Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:25:42 (8334)

2002-04-29 11:25:42# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:25]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til þess að hv. þm. fari betur yfir það fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvaða grundvallarástæður þeir telja að þurfi að liggja fyrir ríkiseignum og spyr hvort þeir telji t.d. að framleiðsla á ýmiss konar byggingarefnum eigi að vera í höndum ríkisins. Hvaða framleiðsla þá? Ætti t.d. steypuefnaframleiðsla og annað slíkt að vera í höndum ríkisins? Hvar ætti ríkið svo sem að eiga þessi fyrirtæki?

Nú er frjáls innflutningur á einangrunarefnum. Er það ekki nægileg samkeppni við fyrirtæki sem er að framleiða og selja á þessum markaði? Af því að mér skilst að þessi umræða eigi að vera löng þá óska ég mjög eftir því að fá betur útskýrt hver heildarstefnan sé á bak við það að ríkið eigi að eiga einstök fyrirtæki af þessu tagi. Við þyrftum líka að átta okkur á því hvar á landinu og í hvaða fyrirtækjum ríkið ætti þá að kaupa eignarhluti.