Ávarp forseta

Mánudaginn 01. október 2001, kl. 14:31:08 (6)

2001-10-01 14:31:08# 127. lþ. 0.4 fundur 4#B ávarp forseta#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Forseti (Halldór Blöndal):

Hv. alþingismenn. Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Páli Péturssyni, hlý orð í minn garð. Ég þakka hv. alþingismönnum það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig á ný forseta Alþingis. Ég met það traust mikils.

Að venju hefur forsn. samþykkt starfsáætlun fyrir það þing sem nú er að hefjast og hefur henni verið útbýtt til þingmanna í dag. Þingfrestun að vori er áformuð í fyrra lagi á þessu þingi vegna sveitarstjórnarkosninga sem halda á 25. maí. Á seinasta þingi tókst okkur að standa við starfsáætlunina og ljúka þingstörfum á tilsettum tíma og vænti ég þess að svo megi einnig verða á þessu þingi.

Útboð í annan áfanga framkvæmda við Skálann fór fram í sumar og var tekið tilboði Íslenskra aðalverktaka í verkið. Samningurinn við verktaka kveður á um að framkvæmdum ljúki 23. ágúst á næsta ári og er gert ráð fyrir að byggingin verði tekin í notkun fyrir upphaf þings það ár. Miðað er við að hægt verði að taka bílastæði í kjallara Skálans í notkun nokkru fyrr eða í mars eða apríl 2002. Eins og kunnugt er verður tengibygging milli Skálans og Alþingishússins og leiðir af því að gera þarf nokkrar breytingar á þinghúsinu. Auk þeirra breytinga er fyrirhugað að ráðast í ýmsar aðrar breytingar á Alþingishúsinu á sumri komanda er miða að því að færa þinghúsið meir í upprunalegt horf. Það má til gamans geta þess að bygging Skálans er fyrsta byggingarframkvæmdin sem Alþingi ræðst í síðan viðbygging sem við nefnum Kringlu, var reist við Alþingishúsið árið 1908.

Seinasta fimmtudag var opnaður nýr vefur Alþingis. Að mínu mati er með þessum nýja vef stigið stórt skref í þá átt að bæta þjónustu við alþingismenn og allan almenning. Með nýja vefnum er Alþingi sem fyrr í fararbroddi þjóðþinga í Evrópu í vefútgáfu. Ég vil færa öllum þeim sem unnu að gerð vefsins kærar þakkir fyrir þeirra störf.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til þingheims fyrir að trúa mér fyrir forsetaembættinu. Ég vona að mér takist að eiga gott samstarf við hv. alþingismenn.

Þessum fundi er nú frestað til klukkan fjögur.