Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:30:46 (215)

2001-10-08 17:30:46# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Óneitanlega var fróðlegt að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson lýsa því yfir að hæstv. sjútvrh. hefði brotið loforð við smábátaútgerðina frá því fyrir nokkrum missirum. Í öðru lagi var líka fróðlegt að heyra hv. þm. lýsa því yfir að hæstv. sjútvrh. væri í reynd að leiða gervalla smábátaútgerð í landinu á höggstokk með því að taka undir kvótategundir sem hingað til hefur verið heimilt að veiða frjálsar sem aukaafla.

Hv. þm. spurði líka áðan: Er ég þekktur að því að standa ekki við orð mín? Ég spyr þess vegna hv. þm. Það liggur fyrir tilboð til hans um að flytja með ýmsum þingmönnum stjórnarandstöðunnar frv. sem miðar einmitt að því að heimila smábátamönnum að veiða þessar tegundir áfram frjálsar án kvóta. Ég spyr hv. þm., af því að hann er þekktur að því að standa við orð sín eins og hann réttilega bendir á: Ætlar hann að þekkjast þetta boð?