Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:20:33 (8250)

2002-04-26 10:20:33# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:20]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. er til 2. umr. Ljóst er að þetta mál hefur vakið gríðarleg viðbrögð í samfélaginu og það er líka mjög umdeilt á Alþingi. Frumvarpið felur í sér að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilt að veita einfalda ábyrgð vegna útgáfu móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE genetics Inc., á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 milljónir bandaríkjadollara, eða 20 milljarða íslenskra króna.

Ég vek athygli á því, herra forseti, í upphafi að þessi ábyrgð er ekki veitt til Íslenskrar erfðagreiningar eða til hins íslenska fyrirtækis hér á landi. Nei, það á að veita hana til hins erlenda móðurfélags sem er með höfuðstöðvar sínar í Bandaríkjunum. Verið er að veita þessa sértæku aðgerð, ef af verður, til erlendra aðila, ekki til íslenskra aðila. Ég hygg að slík ráðagerð ein eigi sér ekki hliðstæðu hér á landi, ekki minnist ég þess, og verð þá leiðréttur með það, að íslenska ríkið veiti erlendu fyrirtæki ríkisábyrgð. Ég held að það sé fullkomlega einsdæmi hér, ef svo er sem ég held.

Við þekkjum mörg atvik og tilvik hér á landi þar sem ríkið hefur komið inn með einum eða öðrum hætti til að standa á bak við atvinnurekstur, bæði einstök fyrirtæki og einstaka atvinnuvegi með sértækum aðgerðum. Slíkar aðgerðir að ríkið grípi inn í þróun atvinnulífsins með því móti voru tíðkaðar allmjög fyrir nokkrum áratugum og voru þá m.a. rökstuddar með því að íslenskt atvinnulíf væri að fara í gegnum miklar breytingar, mikill órói og ólga væri í þjóðfélaginu. Þá voru miklir þjóðflutningar og efnahagslífið var mjög óstöðugt, gengi íslensku krónunnar var mjög óstöðugt og sömuleiðis voru viðskipti við útlönd líka mjög óstöðug þannig að hin ytri umgjörð efnahagslífs á Íslandi var af þeim ástæðum mjög óörugg. Það þýddi að atvinnurekstur og atvinnufyrirtæki hér áttu erfitt með að byggja sig upp. Sömuleiðis voru bankastofnanir og fjármálamarkaðir hér innan lands ekki það þróaðir að þeir réðu við að takast á við mjög miklar og stórar skuldbindingar í þeim efnum og það alþjóðlega samstarf sem við nú búum við og það opna kerfi sem við búum við um flæði á fjármagni inn og út úr landinu var þá ekki til staðar með þeim hætti að atvinnureksturinn gæti gengið að fjármálamarkaði t.d. á erlendri grundu.

Þetta voru þá m.a. þau rök sem voru fyrir því að ríkissjóður gekk í ábyrgðir eða átti hlutdeild að stofnun fjárfestingarsjóða sem ríkið bar svo ábyrgð á og veitti lán og fjármagnsfyrirgreiðslur til einstakra fyrirtækja og atvinnugreina.

Slíkar aðgerðir voru á sínum tíma að sjálfsögðu mjög umdeildar því að með inngripi ríkisins á þennan hátt er verið að velja úr eitt fyrirtæki, eina atvinnugrein á hverjum tíma þegar þær aðgerðir eru ákveðnar umfram aðrar þannig að í sértækum aðgerðum sitja ekki allir við sama borð, enda er það ekki ætlunin þegar gripið er til sértækra aðgerða.

Þegar mikil breyting varð á útgerðarmunstri hér á landi á áratugunum milli 1960--1980 voru einmitt gjarnan veittar ríkisábyrgðir í einu eða öðru formi til uppbyggingar, til kaupa á skipum eða til uppbyggingar á nýjum fyrirtækjum, t.d. innan sjávarútvegsins. Þetta var svo sem umdeilt en staðan var allt önnur þá en nú. Við bjuggum við tiltölulega lokaða fjármagnsmarkaði og íslenska þjóðin í heild sinni varð eiginlega að vera sjálfri sér nóg hvað varðaði fjármagn til að deila út til atvinnuvegarins. Það var íslenska ríkið sem hafði fyrst og fremst bolmagn til þess að taka erlend lán eða ábyrgjast greiðslur á erlendum lánum sem voru síðan tekin inn í landið og ráðstafað til uppbyggingar atvinnulífs. Þetta var sú staða sem var þá.

Staðan nú er gjörbreytt. Nú er það svo að í sjálfu sér er frjálst fjármagnsflæði að miklu leyti inn og út úr landinu þannig að einstök fyrirtæki hér, hafi þau til þess veg og starfsemi til rekstrar til að leggja til ábyrgðar, þá geta þau sótt sitt lánsfjármagn á eigin vegum erlendis, enda er nú svo að stór hluti af skuldum þjóðarinnar erlendis er á vegum einkaaðila en ekki á vegum ríkisins. Á þessu hefur orðið gjörbreyting.

Þetta hefur líka leitt til þess að ekki hefur verið eins mikil þörf og ekki eins mikil ástæða til að ríkið væri að koma inn í beina fjármögnun, beina lánsfjárútvegun hjá fyrirtækjum hér á landi og áður var. Þess vegna var það líka að á síðasta áratug hefur mjög dregið úr sértækum aðgerðum af því tagi sem við kynntumst á síðustu áratugum aldarinnar, þ.e. árunum frá 1960--1980, a.m.k. hvað einstakar slíkar framkvæmdir varðar.

[10:30]

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að hin almenna skoðun mín er sú að ríkinu beri fyrst og fremst að búa atvinnulífinu hin almennu grunnskilyrði til þess að byggja á. Ríkið á að gera það í formi samgangna, fjarskipta, þess að bera ábyrgð á tryggu og öruggu heilbrigðiskerfi, með því að bera ábyrgð á sterku og framsæknu menntakerfi o.s.frv. Þetta er sá grunnur sem er hlutverk ríkisins að byggja upp um allt land. Þá ber ríkinu líka að gæta þess að ástæður sem felast í búsetu, aldri eða öðru sem getur verið mismunandi verði ekki til þess að fólki sé mismunað um aðgang að þessum grunnkjörum, og svo líka hinum almennu þáttum eins og fjármagni á almennum markaði.

Við vitum öll að þarna er pottur brotinn. Það er veruleg mismunun á aðgengi að almennri grunnþjónustu eftir búsetu. Það er líka verulegur munur á aðgengi að fjármagni eftir búsetu. Það hefur komið fram í umræðum hér áður, einmitt og ekki síst í umræðu um byggðamál, hvernig fyrirtæki úti um hinar dreifðu byggðir eiga mun erfiðara með að fá lánsfjármagn fyrir starfsemi sína. Þær eignir sem eru jafngildar í starfinu, í starfseminni, hvar sem þær eru staðsettar, ef þær eru í fullri drift, fullu starfi, ættu að vera jafnveðhæfar hvar sem þær eru en samkvæmt einhverri ákvörðun fjármálafyrirtækja er veðhæfni þeirra ekki metin til jafns. Þarna, virðulegi forseti, gæti verið verkefni fyrir ríkið að koma hugsanlega með handstýrðar aðgerðir í formi ríkisábyrgða eða einhvers slíks til að tryggja að það verði ekki mismunun, til að tryggja jöfnuð og að atvinnulíf og atvinnufyrirtæki hafi jafna stöðu hvað þessa sjálfsögðu þætti varðar, óháð því hvar þau eru staðsett ef reksturinn á annað borð er mögulegur að fengnu þessu jafnrétti. Þarna fyndist mér að ríkissjóður ætti að koma að og beita jafnréttishugsjónum sínum.

Ef við lítum aðeins til sögunnar í umræðunni um þessi ríkisábyrgðarmál held ég að þeir sem eru komnir á þann aldur að þeir muni þá tíð þegar hæstv. núv. forsrh. kom inn í stjórnmálin, inn í landsmálin, af fullum krafti og settist beint í forsætisráðherrastólinn voru einmitt af hans hálfu, hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, gefnar út mjög ákveðnar og stóryrtar yfirlýsingar gagnvart þeirri stefnu sem ríkið, að hans mati, hafði þá beitt, þ.e. að vera með umtalsverð ríkisafskipti af atvinnulífinu, bæði með ríkisábyrgðum og beinum lántökum.

Í þjóðhátíðarræðu sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hélt 17. júní 1991 sagði hann, með leyfi forseta:

,,Hér bíður okkar allra mikið starf; við verðum að skilgreina opinbera ábyrgð á nýjan leik og gera ríkar kröfur til okkar sjálfra, og bera okkur þannig að í framtíðinni að við getum horft keik til baka, þegar sú framtíð er orðin að fortíð; ,,lifandi minningu um liðna tíð``.``

Já, þetta sagði hæstv. forsrh. 17. júní árið 1991 og var þarna að fjalla um ríkisafskipti af atvinnulífinu og ríkis\-ábyrgðir til einstakra fyrirtækja og atvinnugreina.

Og áfram segir hæstv. forsrh. Davíð Oddsson um stöðu sjóða ríkisins árið 1991, með leyfi forseta:

,,Davíð sagði að ríkisstjórnin liti þannig á að það væri afskaplega mikilvægt að ,,sullast ekki áfram með þeim hætti sem gert hefur verið. Að mínu mati er algjörlega ljóst að sú aðgerð sem ríkisstjórnin stærði sig hvað mest af haustið 1988, þegar hún tók erlend lán til að endurlána fyrirtækjum hefur gjörsamlega mistekist, því nú blasir við að milljarðar króna falla á ríkissjóð og skattborgarana. Fyrrverandi ríkisstjórn lét ekkert fjármagn af hendi sem hún hafði til ráðstöfunar, heldur tók eingöngu erlend lán til að endurlána atvinnufyrirtækjunum og það kemur í hlut þessarar ríkisstjórnar að afla fjármuna til þess að greiða fyrir þessar aðgerðir sem ekki voru haldbetri en raun bar vitni,`` sagði forsætisráðherra`` 19. júní árið 1991.

Er nokkur önnur staða núna uppi? Eru þeir 20 milljarðar, sem hér er verið að leggja til að veittir verði í ábyrgð fyrir þetta erlenda fyrirtæki, deCODE, núna eitthvað frekar til hér á landi? Nei, virðulegi forseti, svo er ekki. Þessa fjármuni mun verða að taka að láni erlendis komi til þess að reiða þurfi þá fram. Staðan er því gjörsamlega óbreytt frá því þegar hæstv. forsrh. gaf út fyrir rúmum tíu árum sína pólitísku sýn á það hvernig beita mætti ríkisábyrgðum eða hvernig ætti ekki að beita þeim og þá gerði hæstv. forsrh. sér fulla grein fyrir því að ríkissjóður yrði að greiða þegar illa færi.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að rifja þetta upp vegna þess að það mál sem við nú fjöllum um er í rauninni fullkomin kúvending á stefnu ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Hér er um fullkomna stefnubreytingu að ræða. Við máttum reyndar upplifa það og heyra þá stefnubreytingu birtast í umræðunni um Kárahnjúkavirkjunina og Reyðarálsverksmiðjuna þar sem reisa átti þær framkvæmdir eiginlega alfarið með opinberri ábyrgð. Þar voru því einnig til umræðu gríðarlega stórar ríkisábyrgðir, miklu stærri en við áður höfðum þekkt. Í beinu framhaldi af þeirri umræðu er svo núna kynnt önnur sértæk aðgerð í að fjármagna af hálfu ríkisins einstakar atvinnugreinar, þ.e. að ríkissjóður veiti þessu erlenda móðurfyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar ríkisábyrgð að upphæð 20 milljarðar kr. Það er því alveg ljóst að hér er um að ræða grundvallarstefnubreytingu af hálfu hæstv. forsrh. sem fer með þessi mál.

Sagt hefur verið að hér sé um einstaka aðgerð að ræða og að hún hefði ekki fordæmisgildi. Virðulegi forseti. Hver heilvita maður sér hversu barnaleg slík yfirlýsing er. Það er ósköp eðlilegt að önnur fyrirtæki, fyrirtæki á þessum sama markaði, fyrirtæki sem eru að vinna á þessum sama vettvangi og Íslensk erfðagreining hafi líka leitað eftir ríkisábyrgðum fyrir áhættufjárfestingar sínar. Það er fullkomlega eðlilegt að það komi. Mér finnst líka jafnfullkomlega eðlilegt að óskir þeirra séu skoðaðar eins og ósk hins erlenda fyrirtækis, deCODE, sem leitar eftir íslenskum ábyrgðum.

Ég verð jafnframt að segja, herra forseti, að mér hugnast miklu betur að ríkið skoði þátttöku sína í innlendum fyrirtækjum sem eiga heimili og eru með starfsemi hér á landi en að veita fyrirtækjum ríkisábyrgðir sem algjörlega eiga heimili á erlendri grundu.

Í ítarlegu nál. með þessu frv. sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í hv. efh.- og viðskn., hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefur skilað er farið mjög ítarlega yfir þetta mál. Þar er í fyrsta lagi rakið að útilokað virtist í nefndinni að fá fram nægileg gögn og eðlilegar upplýsingar um starfsemina og um fyrirtækið sem var að kalla eftir ábyrgð. Í áliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

,,Enn sem komið er hefur aðkoma Alþingis að málinu verið mjög yfirborðskennd og skortir nánast allar upplýsingar til þess að þingmenn geti fengið yfirsýn yfir það. Að áliti 2. minni hluta er fráleitt að veita fjármálaráðherra fyrrnefnda heimild og koma þar nokkur atriði til, t.d. hefur ekkert áhættumat verið framkvæmt af óháðum fagaðila.``

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á því að ekkert áhættumat hefur verið framkvæmt en það er þó skylt samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir. Í þessu tilviki á að veita heimild til þessarar 20 milljarða kr. ríkisábyrgðar án þess að fram hafi farið áhættumat á þessari aðgerð. Það gengur þvert á gildandi lög um ríkisábyrgðir enda er hér lagt til að frá þeim lagaákvæðum verði vikið í þessu tilviki.

Áfram segir í nál., með leyfi forseta:

,,Efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki einu sinni fengið að sjá viðskiptaáætlanir fyrirtækisins. Þá er ástæða til að gagnrýna harðlega að veigamiklum ákvæðum í lögum um ríkisábyrgðir er vikið til hliðar. Enda þótt full rök kunni að vera fyrir því að styðja við atvinnurekstur í landinu, jafnvel með sértækum aðgerðum við vissar kringumstæður, þá er eðlilegt að það sé gert samkvæmt almennum reglum og að vel athuguðu máli. Hvorugt á við í þessu máli.``

Virðulegi forseti. Þetta segir í hnotskurn hvað er á ferðinni. Málið er keyrt áfram án nokkurra upplýsinga eða undirbúnings. Engin vitneskja liggur fyrir um það hver staða þessa fyrirtækis er, hvernig möguleikar eru fyrir það að standa við þær skuldbindingar sem þarna er um ræða og m.a.s. er vikið frá gildandi lögum um ríkisábyrgðir til þess að koma þessari stóru og sértæku aðgerð í gegn.

Ég vil samt taka undir það sjónarmið sem kemur fram í nál. hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að að sjálfsögðu er ég fylgjandi því að við getum styrkt og eflt lyfjaiðnaðinn okkar, líftækniiðnaðinn, á sönnum og góðum og heilbrigðum forsendum. Það er ánægjulegt til þess að vita að hér á landi skuli einmitt vöxtur í þessum greinum vera einn sá mesti í nýjum atvinnugreinum í landinu. Ég tel að jafnframt sé það skylda okkar að búa þannig í haginn almennt að sem flest fyrirtæki á þessum vettvangi geti eflst og þróað atvinnu sína og atvinnugreinar, okkur öllum til hagsældar enda sé það gert á heilbrigðum og góðum og sönnum grunni í alla staði. Því miður er það ekki svo.

Í nál. hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þar sem þetta mál er rakið ítarlegar, vísar hann í athugasemdir við frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Markaðurinn sem ríkisábyrgðin beinist að er á sviði líftæknirannsókna (lyfjaþróunar) á Evrópska efnahagssvæðinu sem einkennist af slæmri samkeppnisstöðu gagnvart öðrum mörkuðum, sér í lagi Bandaríkjunum, og hefur sú staða leitt til lítillar fjárfestingar á viðkomandi markaði. Markaðurinn er því lítið háður samkeppni eða samkeppnisröskunum.``

Þess vegna, virðulegi forseti, er ljóst að með inngripi í þennan atvinnurekstur með því að velja eitt fyrirtæki umfram annað er verið að hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu þeirra sem eru að hasla sér völl í þessum atvinnugreinum. Það að veita einu fyrirtæki ríkisábyrgð umfram annað hefur margþætt áhrif, ekki aðeins að veita því fjármagn á betri kjörum heldur mun fyrirtækið einnig fá aðra stöðu til að keppa, bæði um fagfólk og um stöðu á markaði. Þessi sértæka aðgerð mun óhjákvæmilega hafa áhrif á aðra aðila sem tengjast þessum greinum.

[10:45]

Athyglisvert er að lesa umsagnir um frv. Það má eiginlega heita svo að umsagnir sem koma frá aðilum í viðskiptalífinu, á fjármálamarkaðinum eru nánast allar á eina lund, þær mæla gegn þessari ráðstöfun og á hinum ýmsu forsendum.

Um álit Þjóðhagsstofnunar segir í nál. hv. þm. Ögmundar Jónassonar, með leyfi forseta:

,,Að áliti Þjóðhagsstofnunar er verjanlegt í undantekningartilfellum að veita ríkisaðstoð til fyrirtækja ,,á grunni markaðsbresta``. Í þessu tilfelli eigi það ekki við og leiðir Þjóðhagsstofnun getum að því að þessi íhlutun ríkisins geti leitt til lægra framleiðslustigs og lakari lífskjara til lengdar. Almennari aðgerðir sem skekkja ekki samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja, vinnuumhverfi einstaklinga og eflingu menntunar og rannsókna, eru líklegri að mati Þjóðhagsstofnunar til að efla þjóðarhag. Þjóðhagsstofnun varar við neikvæðum áhrifum á lánshæfi Íslands verði þetta gert.``

Herra forseti. Þarna er einmitt með ákveðnum hætti tekið undir það sem ég sagði hér í upphafi ræðu minnar: Hlutverk ríkisins er að styrkja grunninn, efla menntunina og gera hana fjölbreyttari og sterkari og að allir geti átt aðgengi að góðri menntun án þess að þurfa að greiða fyrir það í formi skólagjalda. Það er hin besta stoð sem íslenska ríkið getur veitt fyrir þróun, hvort sem það er á sviði líftækni eða lífefnaiðnaðar eða hverju öðru í tækni og þróun á Íslandi. En þarna er einmitt pottur brotinn.

Við hefðum heldur viljað heyra það hér að við værum að ræða um hvernig mætti flýta byggingu Náttúrufræðihússins við Háskóla Íslands, hvernig hefði mátt útvega fjármagn til þess að flýta þeirri byggingu og koma því starfi sem þar er ætlað í gang og styrkja menntun, vísindi og rannsóknir hér á landi til þess m.a. að styrkja grunn fyrir lífefnaiðnaðinn. Við hefðum frekar viljað sjá að við ræddum stórátak á því sviði og það væri hlutverk Alþingis að taka þar myndarlega á í staðinn fyrir að þeirri byggingu, þeim framkvæmdum sem eru í gangi á vegum Háskóla Íslands til að efla menntun á þessum sviðum í landinu, seinkar stöðugt og æ lengra verður þangað til hún kemst í gagnið. Hve oft hefur hún ekki bæði í tíma og í fjármagni farið langt fram úr sínum áætlunum? Og þetta bitnar á íslensku vísindasamfélagi.

Ekki er heldur horft á þessa hluti aðskilda. Annars vegar að veita fjármagn, veita ríkisábyrgðir til að byggja upp í stórum stíl og í stórauknum skrefum störf og verkefni á sviði líftækni og lífefnaiðnaðar en á hinn bóginn að halda að sér höndum, draga lappirnar í að efla menntun fólks á þessu sviði, fólks sem einmitt verður að vera til í slíkri starfsemi sem vonandi getur farið í gang á eigin forsendum. Það verður að vera fólk fyrir hendi, menntað og sérhæft fólk til að takast á við þau verkefni, en þar er stefna ríkisins ekki í takt við það sem hér er verið að keyra fram. Enda koma fram varnaðarorð í umsögnum um frv. um að við munum ekki geta byggt upp með fullnægjandi hætti menntun og rannsóknir til að undirbyggja þróun eða þá stækkun á fyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar á þeim hraða sem þarna er gert ráð fyrir. Við erum því þarna að byrja nokkuð á öfugum enda.

Ég hefði viljað heyra hér í umræðunni að þeir sem nú leggja til að við göngum út í það að veita þessu erlenda móðurfyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar fjármagn með þessum hætti, hvernig þeir ætla líka jafnframt að stórauka framlög til menntunar fólks á þessum sviðum hér á landi, því að það er óhjákvæmilegt að það gerist samhliða og reyndar er það óhjákvæmilegt þó svo að ekkert verði af þessari starfsemi og ekkert verði af þeim ríkisábyrgðum sem þarna er verið að veita, þá er það samt einna brýnast fyrir okkur að efla menntun og rannsóknir á þessu sviði.

Það að fara að byggja hér upp fyrirtæki sem á síðan að búa við að þurfa að sækja starfskrafta sína að meginhluta erlendis frá eru að mínu viti ekki réttar áherslur í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi. Ég er ekkert á móti því þó að hingað komi tímabundið eða varanlega tæknimenntað og sérhæft fólk en að meginhluta erum við þó að byggja upp íslenskt atvinnulíf og atvinnulíf sem er að veita Íslendingum aukna og fjölbreyttari vinnu.

Herra forseti. Ég sagði áðan að flestir þeir aðilar sem hafa veitt umsagnir um frv. telja þetta afar misráðna hugmynd og misráðna aðgerð ef af verður.

Í nál. hv. þm. Ögmundar Jónassonar er vitnað í álit Búnaðarbankans sem ég ætla hér að gera, með leyfi forseta:

,,Í áliti greiningardeildar Búnaðarbankans segir að hér sé um ákveðna stefnubreytingu hjá stjórnvöldum að ræða sem unnið hafi markvisst að því að draga úr ríkisábyrgðum og ríkisumsvifum. Hluti af þeirri viðleitni hafi verið sameining fjárfestingarlánasjóðanna í FBA, snemma á síðasta áratug, og síðan einkavæðing þess banka.``

Virðulegi forseti. Ég er ekki að lesa þetta hér upp til þess að segja að ég sé sammála því sem þarna hafi verið gert. Ég tel einmitt að það hafi verið rangt að taka þessa sjóði atvinnulífsins, hvort sem það var Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður eða aðrir slíkir sjóðir sem höfðu sértæk hlutverk í íslensku atvinnulífi, hlutverk sem einmitt komu uppbyggingu atvinnulífsins úti um hinar dreifðu byggðir til góða. Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður gerðu það, en núna er búið að einkavæða þá, setja þá inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins en síðan var því breytt og selt og ég veit ekki betur en að sá banki telji sig ekki hafa meiri skyldur núna við sjávarútveg eða iðnað en við aðra peningastarfsemi og hugnist helst að koma peningum sínum í ávöxtun úr landi. Sú þróun sem þarna gerðist var ekki í takt við íslenska hagsmuni þegar þeir sjóðir voru lagðir niður og þeir einkavæddir.

En þetta var þá gert sem þáttur í þeirri hugmyndafræði að ríkið ætti ekki að hafa afskipti af atvinnulífinu og þess vegna mættu þeir sjóðir ekki starfa. Starfsemi þeirra skekkti íslenskt atvinnulíf og samkvæmt pólitískum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, sem ég las hér upp áðan, gengu út á það einmitt að afnema ætti þessar sértæku aðgerðir, sértæku ríkisaðgerðir.

Ég hefði heldur viljað sjá að menn væru hér að snúast á þá sveif á ný að stofna aftur sjóði eða banka sem hefðu það skilgreinda hlutverk að þjóna íslensku atvinnulífi, smáum og stórum fyrirtækjum úti um hinar dreifðu byggðir landsins, frekar en að fara inn í sértækar aðgerðir af því tagi að íslenska ríkið sé að gangast í tuga milljarða ábyrgð fyrir erlent fyrirtæki sem er staðsett á erlendri grundu. Hve dapurlegur vegur, virðulegi forseti, er á milli þessara yfirlýsinga og gjörða hæstv. forsrh.

Í umsögn Íslandsbanka, virðulegi forseti, ef ég vitna aftur í nál. hv. þm. Ögmundar Jónassonar, stendur, með leyfi forseta:

,,Í umsögn greiningardeildar Íslandsbanka er sagt að um neikvætt fordæmi sé að ræða. Stjórn Samtaka fjárfesta hefur lýst sig mótfallna frumvarpinu í núverandi mynd. Ástæður þess eru fyrst og fremst þær að með frumvarpinu sé horfið frá markaðri stefnu um almennar aðgerðir í efnahagsmálum og teknar upp sértækar aðgerðir. Í áliti Samtaka fjárfesta segir enn fremur: ,,Samtök fjárfesta vilja vekja athygli á, að á íslenskum fjármálamörkuðum eru nokkur fyrirtæki sem vinna að athyglisverðum rannsóknum og þróun. Það er hlutverk ríkisvaldsins að skapa fyrirtækjunum og annarri atvinnustarfsemi viðunandi starfsgrundvöll. Ríkisábyrgð á láni fyrir Íslenska erfðagreiningu hf. raskar starfsgrundvelli sumra þessara fyrirtækja með óeðlilegum hætti og getur beinlínis skaðað þau og fjárfesta sem að þeim standa. Samtök fjárfesta eru þeirrar skoðunar að framlög til rannsókna og þróunar séu of lítil á Íslandi.`` Í þessari álitsgerð er lögð áhersla á að tryggja jafnræði með fyrirtækjum.``

Já, aftur kemur þessi áhersla sem ég hef haft að rauðum þræði í gegnum ræðu mína, að ríkið á að koma að því að efla grunnrannsóknir og efla menntun og styrkja þannig grunn og móta þannig farveg fyrir öflugan atvinnuveg á þessu sviði. Það er öfugsnúið að veita ríkisábyrgðir á efstu greinarnar en láta ræturnar sem tréð vex af berjast um og svelta og ná ekki til sín næringu úr jarðveginum. Það er það sem ríkisstjórnin er að gera með þessu vinnulagi sínu, sker við nögl og dregur lappirnar í að styrkja og efla menntun á þessu sviði en veitir ríkisábyrgðir til erlendra fyrirtækja sem hugsanlega verða með einhvern hluta af starfsemi sinni hér á landi en munu þurfa að búa við það að sækja vinnuafl sitt, hið sérhæfða vinnuafl að stórum hluta erlendis frá vegna þess að menntun og rannsóknir og þróunarstarf, grunnþróunarstarf er ekki undirbúið hér með þeim hætti sem okkur bæri að gera. Ég hef nefnt þann seinagang sem er á byggingu Náttúrufræðihúss Háskóla Íslands sem ekki enn sér fyrir endann á hvenær kemst í notkun.

Herra forseti. Ýmislegt annað mætti segja um þetta mál í umræðunni um ríkisábyrgðir og aðgengi atvinnulífsins að fjármagni. Ég vil gera að umtalsefni þá atvinnugrein sem er í hvað örustum vexti hér á landi en býr við hvað mest fjársvelti og það er ferðaþjónustan, uppbygging á ferðaþjónustu um hinar dreifðu byggðir landsins. Það er sá atvinnuvegur sem í hvað örustum vexti skilar hvað flestum störfum, það er sá atvinnuvegur sem hefur nú á sl. ári skilað t.d., að því er tölur segja, um 37 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur og hefur vaxið á örfáum árum, nærri tvöfaldast á innan við áratug. Og þetta er sá atvinnuvegur sem allar spár segja að geti vaxið enn meir og á álíka hraða á næstu árum ef vel er að staðið og vel er undirbúið.

[11:00]

Einmitt í þessum atvinnuvegi berjast menn við vanda frumkvöðlanna. Við erum jú að búa til atvinnufyrirtæki í ferðaþjónustu, fyrirtæki og verkefni sem byggja á að nýta þá auðlind sem náttúran, menningin og saga okkar er til að skapa atvinnu. Vandi frumkvöðlanna þar er skortur á fjármagni. Hve margir munu heltast úr lestinni eftir nokkur ár eftir að hafa lagt sitt af mörkum, eigur sínar og hugvit? Hve margir munu lúta í lægra haldi vegna þess að þeir fengu ekki fjármagn, einu sinni lánsfjármagn á eðlilegum viðskiptakjörum fyrir starfsemi sína. Verður þá þróunarstarfið keypt upp fyrir slikk af stórfyrirtækjum í þessum atvinnurekstri? Þarna mætti koma til miklu meiri fjárstuðningur og þess vegna ríkisábyrgðir, gæti það hjálpað til að fá fjármagn á hagkvæmari kjörum.

Ferðaþjónustan í landinu er okkar stærsti atvinnumöguleiki en hún býr við langlökustu möguleikana í að útvega fjármagn til þeirra starfa sem þar er verið að byggja upp. Engin atvinnugrein býr við eins erfiðar aðstæður og ferðaþjónustan í landinu. Þetta gildir einnig um lánsfjármagn og fjármagn til rannsóknar- og þróunarstarfs á þessum vettvangi.

Á fjárlögum yfirstandandi árs eru veittar að mig minnir liðlega 700 millj. kr. í rannsóknar- og þróunarstarf til ferðamála í landinu. Menn monta sig af því að framlagið hafi hækkað um 150 millj. kr. til að gera átak í að kynna ferðaþjónustu á Íslandi erlendis, sérstaklega í kjölfar neikvæðra umræðna til ferðaþjónustunnar vegna hörmunganna 11. sept. í New York í Bandaríkjunum. Menn eru að monta sig af þessari upphæð, 150 millj. kr. Þegar menn horfa síðan á þetta í hlutfalli við annað eru þær 700 millj. kr. sem hið opinbera veitir til rannsóknar- og þróunarstarfs í ferðaþjónustu á Íslandi eins og stofnkostnaður við 1,5 starf í álveri á Reyðarfirði miðað við áætlanir. Gert var ráð fyrir að stofnkostnaður á bak við hvert ársstarf í álverinu yrði um 400 millj. kr. Liðlega 700 millj. kr. er varið af hálfu hins opinbera til þróunarstarfs í ferðaþjónustu á Íslandi.

Sjá menn í hvaða samhengi er unnið? Það er dapurlegt, herra forseti, að sjá hvernig ríkisstjórnin með ráðstjórnarlegum stjórnunartilburðum sínum velur gæluverkefnin fram yfir önnur og lætur þau njóta sérstaks forgangs á fé ríkisins.

Það er einnig dapurlegt til þess að hugsa, herra forseti, að þegar þetta fyrirtæki var sett á stofn og komið á laggirnar var leitað eftir stuðningi almennings við það með ýmsum hætti, m.a. með útboði á hlutafé. Það er góðra gjalda vert og ekkert óeðlilegt að fyrirtæki á þessum vettvangi og af þessari stærð leiti sér fjármagns á hlutabréfamarkaði, bæði á almennum hlutabréfamarkaði og fái líka einstaka stærri fjárfesta til þess að kaupa í hlut. Það er alveg fullkomlega eðlilegt að það sé gert.

Hitt hlýtur að valda okkur depurð þegar við lítum til forsögunnar frá undanförnum mánuðum og árum en hlutabréf í þessu fyrirtæki hafa rokkað svo til í verði, eru nú á genginu tæplega 5 og fóru upphafi upp í gengið 60, það hefur a.m.k. verið nefnt og allt þar á milli. Svona miklar sveiflur í gengi á hlutabréfum í einu fyrirtæki hljóta að segja okkur að steinarnir í grunninum hafi ekki verið vel hlaðnir. Engum er hollt, hvorki því fyrirtæki sem byggir sig upp með þessum hætti né hluthöfum sem þarna koma að máli að fyrirtækið skuli svo óstöðugt. Það er heldur ekki hollt fyrir atvinnulífið í landinu að fyrirtæki byggist upp með gríðarlegum sveiflum á verði hlutabréfa sinna.

Ef eitthvað er ættum við að hafa lært, og það væri kannski skynsamlegra, að fara að öllu rólegar, fara hægar og með gát og átta okkur betur á því hvar við stöndum í rekstrinum og starfseminni. Þetta á ekki bara við um þetta fyrirtæki. Þetta á við um öll fyrirtæki. Því stærri sem þau eru og því meira fjármagn sem þau fara með því harðara verður fallið eða slagsíðan þegar af því verður.

Það er mjög ótrúverðug framkoma, ótrúverðug vinnubrögð, að í hv. efh.- og viðskn. skuli ekki hafa verið hægt að fá upplýsingar um rekstur, stöðu og viðskiptamál fyrirtækisins sem lúta að öryggi þessarar ábyrgðar. Það hlýtur, virðulegi forseti, að vera alvarlegt íhugunarefni þegar hv. Alþingi vinnur að því að fá hér í gegn að veita fjármagn sem nemur allt að 20 milljörðum ísl. kr. til erlends fyrirtækis. Þótt fyrirtækið eigi sér dótturfyrirtæki hér á landi er verið er veita hinu erlenda fyrirtæki í Bandaríkjunum þessa ríkisábyrgð án þess að því sé fylgt hér fast eftir að nauðsynlegar upplýsingar til að átta sig á þeirri áhættu, því mati sem verður að liggja til grundvallar, séu fyrir hendi. Þaðan af síður er ásættanlegt að í þessum sérlögum sem hér eru borin fram sé lagt til eða þess krafist að hinum almennu reglum sem gilda um ríkisábyrgð skuli vikið til hliðar, einmitt þeim reglum sem lúta að áhættumati við veitingu ríkisábyrgða. Virðulegi forseti, þetta er alveg dæmafá framkoma og slök vinnubrögð.

Ég vil í lok máls ítreka að ég á þá ósk heitasta að líftækni og lyfjaiðnaður hér á landi vaxi og dafni og eigi sér bjarta framtíð. Ég vil hins vegar að hann geti byggst upp á raunsönnun forsendum og heilbrigðum, bæði hvað varðar verkefni og vinnubrögð og öflun fjármagns. Ég held að það sé ósk okkar allra og það er því andstætt þessum vonum og væntingum og sýn okkar að ríkið gangi hér á undan og veiti nánast skilyrðislaust fjármagn til þessa erlenda fyrirtækis og skekki þar með framtíðina á þessum grundvelli. Hér á að taka áhættu sem við höfum hér enga aðstöðu til þess að fá metna. Við erum að gera rangt, herra forseti. Ef þessi heimild til handa fjmrh. til að veita þessu erlenda fyrirtæki, deCODE, 20 milljarða kr. ríkisábyrgð verður samþykkt erum við að gera rangt.