Húsnæðismál

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:58:36 (8500)

2002-04-30 10:58:36# 127. lþ. 133.6 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, ArnbS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallar um að aflétt verði kaupskyldu og forkaupsrétti sveitarfélaga af íbúðum í félagslega íbúðakerfinu sem veitir þá eigendum félagslegs íbúðarhúsnæðis rétt á að selja það húsnæði á almennum markaði. Auk þess halda þeir rétti sínum sem þess óska að sveitarfélagið innleysi íbúðir eftir eldri leiðum.

Einnig fjallar frv. um að létta fjárhagslega byrði þeirra sveitarfélaga sem hafa borið hvað mestar byrðar af félagslega íbúðakerfinu. Það er einnig mjög eðlilegt að þau sveitarfélög sem hafa hlotið mest úr þessu kerfi, sem í heild sinni hefur verið með þeim hætti að til þess hafa runnið í mjög miklum mæli fjárhæðir í gegnum niðurgreidda vexti, greiði inn í það núna þegar verið er að reyna að loka kerfinu og létta þær byrðar sem svo sannarlega hafa lent á mörgum sveitarfélögum úti um allt land. Það er óvíst hvernig þau hefðu annars getað komist út úr þessu. Því segi ég já við þessu frv. Með því er verið að létta byrðar einstaklinga og sveitarfélaga.