Atvinnuréttindi útlendinga

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 12:22:48 (8299)

2002-04-27 12:22:48# 127. lþ. 131.16 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að fara eigi sérstökum og mildari höndum um þá sem sækja nám til Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að Íslandi sé ákaflega hagfellt að öllu leyti að reyna að draga hingað að fólk og gera því auðvelt að framfleyta sér meðan á námi stendur. Reynslan sýnir að það skilar sér margfalt þegar erlendir námsmenn fara héðan til heimalands síns, þeir sækja hingað viðskipti, reynslu o.s.frv.

Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að fara eigi mildari höndum um námsmenn að þessu leyti. Í öðru lagi hef ég þrátt fyrir allt ákveðinn skilning á því sem hv. þm. sagði. Hafi ég skilið mál hennar rétt var hún í reynd að segja að girða ætti fyrir að menn gætu komið til landsins í krafti falskrar námsvistar og fengið atvinnuleyfi. Ég hef fullan skilning á að með einhverjum hætti eigi að koma í veg fyrir slíkt.

Þær aðstæður gætu komið upp í íslensku samfélagi að við værum ekki í jafnríkri þörf fyrir erlent vinnuafl og í dag. En ég hjó eftir því að hv. þm. talaði eins og að þegar búið væri að sannreyna það að viðkomandi maður væri hér í raunverulegu námi og hefði ekki komið inn í landið til að taka þátt í vinnumarkaði á fölskum forsendum, væri hægt að lengja þetta aftur upp í tólf mánuði. En ég tek eftir því að a.m.k. í greinargerð er talað um að hámarksgildistíminn sé sex mánuðir. Þannig er ekki hægt að leyfa námsmanni að fá aftur tólf mánaða leyfi ef í ljós kemur að hann sýnir eðlilega námsframvindu og er hér fyrst og fremst til þess að læra.