Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:56:55 (8673)

2002-05-02 17:56:55# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, LB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að fylgjast með þessari umræðu í dag og að mörgu leyti þótt hún ágæt þangað til hæstv. samgrh. kom hér upp í stólinn og lýsti því yfir að hann hefði átt í vandræðum með mál sín í vetur og ekki ráðið almennilega við þá umræðu sem fram hefur farið og ekki treyst sér til þess að taka þátt í henni af þeirri festu og þunga sem nauðsynlegt er. Hann kom hér í stólinn og kvartaði yfir því að umræðan í vetur hefði ekki verið eins og hæstv. ráðherra hefði helst viljað hafa hana og nafngreindi menn sem hefðu þá líklega ekki flutt nægilega málefnalegar ræður ef marka má orð hæstv. ráðherra.

Nú þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um það. Hæstv. ráðherra hefur sýnt það í vetur að hann hefur átt í miklum erfiðleikum með að halda utan um sitt starf og í hverju málinu á fætur öðru hefur hann átt í miklum erfiðleikum. Það er því kannski ekki nema von þegar menn koma til leiks með miklar væntingar og miklar áætlanir, þurfa síðan að koma hingað og leggja fram hugmyndir um að skera niður framlög til vegamála um 1,5 milljarða að menn þurfi að reyna að finna sér einhverja blóraböggla annars staðar í umræðunni eða einhvers staðar annars staðar en hjá sjálfum sér. Hvort sem það er vegna þess að hæstv. ráðherra klúðraði sölunni á Landssímanum eða hvað það var nákvæmlega sem gerði það að verkum að hann á í þessum erfiðleikum, þá liggur fyrir að hér er lagt til að skorið verði niður á vegáætlun um 1,5 milljarða. Það þarf því svo sem ekkert að fara mörgum orðum um það að hér birtast í hnotskurn afrek hæstv. ráðherra og það sem hann ætlar að reyna að ná fram.

Hins vegar verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér þykir ekki mikil reisn yfir því, í ljósi þess vetrar sem hæstv. ráðherra hefur lifað á hinu háa Alþingi þar sem hann hefur í hverju málinu á fætur öðru verið rassskelltur í umræðu og víðast hvar, að hann skuli veitast að mönnum þegar þeir eru ekki í salnum. En það er í sjálfu sér ekkert annað og meira og ekkert öðruvísi en við mátti búast í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið í vetur af hálfu hæstv. ráðherra. En menn temja sér þá siði sem þeir ráða við og temja sér þá kurteisi sem þeir þekkja og hæstv. ráðherra hefur birst hér í þeirri mynd sem hann sýndi sig í ræðu fyrr í dag. Það er kannski ekki miklu við það að bæta en ég held að hæstv. ráðherra væri maður að meiri ef hann kæmi hér upp í ræðustól og bæðist afsökunar á framferði sínu áðan.