Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:53:50 (200)

2001-10-08 16:53:50# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona það líka og ég hef fulla ástæðu til að vona það vegna þess að mér finnst að Vinstri grænir hafi stigið stórt skref í áttina til sjónarmiða okkar og var að vekja athygli á því áðan og var mjög ánægður með það.

Ég vildi hins vegar skilja aðeins betur hvernig þeir hugsa þessa fyrningu og spurði að því. Og ég endurtek þá spurningu: Hvernig ber að skilja þá klásúlu um að úthlutun, þ.e. þessi úthlutun á veiðiréttindunum sem eru þarna dregin frá í upphafi og útgerðarmenn geta fengið aðgang að, eru fyrnd en samt hjá útgerðarmönnunum og á að endurskoða áður en 20 ár eru liðin. Mér finnst það ekki passa við það að samkvæmt töflunni sem er í bókinni, í séráliti hv. þm., eru þessi 3% horfin út við 12 árin. Ég spyr: Á að skilja þetta svo að meiningin sé að útgerðarmennirnir fái þetta síðan bara aftur þá?

Þetta var nú ekki flóknara. En mér finnst þetta skipta máli vegna þess að auðvitað þurfum við að ná saman um það hve hratt við innköllum þetta. Auðvitað skiptir það máli.

Ég tel hins vegar að við höfum spilað út alvarlega í því máli. Það er bæði hægt að innkalla þetta með því að gefa mönnum árafjöldann til þess að aðlaga sig og einnig er hægt að gera það með því að koma til móts við þá á því verði sem fæst fyrir þær veiðiheimildir sem koma á markað. Við höfum lagt það til. Ég held að það sé skynsamlegt vegna þess að það gefur okkur færi á að koma nýju kerfi á hraðar en ella.