Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:43:23 (106)

2001-10-04 15:43:23# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég minni á að kaupmáttur launa er reiknaður með sama hætti á Íslandi og í öllum öðrum löndum í kringum okkur. Allar skýrslur sýna að hann hafi aukist langmest á Íslandi á undanförnum árum. Það er auðvitað hægt að halda hér fallegar ræður um að þetta hafi komið misjafnlega niður á fólki, það er náttúrlega eins og alltaf er. En almennt hafa laun hækkað hér langt umfram það sem gerst hefur í nágrannalöndunum. Það hefur auðvitað skilað sér til heimilanna í landinu.

Að það sé ríkisstjórninni að kenna að menn hafi tekið lán af því að bankarnir buðu þau, ég skil bara ekki slík rök. Það er varla eins og lóttóvinningur að fá lán í banka. Sjái maður auglýsingu í blaði þar sem einhver er að bjóða honum lán þá hleypur hann ekki til og tekur lánið bara af því að það stendur til boða. Þetta eru alveg furðuleg rök. Ég á ekki eitt einasta orð yfir þau.

En hv. þm. svaraði ekki spurningu minni. Ég spurði hana hvort hún vildi taka upp gamla kerfið, að einstaklingarnir eða heimilin í landinu sem ætla að fjárfesta þurfi að spyrja stóra bróður, hæstv. fjmrh. eða hans menn, hvort þeir megi kaupa sér bíl, sófasett eða eldhúsinnréttingu, eða annað slíkt. Þannig var það hér á árum áður. Öðruvísi getur ríkisstjórnin ekki stjórnað eyðslu heimilanna. Það er bara þannig.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Við eigum að treysta fólkinu í landinu fyrir því að hafa forræði yfir eigin fjármálum. Við eigum ekki að að anda ofan í hálsmálið á hverjum einasta manni. Við eigum að treysta fólkinu í landinu.