Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:36:15 (102)

2001-10-04 15:36:15# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það tekst kannski ekki að útskýra þetta fyllilega í andsvari enda mun fjallað um viðkomandi frv. þegar það verður tilbúið og það lagt fyrir Alþingi.

Varðandi náttúruverndarþingið þá erum við með til skoðunar í ráðuneytinu að breyta því í umhverfisþing sem hefði mun víðtækara hlutverk en náttúruverndarþing hefur í dag.

Varðandi ráðgefandi hlutverk Náttúruverndarráðs þá hefur lagaumhverfið breyst alveg gífurlega. Við erum með Náttúruvernd ríkisins, sem er orðin stofnun og óx eiginlega upp úr Náttúruverndarráði, þannig að nú sinnir heil ríkisstofnun ráðgefandi hlutverki sem Náttúruverndarráð hafði með höndum hér áður fyrr. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur einnig hlutverk samkvæmt lögum sem að vissu leyti tekur á svipuðum atriðum og Náttúruverndarráð hefur gert. Að mínu mati er Náttúruverndarráð barn síns tíma. Það er að verða úrelt fyrirbæri. Ég tel að það sé eyðsla á skattfé borgaranna að viðhalda því. Það er ekki þannig að umhvrh. vilji ekki fá gagnrýni á störf sín, alls ekki. Frjáls félagasamtök hafa miklu hlutverki að gegna við að veita stjórnvöldum aðhald í umhverfismálum. Þau eru ekkert að víla það fyrir sér. En það að halda uppi Náttúruverndarráði og borga 8 millj. kr. í það á ári þykir mér vera eyðsla á skattfé borgaranna. Þess vegna mun ég leggja til að ráðið verði lagt niður af því að við erum að vinna sömu verkin annars staðar og fáum þessa ráðgjöf annars staðar. Þetta er því úrelt fyrirbæri.