Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:34:18 (128)

2001-10-04 16:34:18# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:34]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að vekja á því athygli að hér er auðvitað allt önnur söguskýring en hæstv. fjmrh. hafði uppi sjálfur vegna þess að hæstv. fjmrh. sagði að tölur Þjóðhagsstofnunar, spár Þjóðhagsstofnunar hefðu komið seinna en spá fjmrn. Þar var hvergi minnst á það að þarna væri um allt aðrar upplýsingar að ræða, fyrir utan það að hæstv. fjmrh. hélt því fram og hefur haldið því fram í fréttatilkynningu að útkoman hjá fjmrn. væri, ef eitthvað væri, verri en hjá Þjóðhagsstofnun. Hér er því eitthvað sem rekst á, fyrir utan það að hæstv. fjmrh. sagði það sjálfur á kynningarfundi með fjárln. að í fjárlagafrv. væru eingöngu 600 milljónirnar sem gert væri ráð fyrir í hátekjuskatti og annað væri ekki inni og ekki tekið tillit til af þeirri einföldu ástæðu að ekki væri búið að taka neinar ákvarðanir um málið.

Mér heyrist því, herra forseti, að hv. þm. sé að hluta til að gefa til kynna að hæstv. fjmrh. hafi vísvitandi haldið upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun og það tel ég nú býsna alvarlega ásökun á hendur hæstv. ráðherra.