Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:18:55 (8640)

2002-05-02 14:18:55# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mig langar til að koma aðeins inn í þessa umræðu og nefna nokkur atriði. Eins og fram hefur komið gildir þessi flugmálaáætlun eingöngu í eitt ár núna. Verið er að aðlaga hana samræmdri samgönguáætlun og það er verið að staðfesta framlög af fjárlögum til þessa málaflokks. Eftir sem áður vakna ýmsar spurningar við að fara yfir og staðfesta áætlunina.

Það sem mig langaði til að varpa aðeins fram og fá svör við ef hægt væri frá hv. formanni samgn. varðar flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri sem eru í A-flokki, þ.e. 1. flokki, og eru í stakk búnir til að þjóna sem millilandaflugvellir. Er einhver vinna í gangi til að nýta þá sem slíka? Er einhver vinna í gangi við að brjóta upp hugmyndir um lendingargjöld og hugsanlega hvort hægt væri að hafa lægri lendingargjöld í millilandaflugi, koma lággjaldaflugi á eða hafa breytileg lendingargjöld til að örva millilandaflug á þessa flugvelli? Gott væri ef hv. þm. gæti svarað því.

Eins langar mig til að lýsa þeirri skoðun minni að það er sárt til þess að hugsa hversu margir flugvellir hafa í raun og veru verið aflagðir, eins og Vopnafjarðarflugvöllur, og kallar þar á aukinn kostnað við vegakerfið ef áfram á að halda uppi þjónustu við þá sem búa á þeim svæðum þar sem búið er að leggja niður flugvelli. Eftir að flug var t.d. lagt af til Vopnafjarðar verður auðvitað að leggja áherslu á að bæta þar enn frekar samgöngur, þá sérstaklega vetrarsamgöngur. Við munum tala um það hér á eftir.

Mér finnst ánægjulegt að sjá að fara eigi í það verkefni að snyrta til á Reykjavíkurflugvelli og kaupa upp hús og skemmur sem þar eru til óprýði því að hver einasti maður sem kemur út á flugvöll sér að húsnæðið og umhverfið er okkur til vansa. Sjálfri finnst mér húsnæðið vera orðið svo mikið kofaskrifli að varla sé ásættanlegt að það standi sem móttaka farþega á aðalinnanlandsflugvelli landsins. Þá vil enn fremur beina þeirri spurningu til hv. formanns samgn. hvort verið sé að skoða og undirbúa, þá á frumstigi, að færa afgreiðsluna á Reykjavíkurflugvelli til. Þá lít ég til þess svæðis þar sem Loftleiðahótelið er núna og Íslandsflug. Er í undirbúningi að færa afgreiðsluna til? Mér finnst að húsnæði afgreiðslu Reykjavíkurflugvallar megi í raun og veru flokka með því húsnæði sem verið er að kaupa upp, húsnæði sem er til óprýði, kofaskrifli á svæðinu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en mér fyndist áhugavert að fá svör við þessum spurningum.