Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:01:42 (8712)

2002-05-02 22:01:42# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:01]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er til marks um hvað þetta mál er vanbúið til afgreiðslu og hve mikil handabakavinnubrögð eru hér á ferðinni að hér stendur orð gegn orði. Og hvort eiga þingmenn að trúa og treysta hæstv. fjmrh., að hann hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að ekki sé verið að brjóta gegn jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar, eða eiga þingmenn að trúa hæstaréttarlögmanninum Ragnari Aðalsteinssyni? Ekki gafst tími til að sannreyna þetta eða fara frekar ofan í málið fremur en með ábyrgðargjaldið. Þar stendur orð gegn orði. Hæstaréttarlögmaðurinn segir að ekki sé hægt að taka ábyrgðargjald þegar búið er að kippa lögunum úr sambandi gagnvart þessu máli, en hæstv. ráðherra segir að það sé hægt.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra varðandi greiðslurnar vegna undirbúningskostnaðar við að safna upplýsingum úr gagnagrunninum. Hæstv. ráðherra segir: Ef Íslensk erfðagreining eða fyrirtækið skuldar ríkissjóði, þá á að gera það upp. Er það virkilega svo að hæstv. ráðherra komi með þetta mál til þings og kalli eftir þessari heimild, en hafi ekki kannað það áður hvort Íslensk erfðagreining sé í skuld við ríkissjóð? Það á að gera samkvæmt lögum um ríkisábyrgð. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóði er óheimilt að takast á hendur ábyrgð fyrir aðila sem er í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðasjóð.``

Ég trúi því varla að hæstv. ráðherra sem vill láta taka sig alvarlega hafi ekki kannað þetta mál. Ég hef ástæðu til að ætla að um sé að ræða tugi milljóna sem fyrirtækið skuldi ríkissjóði og hæstv. ráðherra hefur ekki hugmynd um það, segir að fyrirtækið eigi að gera upp ef það skuldi eitthvað. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að kanna þetta mál? Ætlar hann að standa þannig að verki að ríkisábyrgð verði ekki veitt fyrr en þessi skuld hefur verið gerð upp?

Mér finnst það alvarleg tíðindi ef hæstv. ráðherra hefur ekki kannað þetta mál.