Fátækt á Íslandi

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:10:41 (8482)

2002-04-30 10:10:41# 127. lþ. 133.91 fundur 561#B fátækt á Íslandi# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:10]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Viðbrögð hæstv. forsrh. eru með ólíkindum og fullkomlega ámælisverð. Út af fyrir sig er það skiljanlegt að hæstv. forsrh. treysti sér ekki til að koma hér í ræðustól og tala til fátæks fólks og segja við það hvað hann ætli að gera til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það neyðarástand sem ríkir hjá mörgum fjölskyldum. Það eru fleiri sem sækja um matargjafir og fjárhagsaðstoð en nokkru sinni fyrr og fjöldi fólks, sennilega á bilinu 10--15 þúsund, sem nú þarf að leita til hjálparstofnana á ekki fyrir mat frá degi til dags fyrir sig eða börnin sín.

Ég held, herra forseti, að stjórnarskráin eigi að koma í veg fyrir slíkt og lög eiga að tryggja að fátækt fólk þurfi ekki að lifa við örbirgð en staðreyndin er sú að það gerir það og lifir við vaxandi fátækt í þjóðfélaginu. Ráðherrarnir hér á bekkjunum sitt hvorum megin við mig lesa bara pappíra og hafa ekkert við þetta fólk að segja, ekki neitt. Og forsrh., oddviti ríkisstjórnarinnar, sem á að vera í fararbroddi fyrir ráðherrunum um það að taka á þessu máli hefur ekkert að segja við fólkið.

Það sem þarf að gera er að endurskoða þetta öryggisnet velferðarkerfisins, t.d. í samráði við sveitarfélögin og verkalýðshreyfinguna og það þarf að fara þar yfir mörg svið, bæði að því er varðar fjárhagsaðstoðina, að því er varðar tryggingabæturnar og bótakerfið, að því er varðar skattkerfið. Hæstv. fjmrh. tekur 5--7 þús. kr. á mánuði af tryggingaþegum. Það þarf að fara yfir marga þætti, svo sem húsnæðismálin, greiðsluerfiðleikalán þannig að þetta snertir mörg ráðuneyti.

Það stendur upp úr, herra forseti, nú í lok þingsins að ráðherrarnir allir sem einn sitja hér þegjandi undir umræðu sem er kallað eftir að fari fram á þinginu um fátækt fólk og kjör þess og til hverra aðgerða Alþingi er reiðubúið að grípa. Það stendur upp úr núna í lok þingsins og er ráðherrunum til skammar, herra forseti.