Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:57:33 (8555)

2002-04-30 13:57:33# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. að þetta frv. í sjálfu sér ákveði sölu fyrirtækisins. Frv. sem hér er fjallað um fjallar fyrst og fremst um að veita heimild til ákveðinna aðgerða en ekki til þess að gera hlutina. Það er því í fyrsta lagi rangt. Hv. þm. hefði átt að kanna fyrirvarana mun betur áður en hann afgreiddi málið út úr iðnn., m.a. afstöðu Samkeppnisstofnunar. Að því hefði hv. þm. átt að huga.

Þetta fyrirtæki hefur skipt miklu máli í atvinnulífi Skagfirðinga á undanförnum árum og gerir það vonandi áfram. Við erum hér ekki að fjalla um meirihlutaákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem hefur ákveðið að selja hlut sinn. Við erum hér að fjalla um ákvörðun ríkisins, þ.e. hvort ríkið eigi að selja sinn hlut. Á þessu er munur, virðulegi forseti. Hv. formaður iðnn. getur metið þetta öðruvísi. Framsóknarmaðurinn Hjálmar Árnason hefur lýst því hér að það sé betra fyrir Skagafjörð að þetta verði selt með þessum hætti, að það sé mjög gott fyrir Skagafjörð ef svo verður. Við erum þá bara ósammála um að þetta sé góður gjörningur fyrir Skagfirðinga. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið sterkara fyrir stöðu fyrirtækisins ef ríkið hefði áfram verið kjölfestufjárfestir í fyrirtækinu. Það er mín skoðun.