Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 15:28:03 (8651)

2002-05-02 15:28:03# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvað formaður samgn. var að fara með þessum síðustu orðum sínum en ég hélt, og veit ekki betur, en að öll héruð á Íslandi, allar sveitarstjórnir á Íslandi, hafi á síðustu áratugum lagt á það grundvallaráherslu að samgöngur innan héraðs ættu að hafa allan forgang. Ég segi jafnt hvort sem það er á Austfjörðum, fyrir sunnan, norðan eða vestan. Á þetta hafa menn lagt megináherslu, allir saman. Auðvitað er það rétt að við eigum að fara í samræmda vegáætlun til lengri tíma. Auðvitað kæmi það miklu betur fram ef við gætum gert stærra og meira átak.

Ég var einmitt að benda á það mikla átak sem við verðum að gera og eigum að gera gagnvart héruðum sem eru ekki í vegasambandi nema bara hluta úr árinu eins og fyrir norðvestan og norðaustan. Þetta er gríðarlega brýnt og menn verða að sjá að það á að byggja upp þessa vegi þannig að þeir séu heilsársvegir. Það er algjört forgangsverkefni sem hefur orðið enn þá brýnna eftir að strandsiglingarnar lögðust nánast niður.