Atvinnuréttindi útlendinga

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 12:25:55 (8301)

2002-04-27 12:25:55# 127. lþ. 131.16 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[12:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mig langar að skýra atriði sem hér hefur verið til umræðu.

Í 8. gr. frv. segir:

,,Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi.``

En í 12. gr. segir:

,,Heimilt er að veita útlendingi, sem stundar fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla, leyfi til að stunda vinnu sem hluta af námi, með námi eða í námsleyfum, enda sé námsframvinda eðlileg.``

Samkvæmt þessu er ljóst að mildari höndum er farið um námsmanninn og beinlínis verið að létta undir með honum, þ.e. hann þarf ekki að undirbúa það að sækja um atvinnuleyfi áður en hann kemur til landsins. Hann kemur hingað sem námsmaður, stundar skóla og getur drýgt tekjur sínar með því að fá þessa sérstöku heimild. Þannig er reynt að koma til móts við námsmanninn, það er meiningin með þessu ákvæði, en honum ekki gert erfiðara fyrir, síður en svo. Ég er alveg sammála hv. þm. um að það er mikilvægt fyrir okkur að reyna fremur að hæna að okkur námsmenn en að styggja þá burtu.

Ég vil líka nota tækifærið til að þakka hv. félmn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli. Þó að einstakir nefndarmenn hafi skrifað undir nál. með fyrirvara og standi ekki allir að brtt. held ég að hér sé um mjög brýna löggjöf að ræða og ég er þakklátur fyrir að hún er komin þetta vel á veg.