Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 11:39:14 (8256)

2002-04-26 11:39:14# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[11:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að endurtaka mikla trú mína á starfsemi deCODE og Íslenskrar erfðagreiningar núna sem og á þeirri nýju starfsemi í lyfjaþróun sem þeir ætla að taka upp.

En mig langar til að spyrja hv. þm. Gunnar Birgisson nokkurs. Í fyrsta lagi talar hann um 17 milljarða eigið fé --- fyrirtækið fór á verðbréfamarkað og aflaði mikils fjár sem átti að brenna upp á ákveðnum tíma. Nú er gert ráð fyrir því að af brennslutímanum séu um 4--5 ár eftir. Hefur hv. þm. kynnt sér það? Og þeir reikningar sem hann vísaði í eru náttúrlega vegna núverandi starfsemi en ekki vegna hinnar nýju starfsemi í lyfjaþróun sem er miklum mun áhættusamari en starfsemi fyrirtækisins í dag.

Þá er það spurningin um áhrif á innanlandsmarkað. Þau verða vissulega jákvæð að mestu leyti ef vel gengur en þó hafa þau neikvæð áhrif, t.d. á heilbrigðiskerfið vegna samkeppni um starfsmenn. Hefur hv. þm. gert sér grein fyrir því?

Og hefur hv. þm. kannað hvað mundi gerast ef svo fer, eins og hann segir, að kröfuhafar þurfi að ganga að fyrirtækinu og gera það gjaldþrota ef illa fer? Þar með mundu líka tapast þau 600 störf sem eru í gangi í dag. Hefur hann gert sér grein fyrir því? Hefur hann kannað áhættugreiningu á þessu fyrirtæki, hversu miklar líkur eru á gjaldþroti, hversu miklar á að það gangi vel og hversu miklar að það gangi þokkalega? Þetta er eitthvað sem menn þurfa að kanna.

Og svo er það náttúrlega spurningin um heimssýn. Hefur hv. þm. trú á því og skoðun að svona áhætturekstur eigi að fjármagna öðruvísi en með áhættufé? Er skynsamlegt að fjármagna svona rekstur með lánsfé, hvað þá með ríkis\-ábyrgð? Er það í samræmi við skoðun hans og þekkingu á atvinnurekstri að þvílíka áhættu eigi að fjármagna með lánsfé og ríkisábyrgð?