.

Almenningssamgöngur í strjálbýlinu eru almennt ekki með þeim hætti að henti framhaldsskólanemum, enda afar ólíklegt að slíkar samgöngur hefðu rekstrargrundvöll og samræmdust jafnframt fjárhagslegum burðum nemenda. Nemandi sem hefur nám í framhaldsskóla við 16 ára aldur eins og flest íslensk ungmenni hefur ekki náð bílprófsaldri og getur því ekki sjálfur komið sér milli heimilis og skóla, auk þess sem vafasamt hlýtur að teljast að ungt námsfólk verði að hafa einkabifreið til afnota. Landfræðilegar aðstæður og veðurfar geta gert daglegar ferðir milli heimilis og skóla afar erfiðar ef ekki ómögulegar, t.d. ef yfir heiði eða fjallveg er að fara.

Reglur um lágmarksfjarlægð milli heimilis og skóla fela í sér hættu á mikilli mismunun. Hvers á sá nemandi að gjalda er býr í 29 km fjarlægð frá skóla, en dæmist til að fá aðeins brot af styrk sem nágranni hans í 31 km fjarlægð frá sama skóla fær til að stunda nám? Þeir búa báðir við sama veðurlag, eiga yfir sömu farartálma að fara, um sama veg að undanskildum þeim fáu kílómetrum sem skilja þá að innan sveitar. Annar nemandinn fær greiddan ferðastyrk á meðan hinn fær greiddan dvalarstyrk og dveljast þó báðir á heimavist sama skóla vegna nákvæmlega sömu aðstæðna.

Það er því spurning mín til hæstv. menntmrh. hvort hann hafi áform um að taka reglugerð um jöfnun námskostnaðar til endurskoðunar fyrir upphaf næsta skólaárs.