Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:05:52 (8714)

2002-05-02 22:05:52# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:05]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þau orðaskipti sem hér fara fram bæði gagnvart ábyrgðargjaldinu, stjórnarskránni og skuld Íslenskrar erfðagreiningar við ríkissjóð eru öll í vindinum. Þingið veit ekkert hvernig þessi mál standa og hefur ekki haft tíma til þess að kanna það. Ég veit að fyrir dómstólunum þarf að kanna þessi mál að lokum, en það er skylda þingsins að afla sér allra tiltækra upplýsinga þar til bærra aðila og fara ofan í þetta mál, bæði gagnvart því að verið sé að brjóta stjórnarskrána og gagnvart ábyrgðargjaldinu, og síðan er það algerlega út í hött að þinginu sé ætlað að afgreiða málið án þess einu sinni að hæstv. fjmrh. viti um það hvort fyrirtækið sé í skuld við ríkissjóð. Það finnst mér mjög sérstakt og ég spyr enn og aftur: Verður ábyrgðin veitt fyrr en fyrir liggur að það borð hafi verið hreinsað, að engin skuld fyrirtækisins sé við ríkissjóð þegar ábyrgðin verður veitt eða heimild verður notuð ef til þess kemur? Það finnst mér að þurfi að vera alveg klárt.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra í lokin: Ef það er yfirlýstur tilgangur þessarar ríkisábyrgðar að efla hátækni og vísindastarfsemi í landinu hefði þá ekki verið eðlilegra að gera það með almennum hætti þannig að aðrir aðilar sem starfa á þessu sviði hefðu átt kost á að sækja um slíka ríkisábyrgð eða aðstoð til þess að efla hátækni og vísindastarfsemi í landinu? Er það ekki meira í samræmi við þá stefnu sem stjórnarflokkarnir a.m.k. í orði kveðnu þykjast fylgja? Alla vega telur Sjálfstfl. sig vilja fylgja slíkri stefnu. Hefði það ekki verið eðlilegra ef það er megintilgangurinn með ríkis\-ábyrgðinni að efla hátækni og vísindastarfsemi? Staðreyndin er sú að sérhagsmunir eins fyrirtækis eru settir ofar almannahagsmunum. Það er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir þegar á að fara að afgreiða þetta mál.