Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:44:21 (8350)

2002-04-29 11:44:21# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að það eigi að selja ríkisfyrirtæki. Ég hef enga trú á að ríkisstarfsmenn þurfi til að framleiða steinull, eða yfirleitt í aðra verksmiðjuframleiðslu, og markaðssetja vöruna og selja.

Hins vegar er ég á móti 2. mgr. 1. gr. sem segir að það sé sveitarfélagsins með aðstoð ráðuneytisins að ráðstafa helmingnum af söluandvirðinu. Ég er á móti því vegna þess fordæmis sem það gefur. Ég sé fyrir mér að það eigi að selja Landssímann, Landsbankann, Búnaðarbankann og önnur fyrirtæki sem öll hafa höfuðstöðvar í Reykjavík. Þótt ég sé úr því kjördæmi þætti mér dálítið uggvænlegt ef 20 milljarðar af söluandvirði Landssímans ættu að renna til Reykjavíkur. Ég er bara mjög mikið á móti þessu fordæmi og ég mun greiða atkvæði gegn þeirri grein (Gripið fram í.), ég mun greiða atkvæði gegn seinni mgr. 1. gr. En ég er mjög hlynntur 1. mgr. (GAK: 54% í óperuhúsið, meðal annars.)