Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:44:34 (8667)

2002-05-02 17:44:34# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra málefnalega ræðu um margt. Eitt vil ég þó gera alvarlega athugasemd við. Mér fannst það ekki mjög málefnalegt og stórmannlegt hjá hæstv. ráðherra að þakka okkur fulltrúum Samfylkingarinnar málefnalegt innlegg til þessarar umræðu en nota síðan ferðina og leggja lykkju á leið sína til að koma höggi á fjarstaddan hv. þm., fulltrúa Samfylkingarinnar í samgn., hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Svona gera menn ekki, hæstv. ráðherra.

[17:45]

Yfir í efni máls. Hæstv. ráðherra tók undir það með mér að þetta er býsna flókin samsetning og flókið hugverk sem við okkur blasir. Hér erum við annars vegar með gildandi vegáætlun og erum að gera breytingar á yfirstandandi ári í þeim efnum en eftir sem áður er síðan bætt við einhverjum lista yfir skuldir og skuldbindingar, eins og það er kallað, sem eiginlega hefur samt ekkert gildi og enga stoð af Alþingi sérstaklega. Þegar misræmi er á skapar þetta ákveðin vandkvæði sem er ákaflega óheppilegt og ákveðinn losarabrag sem ég gagnrýni sumpart. Hins vegar er erfitt við þetta að eiga því að hæstv. ráðherra er á seinni skipunum með formlega endurskoðun á langtíma- og fjögurra ára áætlun.

Ég ætla hins vegar í örstuttu máli að fara yfir Reykjanesbrautarmálið. Hann gat þess réttilega að í fyrsta áfanga Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar vantar einar 500 millj. til þess að hægt verði að ljúka þeim áfanga. Á þessari áætlun eru 680 millj. Verkefnið kostar á annan milljarð kr. og þá er allt hitt eftir.

Ég vil að lyktum spyrja hæstv. ráðherra af því að ég skaut því að honum. Hann hefur stundum gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir það að vera sein fyrir með skipurit sitt og skipulagsmál sín. Hefur hæstv. ráðherra í höndunum skipulag vegakerfisins í kringum Straumsvík af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði? Ég hef leitað eftir upplýsingum um það og fékk fá eða engin svör. Veit hann betur?