Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 19:30:00 (8596)

2002-04-30 19:30:00# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[19:30]

Karl V. Matthíasson (frh.):

Herra forseti. Það sem ég vildi helst beina sjónum manna að í þessari umræðu um stjórn fiskveiða var úthlutun byggðakvóta til smábáta fyrir fáeinum dögum. Ég var að lýsa undrun minni á því, fyrst að þetta er byggðakvóti, að þeir sem fengu þessa úthlutun hafa fullt frelsi til þess að leigja kvótann frá sér, frá þeirri byggð sem í raun fær þennan kvóta og frá vinnslunni á staðnum, sem þó er ástæðan fyrir þessari úthlutun. Einnig benti ég á, herra forseti, að í umræðunni um þessi ákvæði og reglur væri greinilega tekið tillit til báta og útgerða sem hafði verið stofnað til vegna ýsufrelsis og ufsafrelsisins, ef svo má að orði komast. En þegar það var afnumið var ljóst að fjöldi þessara útgerða mundi ekki geta spjarað sig og þetta er einn liðurinn í því.

Ég tel ágætt, herra forseti, að komið sé í veg fyrir að þetta sé gert til að hindra það að menn fari hreinlega á hausinn. Síðan eru aðrir ekki það heppnir að búa á þessum stöðum en hafa á sama hátt stofnað til útgerðar, þeir munu jafnvel snýta rauðu.

Þá hef ég einnig minnst á það í þessari umræðu, herra forseti, að það frv. sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi er að minni hyggju afleiðing kosningaloforðs sem gefið var fyrir síðustu alþingiskosningar þar sem talað var um að setja yrði sáttanefnd í sjávarútvegsmálin. Það var mikið ósætti í þeim og umræðan mjög á þá lund og var mikil ólga í samfélaginu út af því hvernig fiskveiðistjórnarkerfið virkaði, ekki einungis vegna tilflutnings og gífurlegra fjármuna sem allt í einu voru farnir að myndast í sölu- og leigukerfi, ekki vegna veiðanna sjálfra heldur vegna sölu og leigu á veiðiheimildum. Þetta skapaði ólgu í samfélaginu og fólk fór að hugsa mikið um hvernig eðlilegt væri að úthluta þessari takmörkuðu auðlind sem þjóðin á. Áður en sáttanefndin gat lokið störfum var náttúrlega ljóst að eitthvað varð að gera því að kvótakerfið hafði unnið sitt verk og ýmis byggðarlög voru hreinlega gjörsamlega rúin öllum heimildum til að veiða fisk.

Fólkið sem þar bjó var án allra heimilda til fiskveiða þó að það hefði fulla getu, áhuga og löngun. En það var búið að selja kvótann burt og því kom hinn svokallaði byggðakvóti, 1.500 tonn. Nú er verið að bæta 1.500 tonnum við í viðbót, 2.000 tonn í trillukvótanum. Hvar endar þetta, herra forseti? Byggðapotturinn hækkar og ég spyr: Úthlutunin er á höndum Byggðstofnunar og sjútvrh., verða svo fleiri aðilar sem koma inn í til að úthluta þessum kvótum? Hafrannsóknastofnun er jafnvel nefnd í þessu tilliti. Það er líka verið að tala um heimildir til að veiða 500 tonn af þorski vegna þorskeldis.

Ég stóð að tillögu um rannsóknir á þorskeldi sem ég lagði fram ásamt samflokksmönnum mínum í Samfylkingunni og var hún lögð fram fyrir tveimur árum. Ég held að það sé tími til kominn að sú þáltill. fái veglega og góða afgreiðslu og töluverður peningur verði lagður í þetta af hálfu samfélagsins. Ég held að það væri ágætt að nota þetta veiðigjald sem þarna á að leggja á í því skyni, þó að ég sé í sjálfu sér andvígur þessari veiðigjaldsaðferð. Með henni er verið að færa pening úr einum vasanum yfir í annan en engin breyting er gerð á kerfinu. Það er ekki verið að gera neina eðlisbreytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Í brtt. sjútvn. kemur fram að þeir sjái sér ekki fært að samþykkja tillögu hæstv. sjútvrh. þar sem gert er ráð fyrir að hámarksaflahlutdeild í hinum ýmsu stofnum sé sú sem frv. kveður á um. Nefndin kemur með tillögu um að lækka hana, meiri hluti sjútvn., enda er það ekki nema von þegar við lesum frv. hæstv. sjútvrh. þar sem gert er ráð fyrir að ein útgerð geti jafnvel eignast allt að helming fiskstofns í hafinu í kringum Ísland. Ég skil bara ekki þessa hugsun. Það er alveg ótrúlegt að þetta skuli koma svona fram, að gert sé ráð fyrir því að einstaka útgerðir geti eignast helminginn í ýsustofninum, helming í ufsastofni og helming í karfa- og grálúðustofninum. Er þetta ekki algerlega með ólíkindum, herra forseti? Sem betur fer hefur meiri hluti sjútvn. séð að þetta gengur alls ekki upp og kemur með brtt. á þessu þó svo ég ætti svo sem ekkert að ræða mikið einstök mál og hvernig ríkisstjórnarflokkarnir vilja hafa þetta.

Hins vegar er alveg ljóst að eins og þetta er, eins og þetta kemur fram, við höfum séð að ár eftir ár er komið með nýjar bætur á þetta fat. Í raun og veru, ef við líkjum fiskveiðistjórnarkerfinu okkar við flík sem einu sinni var ný, er það orðið þannig, herra forseti, að það sést vart neitt af hinni upprunalegu flík. Þetta er allt stagað, bætt og aumt. (GE: Og slitið út úr á hnjám og rassi.) Þetta segi ég vegna þess að ég hef séð hvaða afleiðingar þetta kerfi hefur haft fyrir byggðirnar, fyrir margar útgerðir og fleiri fyrirtæki sem atvinnu hafa af þeim útvegi eða þeim greinum sem tengjast sjávarútvegi.

Ég er feginn því, herra forseti, að 1. gr. skuli ekki breytt nema þá ákvæðinu um Hafrannsóknastofnun. Ég er feginn því að ekki hafi verið gerð tilraun til að taka út ákvæði 1. gr. þar sem kveðið er á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ég tel það mjög mikilvægt ákvæði og tel líka mjög gott að það skuli undirstrikað að þjóðin á fiskstofnana í hafinu í kringum landið. Þjóðin felur hinu háa Alþingi, alþingismönnum, að koma með lög og reglur sem eru samfélaginu til góðs.

Það er samfélaginu til góðs að deila út þessari sameign af réttlæti. Hér gafst gott tækifæri fyrir hæstv. sjútvrh. og hið háa Alþingi að setja reglur um að með kvóta sem úthlutað er svona, byggðakvóta, trillukvóta og aðrir kvótar, yrði farið samkvæmt svokallaðri uppboðsaðferð. Það mætti hafa uppboð á þeim, gera tilraunir með það og sjá hvernig það virkar. En það er alls ekki gert. Ég trúi því ekki, herra forseti, að það sé vegna ótta manna við hinn frjálsa markað, þeir óttist eðlileg og frjáls viðskipti en aðhyllist frekar þá skoðun að stýfa eigi allt úr hnefa og sameign þjóðarinnar eigi alltaf að úthluta hinum og þessum. Ég held ekki að sú hugsun sé þar á bak við. Það er verið að vernda einhverja hagsmuni sem menn telja betra að gæta heldur en fara út í það að leyfa uppboð.

Tökum byggðakvótann sem dæmi. Það er hægt að úthluta honum á ákveðnar byggðir en hvernig á að úthluta honum innan byggðanna? Er ekki eðlilegt, herra forseti, að það sé bara gert með einföldu uppboði, að útgerðir á þeim stöðum bjóði í, veiði og komi svo með fiskinn að landi? Eða halda menn að útgerðarmenn á Íslandi séu svo aumir og slappir að þeir geti ekki tekið þátt í þessu? Mér sýnist annað vera uppi á teningnum því nú þegar greiða útgerðir hundruð millj. fyrir að veiða fisk. En þeir greiða þá peninga ekki til samfélagsins heldur í vasa þeirra útgerða sem hafa fengið úthlutað kvóta. Ég tel það vera óeðlilegt. Ég teldi eðlilegra, herra forseti, að veiðiheimildirnar færu á almennan markað og útgerðarmönnum væri gefinn kostur á að keppa um þær á jafnréttisgrundvelli og andvirði þeirra rynni í sjóði samfélagsins til að renna stoðum undir byggðirnar. Það má nota þá fjármuni til að styrkja byggðirnar, efla þar sprotafyrirtækin og nýsköpun í sjávarútvegi, t.d. kræklingarækt sem ég tel mikla möguleika felast í. En því miður, finnst mér, er ekki nógu góður gaumur að því gefinn.

Herra forseti. Það er hægt að tala mikið um þessi mál, sjávarútvegsmálin. Sjávarútvegurinn er einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. (GE: Það er rétt að gera það.) Það er rétt að gera það. Það verður að ríkja sátt um þetta.

Ég heyri menn í öllum flokkum, herra forseti, ekki bara stjórnarandstöðuflokkunum, lýsa óánægju sinni með kerfið sem við búum við í dag og álíta ekki að frv. sem núna liggur fyrir þinginu sé einhvers konar sáttafrv. (GE: Menn segja sig úr stjórnmálaflokkunum.) Það er ekki þannig því miður, enda kom það í ljós á landsfundi Sjálfstfl., herra forseti, að 20% þeirra sem greiddu atkvæði í sambandi við sjávarútvegsmálin aðhyllast fyrningarleiðina. Ég tel það nokkuð mikið. Ég er á þeirri skoðun að sú leið muni verða farin fyrr en síðar. Ég er líka á þeirri skoðun, herra forseti, að þeir útgerðarmenn sem eru duglegir og standa sig muni halda áfram starfi sínu. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvernig kerfið er ef það er byggt upp á sanngirni og réttlæti. Við slíkar kringumstæður munu duglegir menn geta spjarað sig. Það er mín skoðun. Ég tel að sjávarútvegurinn muni þá skila meiri peningum inn til samfélagsins.

Því hefur verið haldið fram að mikill peningur, mikil auðæfi, hafi farið út úr þessari grein á undanförnum árum. Það er ekki gott. Því var spáð af mörgum, þegar kvótakerfið var farið að virka eins og það gerði verst --- eins og ég leyfi mér að segja, að það mundi brátt líða að því að útgerðin færi að skila það miklum hagnaði að hún borgaði skatta. En hvað hefur komið á daginn? Því miður er það ekki svoleiðis. Fjármunirnir hafa bara farið út úr greininni, jafnvel út fyrir landsteinana. Þegar menn eru að taka peninga úr íslenskum sjóðum eða úr Seðlabankanum, kaupa dollara, þá er það til þess eins að fella gengið. Þá er þetta kerfi farið að vinna á móti sér.

Að lokum. Síðasti gerningur í sambandi við kvótaúthlutunina til smábáta og til byggða sem átti afkomu sína undir smábátum er eitt besta dæmið um hversu undarlegt kvótakerfið á Íslandi er. Það er líka enn eitt dæmið um hversu óréttlátt það er. Mörgum smábátaeigendum sem voru svo óheppnir að búa ekki á þessum stöðum svíður núna vegna þess að þeir treystu á að þeir gætu haldið áfram að róa í ýsufrelsinu og steinbítsfrelsinu. Sú varð hins vegar ekki raunin og það er hið versta mál. Ég vona samt að þeir muni með einhverjum hætti komast fyrir vind, herra forseti, þó að ég sjái ekki fram á það.