Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:37:57 (103)

2001-10-04 15:37:57# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, það er ekki tilefni til eða tími til að ræða þetta í grunninn. Aftur á móti er gott að hér skuli hafa verið hreyft við þessu máli. Það er þá líka algerlega búið að ramma það inn að við hæstv. umhvrh. erum fullkomlega ósammála um hlutverk Náttúruverndarráðs. Við eigum greinilega eftir að fá tækifæri til þess að ræða það frekar.

Ég minni bara á að nú er starfsmaður í hálfu stöðugildi hjá Náttúruverndarráði og þetta eru auðvitað ekki blíðar kveðjur sem fólk í opinberri þjónustu fær, að fá þessi skilaboð í gegnum fjárlög ríkisins að það eigi að leggja störf þess niður. Svona vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Varðandi jarðir, sem hæstv. umhvrh. nefndi, og ákveðin mál sem leysa þarf þegar stofna skal þjóðgarða þá skal minnt á að það er orðið brýnt úrlausnarefni að ríkið, og þá kannski ekki síst umhvrn. og jarðadeild landbrn., fari að vinna uppbyggilegt starf í þá veru að jarðir í eigu ríkisins séu ekki stöðugt seldar úr eigu ríkisins heldur verði skoðaðir þeir möguleikar að við getum búið til einhvers konar skiptimynt, þ.e. að jarðir sem ríkið á víða um land gætu mögulega gengið sem skiptimynt upp í aðrar jarðir sem væru fýsilegar vegna friðlýsingar- eða náttúruverndarmála. Þar er mjög yfirgripsmikið mál sem ég held að sé þess virði að Alþingi ræði og taki til umfjöllunar á þessum vetri.