Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:07:57 (120)

2001-10-04 16:07:57# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það var víða sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson kom við í ræðu sinni og ég vil byrja á því að athuga hvort ég hafi skilið orð hv. þm. rétt varðandi umfjöllun hans um flutning Byggðastofnunar. Það var í raun ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við því að verið væri að flytja Byggðastofnun út á land væru þau að það bæri að flytja fjármuni frá stofnuninni til ráðuneytisins, þ.e. að ríkisstjórnin væri að rýra stofnunina af þeirri ástæðu að hún var flutt út á land og þess vegna þurfi að efla ráðuneytið. Ég verð að fá svör við þessu frá hv. þm.

Síðan þarf ég að rifja örlítið upp fyrir hv. þm. af þeirri einföldu ástæðu að hann hélt því fram að ríkisstjórnin hefði verið upptekin við það hvern einasta dag á valdaferli sínum að lækka skatta en þar sem tími minn er allt of stuttur til þess að ég geti farið yfir þetta, þá verð ég að gera það í seinna andsvari mínu en það er augljóst mál af því sem ég hef fyrir framan mig, sem er meira að segja úr hinu merka dagblaði Morgunblaðinu, að það er heldur betur víðs fjarri að ríkisstjórnin hafi ekki gert annað en að lækka skatta.