Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:39:13 (8642)

2002-05-02 14:39:13# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sem hér kom fram og hefði mátt heyrast meira frá stjórnarandstöðunni um þessa samræmdu samgönguáætlun. Síðasti hv. ræðumaður nálgaðist einmitt málið með þeim hætti og frá þeim sjónarhóli sem fylgir þessari samræmdu vegáætlun sem hæstv. samgrh. hefur lagt fram. Þær raddir hafa því miður heyrst of lítið í þingsalnum hvar litið yrði til framtíðar og horft á flug, vegi og hafnir og tengt saman.

Ég er líka alveg sammála honum í því að þessi samræmda samgönguáætlun hlýtur að leiða af sér að horft verður meira til jarðgangagerðar, eins og þingmaðurinn kom réttilega inn á, en að klöngrast yfir fjöll. Það er alveg ljóst. Vandamálið er hins vegar, og farið var mjög rækilega yfir það af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem þekkir mjög vel samgöngumálin fyrir vestan, einmitt það mál sem öll þjóðin stendur frammi fyrir, að þegar ýmsir hafa haft á orði að fara eigi að setja á einhver jarðgöng þar sem ekki nema svo og svo margir búa og jafnvel fjölmiðlar leggja út frá því að það séu svo og svo margir bílar og kostnaður við jarðgangagerðina og það þýði að hægt sé að gefa hverjum og einum jeppa o.s.frv. Það er ekki rödd þingmanna Reykjavíkur sem þar heyrist því að þeir gera sér alveg fulla grein fyrir því að við þurfum að halda hinni dreifðu byggð og búa í sátt og samlyndi varðandi vegamálin og samgöngumálin almennt og þá skiptir miklu máli að vegamálin séu í góðu lagi. Það er auðvitað það sem stefnt er að. Þess vegna fagna ég því að hér er af raunsæi talað um samræmda samgönguáætlun sem mun auðvitað verða landi og lýð til heilla.