Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:07:47 (232)

2001-10-08 18:07:47# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess að stuttur tími er til andsvara ætla ég að svara betur í ræðu minni á eftir því sem hv. þm. spurði um.

En mér finnst ég þurfi að spyrja hv. þm. líka í tilefni af orðum hans. Hann talaði mikið um jafnræðið og spurði hvort það næðist með þeim tillögum sem við erum með, spurði hvort jafnræði næðist gagnvart landsbyggðinni, hvort jafnræði gagnvart nýliðum næðist og spurði reyndar hvort jafnræði yfirleitt næðist ef þyrfti að skammta eitthvað.

Já, það næst. Við höfum leikreglur í þjóðfélaginu sem er ætlað að koma á jafnræði og jöfnum rétti manna til þess að nálgast verðmæti. Við leggjum einfaldlega til að í sjávarútveginum verði komið á leikreglum sem séu sambærilegar við þær sem gilda í öðrum atvinnugreinum. Að ekki verði handvalið á þann hátt sem gert var í upphafi, og úthlutun látin standa um aldur og eilífð sem byggðist á því að einhverjir hefðu verið að gera út einhver þrjú ár á öldinni eða hefðu fengið af öðrum ástæðum ... (Forseti hringir.) --- Hæstv. forseti?

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðjast velvirðingar á því að tímamæling þingsins er biluð, tölvukerfið er bilað, þannig að ég verð að mæla tímann öðruvísi.)

Hæstv. forseti. Á ég að skilja það svo að tími minn sé liðinn?

(Forseti (ÁSJ): Í fyrstu umferð, já.)