Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:34:23 (143)

2001-10-04 17:34:23# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég sérstaklega vekja athygli á þessari yfirlýsingu talsmanns Sjálfstfl. um launamál, að launahækkanir, hvernig sem á stendur, hverjir sem í hlut eiga, eigi ekki rétt á sér. Er hann að tala til sjúkraliðastéttarinnar sem er með innan við 90 þús. kr. í byrjunarlaun? Er hann að tala til þeirra?

Gerir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson engan greinarmun á láglaunafólki og hátekjufólki? Skiptir engu máli hver tekjumunurinn er í þjóðfélaginu? Skiptir það hann engu máli? Er bara horft á málin með einu auga í miðju enni, málavextir aldrei kannaðir eða greinarmunur gerður á þeim annars vegar sem bráðnauðsynlega þurfa á launahækkunum að halda og hinum sem hafa ærið nóg? Mér finnst þetta vægast sagt undarlegur málflutningur, herra forseti.

Við ræðum hér um fjárlög og sú umræða sem fer fram nú snýst um aðalatriði málsins. Eins og menn þekkja þá fer nú í hönd mikil vinna í tengslum við fjárlagafrv. og henni lýkur ekki fyrr en undir áramótin. Þá mun þingmönnum gefast tækifæri til að fara nánar í saumana á málum, verði nefndin ekki við ábendingum og kröfum sem fram hafa verið settar um breytingar á frv.

Mig langar á þessum fáu mínútum sem ég hef til ráðstöfunar, að tipla á örfáum atriðum sem fram koma í þessu litla riti sem fylgir fjárlagafrv. og heitir Stefna og horfur. Ég notaði fyrri ræðu mína til að fara yfir skuldastöðu ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja í landinu og heimila og vakti athygli á þeirri ófrýnilegu mynd sem þar blasir við okkur en heildarskuldir þjóðarbúsins eru núna 259% af vergri landsframleiðslu og hafa ekki verið hærri.

Ég staðnæmist fyrst við þá yfirlýsingu sem gefin er í þessu litla riti að við þær aðstæður sem við búum við nú sé ástæða til að lækka skatta. Síðar segir að íslenskt atvinnulíf búi ekki lengur við það forskot sem hér ríkti í skattalegu tilliti á síðasta áratug. Þetta eigi bæði við um tekjuskattshlutfallið sem í dag sé einungis um meðallag OECD-ríkjanna en hafi verið langt fyrir neðan það fyrir tæpum áratug. Síðan er vísað í aðra þætti einnig.

Herra forseti. Þetta er ekki alls kostar rétt staðhæfing. Við skoðun á skatthlutfalli hér á landi annars vegar og innan OECD hins vegar kemur í ljós að íslensk fyrirtæki --- hér erum við fyrst og fremst að tala um tekjuskatta fyrirtækja --- búa við mun lægri skatta en gerist hjá OECD, eða 1,2% af vergri landsframleiðslu á móti 3,2% hjá OECD. Hins vegar er það svo að tekjuskattur einstaklinga, og það er rétt, er ívið hærri en gerist innan OECD eða 11,9% hér á landi á móti 10,2% hjá Evrópuríkjum OECD. Þó er tekjuskattur einstaklinga mun lægri hér á landi en á Norðurlöndum, þar sem þetta hlutfall er 17,5% af landsframleiðslunni.

Hvað varðar launa- og tryggingagjöld þá eru þau mun lægri hér á landi en annars staðar, 2,9% af landsframleiðslu hér á landi á móti 11,5% hjá OECD. Það eru fyrst og fremst skattar á vöru og þjónustu sem eru ívið hærri hér á landi en í þessum samanburðarríkjum okkar. Þegar litið er á heildartekjur hins opinbera þá eru þær mun lægri hér en gerist hjá viðmiðunarríkjum okkar hjá OECD, eða 35,9% á móti 39,8%. Þetta hlutfall er miklu hærra síðan á Norðurlöndum, 47,9%. Þær staðhæfingar sem hér koma fram í fylgiriti fjárlagafrv., hvað varðar samanburð á skattlagningu á Íslandi annars vegar og skattlagningu innan OECD hins vegar, eru því ekki alls kostar réttar.

Næst vil ég staðnæmast við skrautfjaðrir ríkisstjórnarinnar. Þar eru fyrstar til að telja barnabæturnar. Hér segir, með leyfi forseta, og er þar vísað til hækkunar á barnabótum á árabilinu 2001--2003 sem nemur 2 milljörðum króna:

,,Fyrsti áfangi kom til framkvæmda á þessu ári. Megininntak breytinganna er að ótekjutengdar barnabætur eru teknar upp á nýjan leik, dregið er úr skerðingu bótanna vegna tekna og skerðing vegna eigna er felld niður. Þessar breytingar leiða til verulegrar hækkunar á ráðstöfunartekjum alls barnafólks en hinir tekjulægri bera þó mest úr býtum.``

Hér kemur tvennt fram, að það eigi að hækka barnabætur um 2 milljarða á árabilinu 2001--2003 og síðan er staðhæft að þeir beri mest úr býtum sem minnstar hafi tekjurnar. Í þessu sambandi vil ég minna á hver þróunin hefur orðið í greiðslu barnabóta á undanförnum árum. Árið 1991 námu barnabætur alls 4,8 milljörðum kr. Undir aldarlok hafði þessi upphæð lækkað og var komin í 3,8 milljarða kr., hafði sem sagt lækkað um einn milljarð eða þar um bil. En samkvæmt útreikningum fjmrn. nam þessi munur um 2 milljörðum að raungildi og var samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins 5,8 milljarðar 1999, kominn niður í 3,8 milljarða undir aldarlok. Þarna munaði sem sagt 2 milljörðum sem menn ætla núna að skila til baka á næstu þremur árum. Menn eru þar með að færa barnabæturnar í svipað horf, sennilega eru þær þó heldur lægri, en var fyrir áratug.

En gagnast þetta því fólki sem hefur minnstu tekjurnar eins og staðhæft er? Það sem gerðist með ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta vetri var hið gagnstæða. Það var verið að draga úr tekjutengingu kerfisins þannig að hlutfallslega kæmi ívið meira til þeirra sem hefðu meðaltekjur eða hærri tekjur. Hluti af þessum ráðstöfunum var að sjá til þess að fyrir börn sjö ára og yngri yrði greiddur ótekjutengdur barnabótaauki að upphæð 33--34 þús. kr. Það var hugsunin.

Ég veit ekki hve margir muna eftir því að fyrir fjórum árum eða þar um bil voru greiddar fyrir öll börn 40 þús. kr., ekki bara að sjö ára aldri heldur að 16 ára aldri. Þegar þetta var afnumið var einn hópur skilinn eftir. Það voru börn tekjulægsta fólksins. Það fékk greitt fyrir barn að sjö ára aldri viðbótargreiðslu, sem svo var nefnd, sem nam 31--32 þús. kr. Þessi greiðsla var síðan felld brott við skattkerfisbreytingarnar á sl. vetri. Fólkið sem hefur minnstar tekjur bar því ekki mest úr býtum við þessar skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er þrotinn. Ég er í rauninni rétt að hefja yfirferð mína en ég ætla núna og helst sem oftast að virða tímamörk og lýk máli mínu.