Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 18:21:11 (8683)

2002-05-02 18:21:11# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, Frsm. meiri hluta MS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[18:21]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta umhvn. um frv. til laga um Umhverfisstofnun. Í umfjöllun sinni fékk nefndin á sinn fund fulltrúa frá umhvrn., frá Hollustuvernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins, fulltrúa starfsmanna Hollustuverndar og fulltrúa starfsmanna Náttúruverndar ríkisins auk fleiri aðila. Nefndin fékk einnig skriflegar umsagnir frá nokkrum aðilum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót ný stofnun, Umhverfisstofnun, sem taki við starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, veiðistjóraembættinu, hreindýraráði og dýraverndarráði er falin samkvæmt lögum. Með þessum breytingum yrðu reknir á vegum einnar stofnunar þeir stjórnsýsluþættir umhverfismála sem falla undir umhverfisráðuneytið. Stofnanaskipting ráðuneytisins byggist að mestu leyti á gömlum grunni frá því áður en það var stofnað en fram að því heyrðu þessar stofnanir undir mismunandi ráðuneyti. Þykir nú bæði tímabært og eðlilegt að endurskipuleggja stofnanaskiptingu ráðuneytisins.

Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja, efla og einfalda stjórnsýslu umhverfismála, gera hana skilvirkari og þar með auka réttaröryggi. Umrædd sameining er talin efla stofnanir ráðuneytisins faglega og stuðla að hagkvæmni í rekstri.

Nefndin ræddi sérstaklega þá faglegu og stjórnsýslulegu árekstra sem kunna að verða innan hinnar nýju stofnunar, t.d. þar sem Náttúruvernd ríkisins veitir umsagnir um ýmis málefni sem heyra nú undir Hollustuvernd ríkisins, svo sem veitingu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. grein 8.2. reglugerðar nr. 785/1999. Fram kom að við sameiningu þessara stofnana í eina stofnun muni vinnutilhögun við starfsleyfisgerð breytast. Þannig verði náttúruverndarsjónarmið tekin til athugunar strax í upphafi og felld inn í tillögur Hollustuverndar um veitingu starfsleyfa. Þannig mun fagleg ráðgjöf Náttúruverndar ríkisins fyrr í vinnsluferlinu skila sér í betur útfærðum tillögum að starfsleyfi. Með breyttu fyrirkomulagi eru starfsleyfistillögurnar betur undirbúnar frá byrjun sem hefur í för með sér aukna skilvirkni við vinnslu þeirra.

Meiri hlutinn telur rétt að benda á að í 4. gr. frumvarpsins er ekki tæmandi talning lagaákvæða sem breyta þarf verði frumvarpið samþykkt. Nægir í því sambandi að vísa til 1. gr. frumvarpsins. Nauðsynlegt er því að fram fari gaumgæfileg skoðun á þeirri löggjöf sem hér um ræðir og í framhaldi af því verði gerðar tillögur um breytingar á lögum.

Nefndin fjallaði sérstaklega um réttarstöðu starfsmanna þeirra stofnana sem munu sameinast í Umhverfisstofnun. Það er mat meiri hlutans að skv. 1. tölulið ákvæðis til bráðabirgða sé gert ráð fyrir að hægt sé að bjóða öllum starfsmönnum þessara stofnana og nefnda, annarra en forstöðumanna, hliðstæð störf og þeir sinna nú. Biðlaunaréttur starfsmanna fer síðan eftir því hvaða lög giltu við ráðningu þeirra. Ef starfsmaður hlutaðeigandi stofnana þiggur sambærilegt starf í Umhverfisstofnun og hann hefur gegnt fram að þessu fellur biðlaunaréttur hans niður. Að öðru leyti vísast hér til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að hreindýraráð verði lagt niður en verkefni þess og hlutverk færist undir Umhverfisstofnun. Áfram er þó gert ráð fyrir því að starfsmaður hreindýraráðs hafi aðsetur á Egilsstöðum. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar ábending um að vegna eðlis málsins sé rétt að áfram starfi hreindýraráð í einhverri mynd og það verði fyrst og fremst ráðgefandi fyrir Umhverfisstofnun. Meiri hlutinn leggur til að þessi hugmynd verði skoðuð af þeirri nefnd sem mun undirbúa stofnun Umhverfisstofnunar.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram nokkur gagnrýni á það að veiðistjóraembættið stjórni og skipuleggi veiðar samtímis því að standa að rannsóknum á því sviði. Meiri hlutinn leggur til að við undirbúning að stofnun Umhverfisstofnunar verði sérstaklega fjallað um þessi mál.

Í athugasemdum við frumvarpið segir að Umhverfisstofnun muni annast framkvæmd alþjóðlegra samninga hér á landi á sviði mengunarvarna og náttúruverndar sem nú eru í umsjá Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í máli fulltrúa ráðuneytisins kom fram að við endurskipulagningu á stjórnsýslu umhverfismála sé óhjákvæmilegt að einhverjar breytingar verði sem hafi áhrif á núverandi starfsemi. Þannig sé eðlilegt að eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra samninga á þessum sviðum sé í höndum stjórnsýslustofnunar en ekki rannsóknastofnana. Hins vegar sé ljóst að fagleg ráðgjöf rannsókna- og vöktunarstofnana verði áfram fyrir hendi og í því sambandi og ýmsum öðrum muni Umhverfisstofnun vafalítið þurfa að reiða sig á faglegan stuðning Náttúrufræðistofnunar Íslands, t.d. varðandi friðlýsingar o.fl.

Herra forseti. Að lokum leggur meiri hluti umhvn. til að hugað verði að því að auka fjármagn til þessa málefnaflokks, m.a. vegna umfangsmikilla alþjóðlegra skuldbindinga.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Undir þetta álit meiri hluta umhvrn. skrifa eftirtaldir hv. þingmenn: Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Katrín Fjeldsted, Ásta Möller og Ísólfur Gylfi Pálmason, en hv. þm. Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.