Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:08:00 (8715)

2002-05-02 22:08:00# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að láta reyna á reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að því er varðar þetta tiltekna mál. Ég hef útskýrt það oftar en einu sinni að við munum fara í fyllsta máta eftir þeim reglum alveg eins og önnur ríki gera í meira og minna mæli þegar þau fá aðstöðu til eða þurfa á því að halda. Þannig er að önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og í Evrópusambandinu nýta sér reglur til ríkisaðstoðar þegar þeim hentar. Þetta vitum við og það er m.a. ein ástæðan fyrir því hvernig fór fyrir skipasmíðaiðnaði okkar að menn voru kaþólskari en páfinn í því efni meðan aðrar þjóðir fóru sínu fram í sambandi við það þó að það sé allt önnur saga, en pínulítið til upprifjunar. En við ætlum að hagnýta okkur þessar reglur og ætlum að sjá hvort við getum farið í gegnum þetta mál gagnvart þeim aðilum í þeim tilgangi sem ég hef hér lýst, að byggja upp hátækni- og þekkingariðnað á þessu sviði í nýrri atvinnugrein. Ef það tekst, ef þetta verkefni lukkast og ef þetta mál gengur upp kemur að sjálfsögðu vel til greina að gera þetta á almennari grundvelli gagnvart aðilum sem eru í sambærilegri stöðu og hér er um að tefla.

En við verðum að láta á þetta mál reyna fyrst, sjá hver niðurstaðan úr því verður og síðan taka menn nýjar ákvaranir í ljósi þess.