Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 14:51:30 (8308)

2002-04-27 14:51:30# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, Jóhönnu Sigurðardóttur, að þetta mál er í raun og veru alveg fáfengilegt. Maður veit ekki hvaða lýsingarorð maður á að nota yfir aðdraganada málsins, t.d. hvernig Framsfl. leggur sjálfan sig undir í þessu máli. Það er hraksmánarlegt að sjá til blaðaviðtala hans og vitnaleiðslna þingmanna og ráðherra Framsfl., svo maður tali ekki um eldri pappíra, þingmál og annað því um líkt, þar sem þeir lýsa sig meira og minna andvíga málinu, hneykslast á framgöngu forsrh. eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði í fyrravetur og leka svo hér niður og láta þetta mál fara þegjandi og umræðulaust af sinni hálfu í gegn. Það er alveg yfirgengilegt. Þegar búið er í raun og veru að afhjúpa málið þannig faglega að eftir stendur að það á að sulla þessu einhvern veginn áfram, dreifa verkefnunum út um dal og hól --- það er engin vönduð greining á þessu máli eða einhver skýr verkaskipting dregin upp --- og þegar menn lenda í vandræðum er vísað á Seðlabankann, greiningardeildir úti í bæ, fjmrn., Hagstofuna, bara ,,einhvern`` sem á að gera þetta. Það mætti halda að það væri verið að --- ég veit ekki við hvað á að líkja því --- þessar hlutlausu þjóðhagsspár eða annað því um líkt væru a.m.k. ekki viðkvæmar þjóðhagslegar upplýsingar. Menn meðhöndla varla slík viðfangsefni á þennan hátt. En það er samt svo, kostulegt sem það nú er.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson dróst inn í umræðuna í andsvörum. Það er aðallega þannig sem Framsfl. tekur þátt í umræðum um stórmál núna. Í gær t.d. rausnaðist Framsfl. upp í andsvar í ríkisábyrgðarmálinu, deCODE. Hann lagði bara undir ein fjögur andsvör í þeirri umræðu, Framsfl., og nú er komið annað merkt framlag sem eru þessi tvö andsvör frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni nema það teljist sérstakt framlag til umræðunnar að hv. þm. Hjálmar Árnason gengur hér um gólf. Vera kann að það sé framlag framsóknarmanna til umræðunnar. (Gripið fram í.)

Nú liggur það fyrir, herra forseti, að ekki verður af þessu sparnaður heldur þvert á móti kemur þetta til með að kosta meira, a.m.k. fyrst um sinn. Verkefnin eiga ekki að hverfa, mega ekki hverfa og geta ekki horfið. Í öðru lagi, herra forseti, hefur í sjálfu sér ekki verið bent á neitt athugavert við núverandi fyrirkomulag, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hvað er það sem ekki hefur gengið nógu vel þarna? Rekstur þessarar stofnunar? Vinna hennar, það sem frá henni kemur? Er það óhagkvæmt fyrirkomulag að Þjóðhagsstofnun er þarna til húsa hjá Seðlabankanum og nýtur góðs af sameiginlegri aðstöðu þar? Nei, alveg prýðisfyrirkomulag. Er stofnunin illa mönnuð? Hefur verið flótti frá henni, starfsmannaflótti? Nei. Þvert á móti vinnur þarna kjarni af mjög traustu og velmenntuðu fólki, og margir með umtalsverða reynslu. Núna er að vísu búið að hrekja frá henni forstjórann sem þar var um alllangt árabil en þar mundi væntanlega koma maður í manns stað.

Hvað er það þá sem ekki hefur gengið upp? Ja, það er bara það að forsrh. reiddist við stofnunina og ákvað að leggja hana niður. Þetta er náttúrlega orðinn kækur hjá ríkisstjórninni. Svona fara menn með vald sitt sem sitja of lengi og misskilja stöðu sína. Þeir reiðast öllu sem gerist og ekki lýtur þeirra vilja í stóru og smáu. Þá þurfa menn að fara að hvíla sig og gera eitthvað annað. Það er náttúrlega þeim mun verra ef með þeim eru slíkar lyddur í samstarfi að þeir láta allt eftir þeim, eins og á við í tilviki Framsfl. sem ævinlega lekur niður, það má alltaf treysta því, eða selur sig þá.

Þetta er nákvæmlega hliðstætt dæmi og með Landssímann þar sem Framsfl. ætlaði aldeilis að standa í lappirnar, ekki kæmi til greina að einkavæða Landssímann, a.m.k. ekki með grunnnetinu. Þar ætluðu þeir að standa fastir fyrir, framsóknarmenn, og héldu út í rúmlega hálft ár. Þá var allt lekið niður og þeir létu sig hafa það að standa að þeim ósköpum sem síðan urðu með Landssímann, sjálfum sér til háðungar og skammar. Það fer alveg nákvæmlega eins í þessu máli, og þjóðin veit alveg upp á sína tíu fingur hvað hér er á ferðinni.

Herra forseti. Vinna Þjóðhagsstofnunar og hlutverk er eitt af því allra mikilvægasta í efnahagsmálum okkar, stjórnmálum og umræðum um þjóðhagsmál. Störf Þjóðhagsstofnunar og rit hennar gegna lykilhlutverki. Ég mótmæli harðlega að það sé ekki afturför ef svona stofnun, tiltölulega sjálfstæð, óháð stofnun af þessu tagi, hverfur af sjónarsviðinu. Það verður þessum aðila færra til að dreifa til þess að bera saman gögn og leggja dóm á mismunandi mat manna á þjóðhagshorfum og öðru slíku.

Hver á að gera þjóðhagsáætlun fyrir haustið 2002 ef þetta frv. verður að lögum? Hvernig á að vinna þjóðhagsforsendur fjárlagagerðarinnar í vor og sumar? Hver gerir það? Með fjárlögum á hverju hausti er lögð fram þjóðhagsáætlun, grundvallarplagg sem er í raun og veru fylgirit fjárlaganna. Halda menn að það hafi ekki sjálfstætt gildi að hún er unnin af sjálfstæðri stofnun en ekki fjmrn.? Hvernig dettur mönnum í hug að halda öðru fram? Enda hefur iðulega komið fram ákveðinn mismunur á mati manna. Þjóðhagsstofnun hefur veitt aðhald hvað það varðar að fjmrn. freistist ekki til að fegra fyrir sér þjóðhagshorfurnar. Af hverju skyldi það vera? Jú, til að ná endum saman í fjárlagagerðinni, það er stundum kallað að ljúga saman fjárlögunum. Það er alþekkt að fjármálaráðuneytin eru gjarnan undir mikilli pressu um að fegra horfurnar þannig sérstaklega, drýgja tekjuhliðina, því að það er kannski það sem menn geta gert með því að gefa sér hagstæðar forsendur í þjóðhagsspá. Útgjöldin ráða menn verr við og til þess að ná endum saman og sýna þetta fallegt á pappírunum, ekki síst á kosningaárum, eru menn kannski að leika sér svolítið með forsendurnar.

Þá skiptir miklu máli að til staðar sé einhver óháður aðili sem leggur sjálfstætt mat á hlutina, helst eins fjarlægur framkvæmdarvaldinu og kostur er við þessar aðstæður. Það hafa í mínum huga verið ein meginrökin fyrir því að Þjóðhagsstofnun eða sá aðili sem annast gerð þjóðhagsspáa væri betur kominn sem sjálfstæður, algjörlega óháður aðili í skjóli Alþingis og hefði sterkari stöðu til að leggja fram sjálfstætt mat.

Annað meginplagg um efnahagsmál kemur svo oftast í byrjun desember og það er það sem ég hef stundum kallað skammdegisskýrslu Seðlabankans. Þá kemur meginrit Seðlabankans þar sem hann leggur mat á horfurnar eins og hann sér þær fyrir sér. Síðan eru auðvitað Fjármálatíðindin og þau rit önnur. Síðan kemur frá Þjóðhagsstofnun á útmánuðum ritið Þjóðarbúskapurinn. Þessi rit hafa verið þeim sem hafa verið að glíma við efnahagsmál, hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu, meginhandbækur. Ég segi alveg eins og er, eftir að hafa t.d. afplánað í efh.- og viðskn. um langt árabil --- ætli ég hafi ekki setið þar upp undir tíu ár í röð --- að þetta voru grundvallargögn sem maður notaði á hverju ári. Það var gjarnan haldinn sérstakur fundur á haustin þegar ég var í efh.- og viðskn., einmitt með Þjóðhagsstofnun þar sem hún fór yfir horfurnar með nefndinni. Síðan kom Seðlabankinn og síðan fjmrn. Og það var mjög gagnlegt að fá þessa aðila og heyra mismunandi mat þeirra á stöðunni.

[15:00]

Nú er ósköp einfaldlega lagt til að slá þennan aðila af og dreifa verkefnum hans inn í Hagstofuna sem þarf þá að fara að byggja alveg upp frá grunni sína stöðu í þessu ef hún á að þjóna þarna einhverju hlutverki, þ.e. einhverju sjálfstæðu matshlutverki. Hún getur kannski fært þjóðhagsreikningana. Það er að mörgu leyti ekkert óskylt þeirri starfsemi sem þar hefur verið, hagsýslugerð og öðru slíku. En það er auðvitað algjörlega fráleitt að ætla að afgreiða málin þannig að vísa hinum meginverkefnunum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum þangað.

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram áður í umræðunni hafa verið uppi hugmyndir um að kannski mætti til mótvægis styrkja einhvers konar hagdeild eða hagsvið hjá Alþingi. Það er auðvitað ein leið sem er mjög vel möguleg og brtt. er hér flutt um það af stjórnarandstöðunni. En þá bregður svo við að þó að menn í orði kveðnu þykist ekkert vera henni neikvæðir þá vantar allan stuðning við hana. Af hverju er það þá ekki ákveðið í leiðinni þannig að strax næsta haust geti slíkt hagsvið með nokkrum liðstyrk, nokkurra manna hagsvið eða hagdeild, verið komin til sögunnar? Kannski væri þá rétt að láta hana annast gerð sjálfstæðrar þjóðhagsspár sem Alþingi hefði sjálft í höndunum þegar fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar birtist hverju sinni.

Herra forseti. Alla vega finnst mér það með hreinum ólíkindum ef menn ætla að henda þessu frá sér svona eins og málatilbúnaðurinn allur hljóðar upp á núna. Auðvitað væri nærtækara að fara fyrst yfir gömlu hugmyndirnar um að færa Þjóðhagsstofnun einfaldlega í óbreyttri mynd sinni eða t.d. með spár og greiningarhlutverk sitt undir Alþingi og stokka þá kannski að einhverju leyti upp verkaskiptingu þeirrar stofnunar og Hagstofunnar, Seðlabankans og fjmrn. eftir atvikum.

Herra forseti. Reyndar verð ég að segja að það hefur mér fundist furðulegast af öllu þegar menn hafa farið að vísa í Seðlabankann, eins og er gert t.d. í greinargerð með frv. hér. Þar er komið inn á hið nýja hlutverk Seðlabankans samkvæmt nýjum lögum og talað um sjálfstæði bankans og því sé mikilvægt að Seðlabankinn ,,vinni ýmis mál sjálfur sem áður voru í samstarfi við aðra. Á það sérstaklega við um mat á stöðu og horfum í efnahagsmálum.``

Já, en samrýmist það sjálfstæði Seðlabankans að hann eigi jafnframt að vinna það fyrir aðra aðila og vera þeim til ráðuneytis, þar á meðal framkvæmdarvaldinu eða löggjafarvaldinu? Hér fara menn algerlega í hring. Það væri fróðlegt að heyra t.d. hv. þm. Vilhjálm Egilsson útlista það hvernig það samræmist nýju lögunum um Seðlabankann og auknu sjálfstæði hans að setja hann svo jafnframt í þetta verkefni. Þetta er tátólógía. Þetta er hrein lokleysa. (Gripið fram í.)

Ég er hér með frv. sem var lagt til grundvallar lagasetningunni um Seðlabankann á síðasta ári og greinargerð þess. Það væri fróðlegt fyrir þingmenn að fara yfir það, svo ég tali nú ekki um alla pappírana sem nefndin hafði í höndunum sem vann frv., þykkar skýrslur um fyrirkomulag þessara mála í öðrum löndum og hvernig seðlabankar í öðrum löndum hefðu verið að þróast. Mig rekur hvergi minni til þess að hafa séð það að liður í þeirri þróun væri að þvæla inn í seðlabankana einhverju ráðgjafar- og spárhlutverki fyrir framkvæmdarvaldið eða löggjafarvaldið. Þvert á móti hefur verið markmið að rjúfa algerlega þessi tengsl. Það er algerlega ljóst að þetta er í fullkominni mótsögn við allan andann í því starfi sem lá til grundvallar nýju lögunum um Seðlabankann og því markmiði þeirra laga að gera Seðlabankann sjálfstæðan.

Þannig stóð t.d. í greinargerð með frv. á sínum tíma að helstu breytingar sem frv. geri ráð fyrir frá eldri lögum séu að starfsemi Seðlabankans verði sett skýrt markmið um að tryggja stöðugt verðlag og hverfa frá gengisfestu og yfir í verðlagsviðmið.

Síðan segir: ,,Ráðherra komi að því að skilgreina það markmið ...``

Það er hvar menn setja mörkin, verðlagsmörkin. Er 2% eða 3% verðbólga ásættanleg? Stjórnvöld koma að því. En þar með lýkur þeirra hlutverki.

Svo segir: ,,... bankinn hafi fullt sjálfstæði í ákvörðunum um hvernig markmiðinu verði náð með beitingu þeirra stjórntækja sem hann býr yfir.``

Fullt sjálfstæði. Muna menn hvernig þetta var áður í lögum? Það stóð áður í lögum, ég held í 4. gr. gömlu laganna um Seðlabankann, að hann skyldi framkvæma efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og ef ríkisstjórn og Seðlabanka greindi á átti Seðlabankinn að lúffa. Hann mátti að vísu lýsa þeim ágreiningi opinberlega. En að öðru leyti átti hann að hlýða ríkisstjórn.

Hér hafa menn tekið þessa hluti og snúið þeim við. Það er í samræmi við það sem gerst hefur í löggjöf seðlabanka annars staðar. Þetta er t.d. í samræmi við þær reglur sem Maastricht-sáttmálinn setur evrópsku seðlabönkunum og sem seðlabankar Evrópusambandsríkjanna sem ætla að taka upp evruna, verða að uppfylla og mjög mörg önnur vestræn ríki hafa sniðið löggjöf sína að þessu sama. Við skoðuðum í nefndinni á sínum tíma t.d. löggjöf nýsjálenska seðlabankans, sænska seðlabankans og einhverra fleiri. Hvergi nokkurs staðar er nokkur skapaður hlutur á blaði þar um að seðlabankarnir fari að leika einhvers konar þjóðhagsstofnun. Menn hafa einmitt verið að fara með þetta í öfuga átt.

Megineinkenni breytinganna sem orðið hafa á löggjöf um seðlabanka og við erum að taka mið af er að einfalda lögin, hafa markmiðin fá en skýr og þá fyrst og fremst verðlagsmarkmiðin sem yfirleitt hafa leyst önnur markmið af hólmi, t.d. um gengisfestu eða annað því um líkt, og fullt sjálfstæði bankanna til þess að fylgja peningamálastefnu sinni eftir með þeim tækjum sem þeir hafa.

Til marks um það hversu mikilvægt menn hafa talið að slíta tengslin og skapa þarna fullt sjálfstæði og óhæði seðlabanka gagnvart framkvæmdarvaldinu er að þessum breytingum hefur eiginlega alls staðar fylgt að ríkissjóði er bannað að taka lán hjá Seðlabankanum. Klippt er á fjárhagslegu tengslin til þess að ekki einu sinni þau geti neitt orkað þarna tvímælis. Í raun hætta seðlabankarnir að vera eins og viðskiptabanki ríkissjóðs og ríkissjóður verður að fjármagna sig eftir atvikum ef hann þarf á slíku að halda vegna skammtímahreyfinga eins og hver annar aðili á markaði og seðlabankarnir hætta að leika það hlutverk.

Ég gæti vitnað ítarlegar í greinargerð með frv. frá sínum tíma, herra forseti, en ég taldi rétt að gera þetta hérna aðeins að umtalsefni vegna þess að eitt af því sem menn hafa nefnt í umræðunni og ég tel algerlega fráleitt, er að vísa á Seðlabankann þegar menn eru í þrengingum sínum að reyna að finna því einhverja stoð að svona eigi að standa að málum.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum þegar menn segja að ekkert geri til þó að Þjóðhagsstofnun hverfi vegna þess að svo margir aðrir eru farnir að gera þetta. Bíddu, gera hvað? Eru það greiningardeildir bankanna? Meðal annars hv. þm. Krstinn H. Gunnarsson nefndi það hér áðan. Er það sambærilegt við það sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum á þessu sviði? Ætla menn að fara að leita til bankanna og hvernig þá? Á að bjóða það út eða á hverjum ætla menn að taka mark? Nú er það dögum oftar sem niðurstöður einstakra spekinga hjá bönkum eða verðbréfafyrirtækjum eða fjármálastofnunum öðrum eru út og suður. Oft er verulegur munur á mati þeirra á þjóðhagshorfum eða öðru slíku eins og við höfum nú m.a. fengið að heyra á umliðnum vetri þegar menn hafa verið t.d. mjög ósammála um mat sitt á því hvort líklegt væri að rauðu strikin í maí héldu og annað í þeim dúr. Hverjum á þá að treysta? Íslandsbanka? Búnaðarbankanum? Landsbankanum? Kaupþingi? Þetta gengur ekkert upp, herra forseti, enda er það sem gert er á þessum bæjum m.a. byggt á gögnum frá Þjóðhagsstofnun. Við hvað eiga þessir menn að styðjast ef þeir hafa ekki lengur aðgang að einhverjum slíkum gögnum? Eiga þeir að sækja þau inn í fjmrn. eða til Seðlabankans? Er það heppilegt? Samrýmist það samskiptareglum viðskiptabankanna við Seðlabankann að þeir leiti þangað eftir einhverjum gögnum til að gera greiningar sínar á þjóðhagshorfum eða öðru slíku?

Út frá hvaða sjónarhóli eru þeir að vinna þá vinnu? Það er út frá þeim hagsmunum sem þeir eru að passa upp á sem fjármálastofnanir og vangaveltum um þróun á verðbréfamarkaði og annað í þeim dúr. Einnig þetta, herra forseti, er algerlega fráleitt að mínu mati.

Það sem mér hefði fundist koma helst til greina annað en að hafa þetta í grófum dráttum óbreytt --- enda hefur það gefist ágætlega --- úr því að ekki á að spara eina einustu krónu heldur frekar auka kostnaðinn en hitt, væri að skoða mjög rækilega annað tveggja, að Hagstofan og Þjóðhagsstofnun rynnu í raun saman í eina stofnun eða að Þjóðhagsstofnun, a.m.k. spár- og greiningarhlutinn og ráðgafarhlutinn, færðist undir Alþingi. Mér finnst algerlega fráleitt, herra forseti, að ekki skuli liggja fyrir vönduð úttekt á þessum kostum nú eða öðrum sem mögulega fleiri væru áður en menn fara að rjúka í svona slátrun á Þjóðhagsstofnun og henda frá sér öllu því sem þar hefur verið byggt upp, þeirri þekkingu sem þar er saman söfnuð, þeim vinnureglum, búnaði, þjálfun og tækni og öllu sem til staðar er, til að gera nákvæmlega þessa hluti. Það hlýtur að vera þannig, herra forseti, að það kallar á að starfsemin verði byggð upp einhvers staðar annars staðar því að það er ekki hægt að sleppa þessu. Það liggur alveg í augum uppi.

Herra forseti. Mér finnst líka --- og það hafa svo sem fleiri komið inn á --- mikið áhyggjuefni að við skulum standa frammi fyrir máli af þessu tagi í samskiptum valdþáttanna í þjóðfélaginu. Það fer að verða mál til komið að taka það rækilega á dagskrá hvernig framkvæmdarvaldið í tíð núverandi valdhafa þjösnast áfram og gerir ekki neitt í raun með það sem frá öðrum valdstoðum í samfélaginu kemur, keyrir bara sitt yfir allt og alla eins og er að gerast hér þegar framkvæmdarvaldið úti í bæ ákveður að leggja niður þessa opinberu stofnun, boðar það í beinni útsendingu í fjölmiðlum, einn einasti maður, forsrh., og svo er Alþingi ætlað að hlýða. Þetta er gert án þess að horft sé til hlutverks hvers og eins. Kannski má segja að óþarfi sé að blanda dómstólunum inn í þetta dæmi. En í öllu falli er algerlega ljóst að þetta varðar grundvallarsamskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds vegna þess að löggjafarvaldið er líka fjárveitingavaldið og það á að stjórna þeirri vinnu sem að lokum endurspeglast í fjárlögum hverju sinni. Á hvaða grunni á löggjafarvaldið að vinna það? Jú, það verður að hafa einhverjar traustar upplýsingar sem það getur treyst á og það er mjög umhendis að það þurfi að vera upp á framkvæmdarvaldið komið með alla skapaða hluti í þeim efnum.

Vilja menn fara aftur á bak til þeirra tíma þegar þetta var nú kannski enn dapurlegra en það er í dag hvað það varðar að Alþingi hafði ekki einu sinni starfsmenn til aðstoðar í þingnefndum o.s.frv.? Ég hélt að menn væru frekar að tala um að reyna að fara í hina áttina og hafa þennan aðskilnað skýrari og styrkja þá t.d. að þessu leytinu til Alþingi þannig að það hefði í höndum áreiðanlegar og traustar og óháðar þjóðhagsupplýsingar þegar það er að vinna með fjárlög á haustin og afgreiða þau fyrir áramót hverju sinni.

Herra forseti. Ég reikna svo sem ekki með því að sannfæringarkraftur minn dugi til þess að snúa mönnum í stórum stíl í þessu máli, enda fara menn hljótt með eiginlega afstöðu sína hér. Þetta er eitt af þessum málum þar sem meiri hlutinn birtist manni handjárnaður og hann á að afgreiða þetta sisona. Þess sér augljóslega stað t.d. í algerri fjarveru framsóknarmanna í umræðunni að þeir kjósa að láta sig hverfa í þessu máli eins og reyndar fleirum þessa dagana. Það fer að mega grípa til þeirra ráða, sem einu sinni áður a.m.k. hafa verið reynd hér, þ.e. að auglýsa hreinlega eftir Framsfl. Kannski er best að splæsa einni útvarpsauglýsingu á þá núna í kvöldfréttunum, hvar þeir séu, hvort þeir gætu gefið sig fram við skiptiborð Alþingis. Þeir hafa alla vega ekki farið mikinn í þessari umræðu um að slátra Þjóðhagsstofnun frekar en þeir gerðu í gær og undanfarna daga í umræðum um að veita fyrirtækinu deCODE þessa 20 þúsund milljóna ríkisábyrgð. Það eru aldeilis vorverkin hjá hæstv. ríkisstjórn þessa dagana.

[15:15]

Ég vil að lokum, herra forseti, lýsa því yfir að ég áskil mér allan rétt á að taka þetta mál upp þó síðar verði og með einhverjum hætti. Ég tel að það hljóti að verða eitt af verkefnum nýrrar ríkisstjórnar, þegar við losnum nú loksins við þessa sem verður væntanlega ekki síðar en að ári, að fara yfir þessi mál á nýjan leik. Ég held að þetta sé algert klúður sem hér er verið að gera.

Það er náttúrlega einboðið, ef tillagan um að styrkja hagsvið á vegum Alþingis fæst ekki samþykkt, að flytja það mál aftur að hausti. Ég heiti því að ég mun berjast fyrir því máli, ég segi nú kannski ekki beinlínis að Þjóðhagsstofnun yrði stofnuð aftur ef þeim tekst að eyðileggja hana, að koma á nýjan leik á einhverju skilvirku og sæmilega skynsamlegu kerfi hvað þetta varðar. Verði Þjóðhagsstofnun lögð niður með þessum hætti hallast ég að því að vænlegast væri að byggja þá starfsemi upp í skjóli Alþingis. Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að sennilega væri það vænlegasti kosturinn, að efla í skjóli Alþingis óháða spá-, greiningar- og ráðgjafarstofnun, það mundi tvímælalaust styrkja þingið og þingræðið. Það gæfi gefið því stóraukið sjálfstæði í sambandi við fjárlagavinnu og fjárlagagerð hverju sinni og mundi væntanlega nýtast ýmsum öðrum aðilum í þjóðfélaginu mjög vel að eiga stofnun af því tagi að. Hún þyrfti ekki að vera stór en skilvirk þyrfti hún að vera.

Ég held að reynslan af því, sem auðvitað er ekki að öllu leyti sambærilegt en má segja að sé hliðstætt, að flytja Ríkisendurskoðun undir Alþingi og stofna embætti umboðsmanns Alþingis sé góð. Það er enginn vafi á að þessar stofnanir hafa fest sig í sessi, njóta virðingar og eru tiltölulega lítið umdeildar vegna þess að menn skynja að þær eru nokkurn veginn í friði við að sinna störfum sínum. Ráðherrar eða fyrirferðarmiklir pólitíkusar hræra ekki með puttunum í þeim og skipa þeim fyrir verkum, a.m.k. eiga þeir ekki eins greiða leið að þeim og ella væri.

Þetta mál er því ekki búið, herra forseti. Dapurlegast finnst mér þetta auðvitað gagnvart starfsfólkinu. Ég segi eins og er, að það er ömurlegt að sjá staðið að verki eins og ríkisstjórnin gerir hér. Þetta er þvílíkur þjösnaskapur og svo mikil lítilsvirðing við starf þessa fólks og þá vinnu sem þarna hefur verið unnin. Þarna sér maður sama hugarfarið og Landssíminn er að æfa sig í norður á Akureyri þessa dagana, að hægt sé að koma fram við starfsfólkið hvernig sem mönnum sýnist, henda því frá sér eins og úr sér gengnum hlut, jafnvel fólki sem hefur gefið bróðurpart starfsævi sinnar eða hana alla og unnið af trúmennsku og alúð að störfum sínum. Svona er komið fram við það.

Þetta á náttúrlega ekki að líðast, herra forseti. Það á að taka í hnakkadrambið á svona mönnum og segja við þá: Svona gerir maður ekki. Þjóðin verður auðvitað að gera það ef ekki vill betur til því að hún á að hafa völdin í þessum efnum. Það er verst hve langt er í næstu kosningar, herra forseti. Ég vildi gjarnan að það yrði kosið til Alþingis núna eftir nokkrar vikur.

Ég held að það yrði mjög fróðlegt að sjá, þegar þeir reikningar yrðu lagðir á borðið, hvernig þeir höfðingjarnir færu t.d. út úr því núna, forsrh. og utanrrh. og flokkar þeirra, að kjósa ofan í þessi mál, ofan í aftökuna á Þjóðhagsstofnun, deCODE ríkisábyrgðina, sjávarútvegsbrotlendinguna og annað í þeim dúr. Menn monta sig af því að horfur séu betri í efnhagsmálunum og það er vissulega vel, að sumpart eru skárri horfur þar, a.m.k. í bili. Það kann að vísu að reynast óútséð hversu langvinnur sá bati er. Það eru líka mörg hættumerki við sjóndeildarhringinn og ýmsar stofnanir hafa auðvitað varað við því við litla hrifningu ráðamanna. En ég held að málin sem ríkisstjórnin hefur þjösnað inn í þingið hverju á fætur öðru á síðustu dögum og vikum, allt of seint fram komin auðvitað meira og minna öll sömul, væri gaman að leggja í dóm þjóðarinnar á næstu vikum.

Það stendur nú þannig á, herra forseti, að það mun vera 26. apríl í dag --- er það ekki? --- og vantar einn dag upp á að undirritaður hafi setið 19 ár á Alþingi. Ég var að hugsa um það áðan að ýmislegt hefur maður séð í gegnum tíðina, ýmiss konar málasúpu á borðum undir vor, en ég man varla eftir því að ríkisstjórn hafi afhjúpað sig með þvílíku sleifarlagi í vinnubrögðum eins og þessi gerir núna. Það er ekki bara eitt, ekki bara tvö og ekki bara þrjú heldur á milli 10 og 20 umdeild stórmál, vandasöm, sem ríkisstjórnin hendir inn á síðustu tveimur til þremur vikunum. Þetta er bara tvist og bast út um allt og ekkert skipulag og engar reiður á neinum hlut. Það á bara að þjösna þessu öllu áfram. Aftaka á Þjóðhagsstofnun í dag, 20 þús. milljóna ríkisábyrgð í gær, brotlending í sjávarútvegsmálunum í fyrradag og þeim finnst sjálfsagt að sulla bara öllu áfram, herra forseti.

Þetta gengur náttúrlega ekki og verður að gera það sem hægt er til að lágmarka skaðann, ef svo má að orði komast. Síðan bíður það auðvitað þjóðarinnar að gera upp við þessa herramenn og þeirra vinnubrögð í næstu kosningum. Það má auðvitað segja að það geti menn að nokkru leyti gert í sveitarstjórnarkosningunum. Víða eru þær að verða býsna pólitískar. Vissulega kann að gefast ágætt tækifæri til að refsa stjórnarflokkunum og veita þeim ráðningu í sveitarstjórnarkosningunum, að það verði forsmekkurinn að því sem koma skal í alþingiskosningum að ári. Þá þurfa báðir stjórnarflokkarnir að tapa hressilega fylgi, það er alveg ljóst. Eigi menn að eiga einhverja von um að slíta því hjónabandi, hagsmunahjónabandi sem augljóslega er og ástir allar kulnaðar, gerist það náttúrlega ekki nema stjórnarflokkarnir fái hressilega ráðningu, fyrst núna í sveitarstjórnarkosningunum og síðan í alþingiskosningum að ári.

Þá geta nýir menn komið að því að taka til hendinni og taka til. Það verður mikil vinna. Það verður gríðarleg vinna að taka til eftir þessa ríkisstjórn, það er alveg ljóst. Eitt af því sem þá þarf t.d. að skoða eru grundvallarmál, svo sem hvernig menn koma fyrir vinnu sem lýtur að þjóðhagslegum þáttum og að tryggja að til staðar séu áreiðanlegar og gagnsæjar og traustar upplýsingar í anda opins nútímasamfélags og stjórnarhátta sem menn vilja viðhalda. Það er alla vega ljóst að þetta frv. er ekki innlegg í þá átt heldur þvert á móti. Þess vegna ber að hafna því.