Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:26:15 (211)

2001-10-08 17:26:15# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði áðan að hann gerði ekki mikinn mun á því hvort verið væri að skattleggja útgerðina eða þjóðnýta --- að mér skildist --- veiðiréttinn. Nú spyr ég hv. þm.: Lítur hann þannig á að verið sé að þjóðnýta veiðiréttinn með því að fyrna veiðiheimildirnar? Lítur hann þannig á að útgerðin í landinu eigi auðlindina?

Síðan langaði mig til að spyrja hv. þm., þar sem hann talaði um að hann vildi að það yrði reynt að feta sig út úr þessu kerfi því að það væri fullreynt og menn gætu séð að það gengi ekki upp: Með hvaða hætti telur hann að eigi að gera það? Telur hann að það þurfi ekki til þess einhvers konar fyrningarleið, eins og við erum að leggja til, til að fara út úr kerfinu? Telur hann (Forseti hringir.) ekki þurfa að taka tillit til þeirra sem eru í útgerðinni á þeim tíma sem það tekur að leggja kerfið af?