Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 16:33:36 (8662)

2002-05-02 16:33:36# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alger misskilningur hjá hv. þm. að ég geti ekki farið suður með sjó, borið höfuðið hátt og haldið áfram að berjast fyrir því að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar. (Gripið fram í.) Það verður verkefni mitt að reyna að ljúka þessu sem allra fyrst og auðvitað er það verðugt verkefni. Það hefur aldrei verið þannig svo ég viti til að menn hafi getað gert hlutina á nákvæmlega þann hátt sem þeir hafa endilega viljað. Það er a.m.k. ekki mjög algengt að menn nái öllu fram á mesta hraða.

Ég ætla aðeins að minna hv. þm. á það hvernig margt hefur breyst svo undir forustu hans í Hafnarfirði með hugmyndum um ofanbyggðarveg, sem ég veit að hv. þm. hefur haft sérstakan áhuga á, að allar lausnir á legu Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð í dag eru margfalt dýrari en þær annars hefðu þurft að vera. Það er dæmi um skipulagslegt klúður í mínum huga hvernig þrengt hefur verið að Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð þannig að nú er ekki hægt að gera þarna neitt nema með alveg ótrúlegum tilkostnaði. Verið er að tala um göng eða yfirbyggðan veg í gegnum Hafnarfjörð að hluta, gríðarlega dýr mislæg gatnamót og síðan þegar komið er yfir hæðina, yfir lækinn erum við komnir á mjög þröngt svæði milli Hafnarfjarðar og kirkjugarðsins. Allt þetta hefur leitt til þess að ekki er hægt nema með alveg ótrúlegum tæknilega erfiðum lausnum að klára dæmið.

Ég hef oft sagt og ég hef sagt hv. þm. það sjálfum að það hefur skemmt mikið hvað menn hafa lagt mikla áherslu á þennan ofanbyggðarveg og haldið að hægt væri að leysa þessi vegamál með einhverjum öðrum hætti en verið er að tala um núna.