Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 15:25:21 (8649)

2002-05-02 15:25:21# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég vildi sagt hafa í ræðu minni og ég vona að hafi komist til skila er að það vantar ekkert á Íslandi nema vegi. Við erum í fremstu röð allra þjóða á öllum sviðum en vegakerfið okkar er langt á eftir öðrum. (ÖJ: Við eigum líka fátækt fólk.)

Við höfum sannarlega náð verulegum árangri á síðustu tíu árum, herra forseti, en við megum ekki draga úr þessu vegna þess að þörfin er svo brýn, hagkvæmnin er svo mikil, arðurinn af þessari fjárfestingu er svo mikill.

Auðvitað kalla menn á framkvæmdir þar sem umferðin er mest. En ég var að benda á mjög mikla hagkvæmni sem lægi í því að flýta vegagerð um Barðaströnd til að losa Vegagerðina við þann gríðarlega kostnað sem er því samfara að halda uppi þessari ferju, sem var barn síns tíma og skiljanlegt að menn hafi farið út í, en í dag fullnægir hún alls ekki því sem hún þarf að gera.