Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:26:42 (151)

2001-10-04 18:26:42# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt að segja nokkur orð hér í lokin eftir þá löngu en að mörgu leyti þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram í allan dag. Ég vil þakka þeim sem tekið hafa þátt í henni fyrir framlag þeirra til málefnalegra umræðna.

Margt hefur vissulega borið á góma. En auðvitað hefur mörgum orðið að umtalsefni annað frv. sem búið er að útbýta og þar á meðal sjálfum mér, þ.e. frv. til laga um breyting á ýmsum skattalögum sem fram er komið í bandormsformi. Það mál munum við auðvitað ræða sérstaklega síðar þegar það kemur til 1. umr. og tel ég þess vegna rétt að geyma mér að svara spurningum um þau málefni sérstaklega núna og mun reyna að gera það í framsögu fyrir því frv. þegar þar að kemur sem verður vonandi í næstu viku.

Ég tel að hér hafi verið drepið á margt. Stjórnarandstaðan hefur að sjálfsögðu reynt að benda hér á það sem hún telur vera snögga bletti á frv., undirbúningi eða forsendum þess. Við því er ekkert að segja ef það er gert málefnalega og eðlilega eins og flestir hafa gert hér í dag.

Mig langar að segja örfá orð um fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar varðandi uppgjör í erlendri mynt og ársreikninga og bókhald í erlendri mynt sem ætlunin er að heimila. Það er náttúrlega ekki partur af fjárlagafrv. sem slíku og það er heldur ekki inni í þessu skattafrv. vegna þess að það mundi koma sem breyting á lögunum um bókhald og ársreikninga sem er væntanleg í kjölfarið. Um það verður því líka sérstök umræða. Ég vil bara segja að ég tel ekki að sú breyting sem hérna er verið að tala um muni hafa nokkur áhrif á framtíð krónunnar. Ég tel að það sé annað mál og reyndar miklu stærra. En spursmálið um að heimila fyrirtækjum að gera upp ársreikninga í erlendri mynt er fyrst og fremst hugsað sem hagræðingarmál, hagkvæmnismál fyrir fyrirtæki sem eru í miklum og jafnvel fjölþættum erlendum viðskiptum. Það getur auðveldað þeim samstarf við erlend fyrirtæki og auðveldað þeim starfsemi sína að fá þessa heimild. Þó er ekkert endilega víst að mjög mörg fyrirtæki telji sér þetta henta. En sjálfsagt er að bjóða upp á þetta fyrir þá sem telja það henta sér.

Ég sagði áðan að ég vildi geyma mér að svara spurningum um skattamálin eða ítarleg atriði í þeim þar til það mál kemur sérstaklega til umræðu. Ég segi þetta aftur vegna þess að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er genginn í salinn. Hann afhenti mér lista með spurningum sem flestar snúa að því máli. Reyndar svarar frv. ýmsum þeirra og töflur í greinargerð og þess háttar um upphæðir af ýmsu tagi. Ég vænti þess að hann hafi skilning á því að ég muni koma nánar að því efni þegar við ræðum það vonandi í næstu viku, enda er óhægt um vik fyrir mig að lesa upp allar þessar spurningar og ætla að svara þeim þegar aðrir þingmenn hafa ekki heyrt þær eða rökstuðninginn fyrir þeim af hálfu fyrirspyrjenda.

[18:30]

Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér fyrr í dag, að auðvitað er óvissa í kringum þetta mál. Það er ekki fyrir það að frv. er í blárri kápu, kuldablárri eða klakablárri kápu eins og þingmaðurinn sagði. Það er bara alltaf þannig að í svona máli eru margir óvissuþættir. Það höfum við náttúrlega rætt ítarlega hér í dag, sérstaklega við upphaf umræðunnar.

Hins vegar er skýringin á því að liturinn í ár er blár sú að það er ákveðin litasería í gangi: gulur, rauður, grænn og blár, sem fer hringinn. Flóknara er það mál nú ekki. Það er því enginn sérstakur kuldi eða klaki á bak við þessa kápu eða þetta frv.

Ég tel að umræðan í dag geti að mörgu leyti hjálpað fjárln. við sitt mikilvæga verkefni sem fram fer á næstu vikum, u.þ.b. tveimur næstu mánuðum. Það er auðvitað þannig að 1. umr. um fjárlagafrv. á að vera almenns eðlis eins og hér hefur verið í dag. Það hefur ekki verið mikið rætt hér um einstakar fjárveitingar eða slíkt. Þannig á það heldur ekki að vera við 1. umr. að mínum dómi. Það á að ræða þetta á almennum forsendum og um hlutverk frv. í hinu efnahagslega samhengi. Síðan ræðum við framhaldið við næstu umræður.

Ég held líka að umræðan í dag geti að ýmsu leyti orðið til gagns fyrir efh.- og viðskn. þegar hún tekur til umfjöllunar frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Hér hafa komið fram ýmis sjónarmið sem hún getur farið yfir og haldið til haga eftir atvikum.

Ég vil að endingu þakka mönnum á nýjan leik fyrir þessa umræðu og vonast til að sjá alla þingmenn hér jafnkáta og hressa við 2. umr. um málið.