Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 21:54:34 (8708)

2002-05-02 21:54:34# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[21:54]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sakna svara við ýmsum spurningum sem ég beindi til hæstv. ráðherra, um lánskjörin svo dæmi sé tekið, um bókhald fyrirtækisins og á hvern hátt yrði farið í saumana á því. En ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra segir það réttmæta athugasemd að hyggja beri mjög vel að því hvað gerist að lánstímanum loknum og hver ábyrgð okkar er þar. Ég held að þetta sé mergurinn málsins. Þar höfum við skapað, ekki aðeins fjárhagslega ábyrgð heldur siðferðilega með því að þenja þennan stóra vinnustað út. Einmitt vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem við höfum tekist á hendur á þann hátt er svo mikilvægt að fara vel ofan í saumana á þessu máli.

Hæstv. ráðherra segir að þetta sé efnislega réttlætanlegt. Ef það er svo, hvernig stendur þá á því að okkur er ekki gefinn kostur á því, þingmönnum sem eigum að taka ábyrgð á málinu, að gera einmitt þetta, sjá viðskiptaáætlanir fyrirtækisins, kveðja til ráðgjafar óháða aðila til að fara í saumana á þessum málum? Það hefur ekki verið gert.

Hæstv. ráðherra segir að farið verði að reglum EES. Ég hefði viljað að farið hefði verið að reglum Íslands, lögum sem Íslendingar hafa sett en er núna vikið til hliðar. Í staðinn fáum við frv. sem segir eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Fjármálaráðherra veitir ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.`` --- Hér erum við komin inn í duttlungaákvörðun hæstv. ráðherra sem hefur vikið lögum um ríkisábyrgð til hliðar. Það er m.a. þetta sem ég gagnrýni.

Og síðan að ríkisbönkunum. Ég var ekki að dylgja neitt um þá. Ég spurði hvort ríkisstjórnin hefði veitt ríkisbönkunum fyrirmæli eða tilmæli um að kaupa bandarísku áhættufjárfestana út. Ég kem nánar að því í síðara andsvari.