Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 18:21:54 (8595)

2002-04-30 18:21:54# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[18:21]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú erum við eina ferðina enn á hinu háa Alþingi að ræða fiskveiðimál, sjávarútvegsmálin. Hér er verið að leggja fram frv. til laga sem ég held að sumir álíti að sé hinn mikli salómonsdómur í þessum málum og nú sé öllu reddað. Því miður er ég á þeirri skoðun að svo sé ekki, herra forseti, og að umræðan um sjávarútvegsmál og þessi lög sem verið er að koma í gegnum þingið muni fljótt taka breytingum.

Ég er líka á þeirri skoðun, herra forseti, að menn hljóti sífellt að ræða um þessi mál og velta þeim fyrir sér, ekki síst þegar lögin eru þannig úr garði gerð í sambandi við úthlutanir á fiskveiðiheimildum að æ fleiri telja sig hafa verið hlunnfarna í úthlutun á veiðiheimildum. Þetta er það sem við heyrum sífellt.

Í ágætri ræðu sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir flutti áðan um þessi mál kom fram að sérstakir aukakvótar og úthlutunarheimildir sjútvrh. eru upp á 6--7 milljarða kr., úthlutanir Byggðastofnunar reyndar þar með taldar. Nú er gert ráð fyrir með þessum lögum, herra forseti, að 1.500 tonnum af þorskígildum verði bætt við byggðakvótann sem er 1.500 tonn fyrir. Þetta undirstrikar þá skoðun mína og margra annarra að það kerfi sem er við lýði í dag beri í sér byggðaeyðingu. Megum við búast við því, herra forseti, að eftir eitt ár komi kannski fram frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, um að enn fremur þurfi að auka þennan byggðakvóta? Þróunin er a.m.k. sú og hefur verið að sífellt er verið að taka heimildir úr stóra kerfinu sem hefur verið úthlutað, upphaflega samkvæmt aflareynslu, og skapa einhvers konar björgunarkvóta.

Um daginn, herra forseti, var verið að úthluta ráðherrakvóta á grundvelli laga um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um að ráðherra sé heimilt að úthluta kvóta á smábáta í steinbít og ýsu þar sem byggðir hafa reitt sig á og lifað af veiðum smábáta í þorskaflahámarkinu og höfðu frelsi í ýsu, ufsa og steinbít. Nú er verið að bregðast við afnámi ýsu-, ufsa- og steinbítsfrelsisins og kvótasetningunni af því að ljóst er að sú skerðing sem þá varð hafði mikil áhrif á byggðir og byggðarlög sem höfðu mikla vinnu vegna þessara veiða. Þegar verið var að kvótasetja smábátana sem tók langan tíma. Eftir miklar deilur og baráttu sáu menn sig knúna til að koma með þessi ákvæði um ráðherrakvótann. Okkur bárust sem sagt niðurstöðurnar um þessa úthlutun, herra forseti, fyrir fáeinum dögum. Fréttatilkynning kom frá Fiskistofu um þessi mál, um kvótaúthlutun til krókaaflamarksbáta til að efla sjávarbyggðir sem að verulegu leyti eru háðar veiðum þeirra. Með leyfi forseta hljóðar þessi fréttatilkynning svo:

,,Við upphaf þessa fiskveiðiárs, sem hófst 1. september 2001, komu til framkvæmda ákvæði laga [nr. 1/1999] um nýja skipan veiða krókabáta. Við það féll niður heimild þorskaflahámarksbáta til frjálsra veiða á ýsu, ufsa og steinbít. Ljóst var að þetta gerði þeim sjávarbyggðum erfitt fyrir sem háðastar eru veiðum smábáta. Til að koma til móts við þessar byggðir voru samþykkt á Alþingi 20. desember síðastliðinn lög er heimila sjávarútvegsráðherra að úthluta allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 3.000 lestum af ufsa til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum slíkra báta.

Við ákvörðun á því hvaða staðir koma til greina eru tvær forsendur lagðar til grundvallar og þurfa byggðarlögin að uppfylla þær báðar. Í fyrsta lagi er reiknað hversu hátt hlutfall úthlutað aflamark krókaaflamarksbáta á fiskveiðiárinu 2001/2002 er af heildarúthlutun allra skipa á viðkomandi stað í þorskígildum talið. Þeir staðir þar sem hlutfallið er 15% eða hærra koma til greina við úthlutunina.``

Þetta var það fyrsta.

[18:30]

Annað, herra forseti, segir enn fremur í þessari fréttatilkynningu:

,,Í öðru lagi er reiknað hversu hátt hlutfall afli krókaaflamarksbáta á fiskveiðiárinu 2000/2001 er af heildarfiskafla allra skipa sem skráð voru á viðkomandi stað. Þeir staðir þar sem hlutfallið er 15% eða hærra koma til greina við úthlutunina. Þá var ákveðið að úthlutað magn til einstakra byggðarlaga skuli miðast við að ekkert byggðarlag hefði úthlutað aflamark í ýsu, steinbít og ufsa, að viðbættum þorskafla á síðasta fiskveiðiári, sem næmi lægra hlutfalli en 89,4% af heildarafla síðasta fiskveiðiárs. Þó með þeim takmörkunum að ekkert byggðarlag fær hærri úthlutun en 400 þorskígildistonn.

Sömu aðferð var síðan beitt þegar úthlutað var á einstaka báta innan hvers byggðarlags, að hámarki 50 þorskígildistonn á bát.``

Alls munu því 11 byggðarlög fá úthlutun samkvæmt ofangreindum skilyrðum og skiptast þau í þorskígildum þannig:

Tálknafjörður 400 tonn, Bolungarvík 400 tonn, Flateyri 399 tonn, Ólafsvík 173 tonn, Drangsnes 104 tonn, Ísafjörður 102 tonn, Stöðvarfjörður 50 tonn, Sandgerði 36 tonn, Suðureyri 19 tonn, Bakkafjörður 13 tonn, Breiðdalsvík 6 tonn.

Þannig hljóðaði þessi fréttatilkynning eða hluti úr henni þar sem gerð er grein fyrir hvaða regla var notuð. Ég ætla ekki að lesa upp, herra forseti, hvaða bátar fengu úthlutun en það er þó nokkuð merkilegt í þessu máli, herra forseti, að hér er í raun og veru um byggðakvóta að ræða. Verið var að úthluta til byggða sem voru háðar veiðum smábáta. Þær byggðir sem eru hér taldar upp eru þær byggðir sem hafa orðið fyrir niðurbroti vegna þess kvótakerfis sem nú er við lýði eins og hv. 4. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, nefndi réttilega áðan.

Fyrst þetta er byggðakvóti, herra forseti, hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna þessu er úthlutað á þann hátt sem reyndin hefur orðið. Sumir bátar á þessum svæðum hafa fengið töluvert mikinn afla meðan aðrir fengu ekki neitt. Var þetta ekki byggðakvóti til staðanna?

Sumir hafa haldið því fram, og það kom greinilega fram í allri umræðunni í samfélaginu þegar verið var að útbúa þetta mix allt saman, að nokkrir hefðu stofnað til útgerða þegar frelsið var í ýsunni og steinbítnum. Þeir höfðu lítið þorskaflahámark en þeir gerðu út á að það var möguleiki á að veiða ýsu. Þegar það var síðan skert blasti við að það hefði orðið gjaldþrot hjá mörgum útgerðum sem voru í þessari stöðu. Það kemur líka þannig út að flestar þessar útgerðir, herra forseti, eru á þeim stöðum sem nefndir voru áðan. Sérstaklega nefni ég Bolungarvík og Flateyri eins og fram hefur komið í þessari umræðu.

Ég gleðst, herra forseti, ef þetta verður til þess að koma í veg fyrir að kvótakerfið með öllum sínum afleiðingum knésetji fjölskyldufólk sem hefur skuldsett sig, er duglegt og vildi koma á stofn útgerð.

Ég veit að margir eru glaðir sem fengu þessa úthlutun og þeir sjá sjálfum sér borgið. En ég spyr, herra forseti: Hvað um þá aðila sem stofnuðu til útgerða á sömu forsendum og þessir aðilar og veiddu jafnvel á nákvæmlega sömu miðum en búa ekki á sömu stöðum? Við þeim blasir aðeins eitt: Það er gjaldþrot. Þeir voru óheppnir að hafa ekki skráð bátana sína á rétta staði því að mér er kunnugt um það, herra forseti, að bátar sem ekki hafa gert út frá þessum stöðum hafa fengið úthlutun vegna þess að þeir voru skráðir á stöðunum. Þá er ekki lengur um byggðakvóta að ræða heldur bátakvóta. Fyrst þar er orðið um bátakvóta að ræða sem fellur undir þær reglur sem nefndar voru áðan vaknar enn fremur spurningin: Hvers eiga hinir að gjalda?

Það hlýtur alltaf að vera erfitt að úthluta með þessum hætti. Það er alveg deginum ljósara, herra forseti, að þessi úthlutun og þessi aðferð til kvótaúthlutunar til krókaaflamarksbáta til að efla sjávarbyggðir sem voru háðar þessum veiðum hefur orðið til þess að skapa deilur og úlfúð innan byggðanna. Það er algjörlega ljóst. Forsenda þess að byggðir geti þrifist er auðvitað að þar sé friður og að fólkið sem býr í samfélaginu og þessum litlu byggðarlögum upplifi ekki að stjórnvöld séu sífellt að mismuna þegnunum. Það er mjög leitt til þess að vita þegar margir eru farnir að álíta sem svo að jafnvel sé um pólitíska útreikninga og úthlutanir að ræða. Svona er þetta, því miður.

Ekkert hefur verið hlustað á góðar tillögur sem hafa komið fram í þessum málum, t.d. þegar ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lögðum fram brtt. um veiðar smábáta, um frelsi í ýsunni og steinbítnum en með ákveðnum takmörkunum. Það hefði tryggt jafnræði sem ekki er tryggt með þessu. Þetta er eitt dæmið. Það sem fyndnast er, eða öllu heldur sorglegast, er náttúrlega að þess sér hvergi stað að þeir sem fá þessa úthlutun á trillurnar, þessa byggðaúthlutun, megi ekki leigja hana frá sér til annarra byggðarlaga en þeirra sem fengu hana. Tökum t.d. bát sem er frá Tálknafirði og fær úthlutun af því að hann er bátur á Tálknafirði. Hann má leigja þennan byggðakvóta frá sér. Það er það sem er nokkuð skondið í þessu. Þessar heimildir eru afhentar skilyrðislaust og það er ekki sagt við þá sem fá þessa úthlutun, t.d. þá sem fá þessa úthlutun í Bolungarvík, Tálknafirði, Flateyri eða Ólafsvík: Þið skuluð gera svo vel og landa þessum afla á þessum stöðum. Þetta er byggðakvóti og þið fenguð hann vegna þess. Nei, þeim er bara leyft að veiða þetta frjálst og þeim er líka leyft að leigja þennan kvóta frá sér til annarra byggðarlaga sem ekki hafa fallið undir útreikninga og spekúlasjónir sem ég las áðan úr fréttatilkynningunni um kvótaúthlutunina. Herra forseti. Þetta er eitt dæmið. Við getum hugsað okkur það.

Á laugardögum eru seldir lottómiðar, fólk velur sér tölur og vonar að þær séu réttar. Þannig er fiskveiðistjórnarkerfið farið að virka. Þetta er orðið nokkurs konar lottó. Þeir sem eru með báta og útgerðir bíða eftir því hvort þeir fái nokkurs konar lottóvinning eftir því hvernig reglugerðir hæstv. sjútvrh. framleiðir. Það er það sem margir menn upplifa í beitningaskúrunum fyrir vestan svo ég taki það dæmi, allt í einu kemur tilkynning um það hverjir fengu úthlutun. Einn er að beita í skúr nr. 10, annar í skúr nr. 11. Skúrarnir eru eins og fólkið eru að hugsa svipað. Allt í einu kemur tilkynning til þess sem er í skúr nr. 11: ,,Þú hefur fengið 50 tonn,`` eða: ,,Þú hefur fengið 20 tonn eða 30 tonn.`` Hinn fær ekki neitt, engan byggðakvóta, engan kvóta á bátinn sem hann á, þó að hann geri út frá sömu byggð og sé að reyna að landa fiski í þessari byggð til að lifa þar með fjölskyldu sína og til að aðrir hafi af því atvinnu. Þannig er þetta.

Það er eins með byggðakvóta Byggðastofnunar. Þetta er hálfgert lottókerfi þar sem vinningurinn, potturinn, fer alltaf hækkandi. Það verða alltaf fleiri og fleiri milljarðar í pottinum, herra forseti. Byggðakvótapotturinn verður alltaf stærri og stærri og er að verða nokkurs konar lukkupottur fyrir suma. Það er dapurlegt þegar menn upplifa að það er ekki jafnræði. Fólk veit að þegar það kaupir sér miða í lottóinu getur það unnið eða ekki. Smábátarnir í fiskveiðistjórnarkerfinu upplifa hins vegar núna að þeir búi við ranglæti vegna þess að þessar reglur eru ekki jafnræðisreglur. Eins og ég segi, herra forseti, það er náttúrlega með ólíkindum að héðan úr sölunum skuli koma tilkynning frá hæstv. sjútvrh. um að þessir og hinir bátar hafi fengið byggðakvóta sem þeir geta síðan framselt úr byggðunum. Fleiri tuga millj. verðmæti, miklu hærri en síðasti potturinn í lottóinu var. Þetta er átakanlegt (Gripið fram í: 80 millj.) og var hann þó 80 millj. Það er bara leigan fyrir þús. tonn af þorski. (Gripið fram í: Smábátarnir.) Í smábátakerfinu.

[18:45]

Tálknafjörður, Bolungarvík, Flateyri, Ólafsvík, Drangsnes, Ísafjörður, Stöðvarfjörður, Sandgerði, Suðureyri, Bakka\-fjörður, Breiðdalsvík. Þetta eru staðirnir. Hvaða staðir verða lesnir upp eftir tvö ár? Vitum við það? Ætli þeim hafi fækkað af því að þetta muni hafa lagað kerfið svona mikið?

Ég læt hér staðar numið en segi að lokum, herra forseti, að þessi úthlutun á smábátana, byggðakvótaúthlutun til smábátanna, er eitt almesta hneyksli sem maður hefur orðið vitni að. Það er verið að hugsa um báta á þessum stöðum. Við vitum að það bjó á bak við alla þessa umræðu. Menn sáu að þarna voru útgerðir sem mundu fyrirsjáanlega fara beint á hausinn. Það er leitt að hvorki sjútvrh. né nokkrir aðrir úr stjórnarliðinu skuli vera hér til að svara fyrir þetta. En ég er alveg sannfærður ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa hv. þm. um að hæstv. sjútvrh. er í húsinu og fylgist með umræðunum.)

Ég gleðst yfir því og þakka upplýsingarnar. En það sem ég er að segja, herra forseti, er að það er ótrúlegt að byggðakvóti fyrir trillur og smábáta skuli vera með þessum hætti, að hægt sé að leigja hann frá sér. Það er alveg hreint magnað.

Það er fræðilegur möguleiki á að allur sá kvóti sem var úthlutað var í þessu kerfi verði leigður frá þessum stöðum og ekki eitt einasta gramm af þessum byggðakvóta komi til þessara staða. (GE: Það getur verið hagkvæmast fyrir einstaklingana.) Það er rétt sem hv. þm. Gísli Einarsson segir, það getur verið hagkvæmast fyrir einstaklingana sem fengu kvótann. Þeir gætu hugsað sem svo að þeir muni með því bjarga sinni útgerð sem er kannski illa sett vegna þess hvernig þessi lög eru og hvernig þessi lög virka. (GE: Einmitt.)

Hinn flöturinn, sem ég nefndi áðan, er að hugsunin sem m.a. fólst í þessu var að koma til móts við útgerðir. Þó að það standi ekki hér veit ég að það var mjög sterklega í umræðunni. Þess vegna hljóta þeir sem búa á öðrum stöðum og stofnuðu til útgerða með svipuðum hætti og hinir, út á ýsufrelsið, út á steinbítsfrelsið, að hugsa sitt: Hvar er réttlætið í þessu?

Þetta, herra forseti, er eitt dæmið í lögum um stjórn fiskveiða sem er hluti af því sem við getum kallað sáttafrv. Það logaði allt í samfélaginu fyrir 3--4 árum, fyrir síðustu kosningar, þar sem menn töluðu endalaust um hvernig kerfið virkaði, hvernig kerfið væri farið að spilla, menn væru í útgerð, ekki vegna þess að þeir nytu þess að leggja net til fiskjar eða fara á línu eða troll, (Gripið fram í.) alls ekki, heldur voru menn farnir að gera út á að leigja öðrum kvóta. Menn voru farir að missa áhugann á útgerðinni sjálfri útgerðarinnar vegna heldur voru þeir í útgerð vegna peninganna.

Það voru væntingar, herra forseti, hjá mörgum í samfélaginu, þegar menn sáu hvernig fiskveiðistjórnarkerfið virkaði og að það var farið að skapa illindi, farið að eyða byggðum og allt hvað eina, um að þessi sáttatillaga og sáttanefnd sem skipuð var sérstaklega, sem var eitt af kosningaloforðunum, mundi breyta umhverfinu í þessu samfélagi, sjávarbyggðunum, sjómönnum og útgerðum í vil. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er veiðigjald, herra forseti. (Gripið fram í.) Eru það einhverjar sættir? Veiðigjaldið eins og það kemur fram hér er í raun gjald sem lagt er á útgerðina þegar búið er að taka af skatta og allt annað. Það breytir í sjálfu sér engu um hvernig kerfið er uppbyggt. Það breytir engu um úthlutunarkerfið í dag. Það breytir t.d. ekki því að sá möguleiki er fyrir hendi, mér sýnist jafnvel stefna í það, að t.d. þeir sem hafa verið á netum á Suðurnesjunum ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann hyggist ljúka ræðu sinni innan 5--7 mínútna. Að öðrum kosti mætti hann gera hlé á ræðu sinni þegar vel stendur á.)

Herra forseti. Hlé væri ágætt. Ég geri þá hlé á ræðu minni.