Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:09:25 (8563)

2002-04-30 14:09:25# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er leiðinlegt hvernig hv. þm. skýtur sig í fótinn, hér er hann annars vegar að fjalla um að ríkið leggi 20 milljarða kr. í eitt fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og er síðan á hinn bóginn að telja það eftir þó að ríkið eigi 100--200 millj. kr. í litlu fyrirtæki úti á landi. Rausnarskapurinn í stjórnarformanni Byggðastofnunar er alveg með endemum.

Hins vegar get ég upplýst hv. þm. um hver arðsemi þessa fyrirtækis á undanförnum árum hefur verið. Árið 1997 er arðsemi eigin fjár 30%, 1998 27%, 1999 24%, 2000 er hún 20% og 2001 15%. Veit hv. þm. hvers vegna m.a. arðsemin er að lækka? Ég get frætt hann um að ein ástæðan er verulega hækkandi flutningskostnaður við að koma vörunni á markað og á aðföngum, og það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í landsbyggðarmálum.