Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:58:56 (8546)

2002-04-30 12:58:56# 127. lþ. 134.29 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, Frsm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:58]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti landbn. á þskj. 1382 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson, Ólaf Friðriksson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti, Helga Jóhannesson, Kjartan Ólafsson og Hauk Sigurðsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Kristján Bragason frá Starfsgreinasambandinu, Sigurgeir Þorgeirsson og Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Elínu Björgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum og Georg Ottósson frá Sölufélagi garðyrkjumanna.

Helstu markmiðin með frumvarpinu eru að lækka verð til neytenda á innfluttum og innlendum garð- og gróðurhúsaafurðum, auka hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar grænmetisframleiðslu, að treysta tekjugrundvöll grænmetisframleiðenda og að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu þegar hún er nægjanleg að magni og gæðum.

Grænmetisverð á Íslandi hefur verið mjög hátt undanfarin missiri og hafa stjórnvöld leitað leiða til að lækka verð til neytenda eins og kostur er, jafnframt því að reyna að treysta grundvöll innlendrar framleiðslu eftir því sem kostur er. Þegar hefur verið gripið til afnáms verðtolls af útiræktuðu grænmeti, sveppum og kartöflum og sveigjanleiki í álagningu magntolls á tilteknar tegundir innflutts grænmetis aukinn. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að teknar verði upp beingreiðslur til framleiðenda til að styrkja stöðu þeirra gagnvart innflutningi og gera þeim þannig kleift að lækka verð á framleiðsluvörunni neytendum til hagsbóta. Gert er ráð fyrir því að til þess verði varið tiltekinni fjárhæð á ári sem skiptist niður á framleitt magn ársins.

Landbúnaðarnefnd fagnar viðleitni stjórnvalda til að tryggja íslenskum neytendum nægilegt framboð af innlendu grænmeti á viðráðanlegu verði en lækkun grænmetisverðs til neytenda hefur jafnframt jákvæð áhrif á verðlagsþróun í landinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að allir í keðjunni frá framleiðendum til neytenda þyrftu að vinna saman til að lækka verðið.

Þess vegna kom það í rauninni nefndinni óþægilega á óvart þegar Sölufélag garðyrkjumanna ákvað að vera með kílógjald á vörunni í stað þess, eins og það hefur verið reiknað áður, að hafa það í prósentum og olli þetta töluverðu uppnámi.

Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Í fyrsta lagi eru lagðar til lagfæringar á tilvísunum í aðrar greinar laganna sem leiðir af nýjum kafla. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða. Í öðru lagi leggur nefndin til breytingar á 2. mgr. d-liðar 2. gr. þannig að aðeins vísvitandi röng skýrslugjöf leiði til þess að framleiðendum verði gert að greiða álag á ofgreiddar beingreiðslur.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 2. gr.

a. Inngangsmálsgrein orðist svo:

Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, XI. kafli, Um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða 2002--2011, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla og greina og millivísanir samkvæmt því:

b. Á eftir orðinu ,,grundvelli`` í 2. mgr. d-liðar komi: vísvitandi.

Sigríður Jóhannesdóttir og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Karl V. Matthíasson og Þuríður Backman rita undir álitið með fyrirvara. Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.

Undir þetta nefndarálit rita Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson, Karl V. Matthíasson, með fyrirvara, Einar Oddur Kristjánsson, Þuríður Backman, með fyrirvara, Sigríður Ingvarsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.