Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 17:16:26 (8266)

2002-04-26 17:16:26# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf að útskýra þetta enn betur fyrir hv. þm. Þessi tillaga verður dregin til 3. umr. Það þýðir að hv. Alþingi verður líklega búið að samþykkja tillögu hv. efh.- og viðskn. að ríkissjóður megi veita ríkisábyrgð. Þá bæti ég við til þess að nota allt frv., til þess að nota greinargerð frv. um umbreytinguna --- öðruvísi er það tæknilega ekki hægt --- að fjmrh. sé auk þess heimilt að kaupa þessi sömu skuldabréf. Það fellur alveg inn í greinargerðina. Það fellur alveg inn í samkomulagið sem gert hefur verið við fyrirtækið þannig að fyrirtækinu má vera nokkuð sama hvort ríkissjóður eigi þessi skuldabréf eða einhver annar. Þannig mun ríkissjóður hagnast á því ef vel gengur. Vegna eðlis áhættunnar í þessu fyrirtæki þar sem annaðhvort gengur mjög vel --- mjög vel --- eða mjög illa, þ.e. gjaldþrot --- það er eiginlega ekkert þarna á milli --- vegna eðlis þessarar áhættu þá er miklu skynsamlegra fyrir ríkissjóð, og það rökstuddi ég, að nota umbreytinguna, þ.e. eiga skuldabréfin sjálfur, veita ekki ríkisábyrgð heldur kaupa skuldabréfin sjálfur, veita lán sem þarna er gert ráð fyrir. Ef fjmrh. tekur ákvörðun um ríkisábyrgð þarf hann að rökstyðja það. Það er afskaplega óskynsamlegt að veita ríkisábyrgð eina sér vegna eðlis þessarar áhættu. Hann getur því ekki veitt ríkisábyrgð. Hann verður samkvæmt þessari tillögu að kaupa skuldabréfin og eignast kauprétt í fyrirtækinu. Það liggur að baki þessu.

Það var ekki hægt að gera þetta öðruvísi vegna þeirrar tækni að ég þurfti að nota greinargerð með frv. um þessa umbreytingarreglu. Það er umbreytingarreglan sem skiptir öllu máli því þá er ríkissjóður farinn að taka þátt í hagnaðinum. Hæstv. fjmrh. þarf að rökstyðja það ef hann gerir eitthvað annað, ef þessi tillaga verður samþykkt. Þetta er munurinn á þessari tillögu og tillögu hv. efh.- og viðskn. þar sem bara er heimilt að veita ríkisábyrgð, ríkissjóður fær eitthvert mjög lágt ríkisábyrgðargjald. Hann tapar öllu ef það tapast og hann fær ekkert fyrir sinn snúð nema ríkisábyrgðargjaldið ef vel gengur. Þessi er munurinn.