Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:06:33 (8572)

2002-04-30 15:06:33# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo að ég sé alveg kristalklár á afstöðu hv. þm. --- hann er að segja að hann sé á móti því að nota þetta tækifæri sem núna gefst til að fara með þessa peninga norður í Skagafjörð. Hann greiddi sem sagt atkvæði gegn því að fara með þessa peninga norður í Skagafjörð vegna þess að hann vill sjá þá nýtast yfir allt landið. Er þetta afstaðan? (Gripið fram í.) Peningarnir eru komnir í ríkissjóð. Þegar salan liggur fyrir koma peningarnir í ríkissjóð og ég vil bara að það liggi alveg kristalklárt fyrir hvort það er réttur skilningur hjá mér að hv. þm. sem hér talaði, Steingrímur J. Sigfússon, vilji af prinsippástæðum ekki að króna af söluandvirðinu fari norður í Skagafjörð umfram það sem mundi koma með almennum útdeilingum á fjárlögum.